„Vorið 2018 fór ég í ógleymanlega ferð til Kúbu með tveimur skvísum, þeim Helgu Hvanndal Björnsdóttur og Malínu Gylfadóttur. Eitt kvöldið enduðum við uppi á fjalli, eftir að kúbanskir kúrekar höfðu lokkað okkur þangað á hestunum sínum.“ Svona hefst ævintýraleg frásögn Heiðu.

Ævintýrið hefst í Mexíkóborg

Haustið 2017 settist Heiða að í Mexíkóborg, með vinkonu sinni Helgu. „Markmið mitt var að skrifa bók og Helga ætlaði að læra spænsku og njóta lífsins. Helga gerði það, hún lærði spænsku, baðaði sig í sól og varð helsti áskrifandi Uber í borginni,“ segir Heiða.

„Þegar jólin nálguðust mundum við að við þyrftum landvistarleyfi. Ekki vildum við vera reknar úr landi (eins og Íslendingar eru duglegir við að gera við aðra). Til þess að endurnýja ferðamannavísað keyptum við okkur farmiða til Havana á Kúbu. Við buðum Malínu með, vinkonu Helgu úr heimspekináminu sem var að slæpast um Mið-Ameríku. Stuttu síðar hittumst við, glókollarnir þrír, á Jóse Matí-flugvellinum í Havana.“

Sannar eða falsaðar minningar

„Fyrstu dagarnir voru óskiljanlegir. Allt var svo súrrealískt. Ég er ekki viss hvort minningarnar mínar séu sannar eða falsfréttir. Ég man allavega að við vorum inni á svakalegum skemmtistað, Fabrica de Arte Cubano, sem var líka listasafn. Staðurinn var á þremur hæðum með ólíkan DJ í hverju sýningarrými og óteljandi bari. Á efstu hæð var bíósalur þar sem kvikmyndin Scream var um það bil hálfnuð og meðfram einum veggnum voru gylltar svalir sem stóðu eins og predikunarstóll yfir áhorfendum. Auðvitað fórum við þangað, glókollarnir þrír. Ég teygði mig yfir handriðið og hrópaði: „AFSAKIÐ HLÉ!“

Í sömu mund litu þrír litlir bleiknefjar upp og kölluðu: „Eruð þið Íslendingar? Við erum frá Borgarfirði Eystri!“ Ég hrópaði á móti: „Þekkið þið Hrefnu Rós, bestu vinkonu okkar?“ Þau litu undrandi upp og einn þeirra kallaði: „Foreldrar okkar eru systkini!“ Þá hugsaði ég að þetta þyrfti að fara í skáldsöguna mína en ég gleymdi alltaf að skrifa það niður.“

Ógleymanlegur túr

Ferðin til Kúbu var að sögn Heiðu ekki mikið plönuð. „Við höfðum blessunarlega pantað gistingu í sveitaþorpinu Viñales. Annars hefðum við orðið heimilislausar. Það var erfitt að komast í net og heimamenn áttu það til að ljúga að okkur.

Eftir fyrsta djammið í Havana enduðum við hjá yndislegri kúbanskri konu sem bauðst til að panta fyrir okkur túr með leiðsögumanni um sveitina morguninn eftir. Við svöruðum játandi.

Daginn eftir vöknuðum við við hnegg fyrir utan svefnherbergisgluggann. Helga fékk næstum því hjartastopp. Kúbanska konan hafði ekki minnst á að túrinn færi fram á hestbaki en það var of seint að hætta við. Kúbanski kúrekinn var mættur á svæðið með þrjá hesta í eftirdragi, einn fyrir hvern glókoll. Við drifum okkur á bak og eltum kúrekann um fjöll og firnindi, meðfram tóbaksekrum og ávaxtarækt. Riðum með rakaðar lappirnar fram hjá ávaxtatrjám af öllum stærðum og gerðum, bruggverksmiðjum, tóbaksekrum og vinnandi sveitafólki. Eftir að hafa baðað okkur í laug innan í helli spurði kúrekinn (sem varla hafði sagt stakt orð allan daginn) hvort ekki mætti bjóða okkur að sjá sólsetrið af fjallstindi. Ég svaraði auðvitað játandi. Hann tók af okkur loforð um að segja engum frá fyrirheitunum. „Auðvitað,“ svöruðum við, þó við værum ekki alveg blautar á bak við eyrun, allavega allar orðnar 25 ára og komnar með háskólagráðu í þokkabót.

Heiða og vinkonur hennar skemmtu sér konunglega í ferðinni.
Mynd/Aðsend.

Þegar kvölda tók læddumst við að útjaðri bæjarins þar sem þrír kúrekar og sex hestar biðu okkar. Eins og uppaldar í Skagafirði skelltum við okkur á bak og leyfðum kúrekunum að teyma okkur upp fjallgarðinn. Þeir leiddu okkur í sýningarferð um sveitina, en þeir voru ekki að sýna okkur útsýnið, heldur voru þeir að sýna okkur. Við vorum kynntar fyrir foreldrum og systkinum, nágrönnum og kunningjum, vinum og óvinum. Ég hafði orð á því við Helgu og Malínu að kannski væri þetta ögn undarlegt. Þær voru sammála.

En allt í lagi, gleymdi ég ekki að minnast á rommið? Á Kúbu er bruggað romm og það var romm alls staðar. Við komum með eina flösku í sólsetursferðina og þeir komu með nokkrar. Við sum sé riðum upp til fjalla og drukkum besta romm sem ég hef nokkurn tímann smakkað á meðan sólin málaði himininn fíkjubleikan. Tunglið tók við og skein bjartara en íslensk haustsól, stjörnurnar tindruðu eins og sólargeislar.

Glókollarnir, kúrekarnir og rommið bragðgóða.
Mynd/Aðsend.

Það var í alvöru svo bjart að við sáum enn móta fyrir fjöllunum, þorpinu fyrir neðan og svo rötuðum við meira að segja inn á bar lengst uppi í fjöllum. Hann var byggður úr pallettum og með stráþaki og einum barþjóni, ofgnótt af rommi og salsatónlist. Við glókollarnir smökkuðum smárétti beint frá býli sem ég man ekki hvernig brögðuðust, því það voru ekki smáréttirnir sem voru eftirminnilegir, heldur útsýnið, litir sveitarinnar og þorpsins fyrir neðan. Ræktunarlandið sem fólkið í sveitinni fékk nær engan ávöxt af og tóbaksekrurnar sem löðuðu að grunlausa bleiknefja.

Mynd/Aðsend.

Kúrekarnir hækkuðu í tónlistinni og við dönsuðum ögn salsa, drukkum ögn rótsterkt romm og reyktum kannski smá vindla með hunangi á endanum. En þegar dimma tók, þegar tunglskinið hafði dempað birtuna á barnum allverulega sagði ein okkar allt í einu: „Jæja, við viljum gjarnan fara niður af fjallinu.“ Einn kúrekanna leit spurnaraugum á okkur, svaraði: „Æi.“ Annar þeirra lagði til að við stelpurnar gengjum einar niður í þorpið og sá þriðji stakk upp á að við færum öll að baða okkur í vatni skammt frá. Ég veit þetta hljómar svæsið, en okkur leið alveg eins og við hefðum stjórn á aðstæðum. Fyrir utan að vera fastar með ókunnugum kúrekum uppi á fjalli þar sem internet og símasamband var ekkert. Auðvitað þurftum við ekki að hafa áhyggjur því öll sveitin vissi af verustað okkar.“

Góð saga í skáldsögu

„Við létum þá heyra það, sögðum þeim að skammast sín og stigum aftur á bak hestunum. Ein okkar sagði að hestarnir væru núna okkar svo kúrekarnir hoppuðu á bak og eltu okkur niður fjallið með skottið á milli lappanna. Þegar í bæinn var komið gerðum við okkur grein fyrir því að það væri stranglega bannað að vera á hestbaki inni í bænum að næturlagi svo við sögðumst vilja skila hestunum. Þegar kom einhver gaur auga á okkur og hótaði kúrekunum illindum. Áður en lengra gekk í þeim bardaga stukkum við af baki og hlupum uns við komum auga á bar sem var umkringdur túristum. Við önduðum léttar og stukkum inn á dansgólfið þar sem All the Single Ladies með Beyoncé beið okkar. Á þessum tímapunkti hugsaði ég með mér að þessi saga yrði frábær í skáldsögu.

Við glöddumst yfir því að hafa stungið kúrekana af og stuttu seinna valhoppuðum við heim á leið, glókollarnir þrír, hönd í hönd niður aðalgötuna í Viñales.“

Skrifaði Getnað í staðinn

„Þessi ferð var svo súrrealísk. Ég ætlaði alltaf að nota hana, nota öll þessi ævintýri og nota þessa kúreka til að skapa skondna en sjóðandi heita skáldsögu. En veruleikinn vafðist alltaf fyrir mér. Sama hvað ég skrifaði; efnið átti ekki roð í raunveruleikann. Þess vegna samdi ég öðruvísi skáldsögu, um getnað í Reykjavík og ástarsambönd og systkinasambönd og alls konar djamm og havarí. Ég samdi það í faraldrinum þegar raunveruleikinn var lagstur í dvala og skáldskapurinn var öllu skemmtilegri. Núna er hún nýkomin út, bókin Getnaður, og er fáanleg í öllum helstu bókabúðum. Núna er líka ekki lengur kóvid, svo ég er ofboðslega hrædd um að hinn reykvíski raunveruleiki hafi betur gegn Getnaði. En ég vona að það þurfi ekki alltaf að vera keppni. Að í staðinn sé bara hægt að dvelja í ævintýrunum um stund og skemmta sér yfir fáránleikanum.

En allavega, þegar við komumst aftur á leiðarenda, heim til yndislegu kúbönsku konunnar, skáluðum fyrir Che í hinsta sinn áður en fluginu okkar var frestað fjórum sinnum og rafmagnið fór af einu sinni á José Matí-flugvellinum í Havana, vorið 2018. Þegar við lentum í Mexíkóborg fengum við framlengt ferðamannavísa til að vera allavega sex mánuði í viðbót. Og eftir þetta allt saman, að nokkrum árum liðnum, er ljóst að kúrekaförin var bara smáræði í samanburði við ævintýrin sem biðu í Mexíkó,“ segir Heiða að lokum. ■