„Um helgina 10-12. september er til dæmis í boði stórskemmtilegt Gospel-kórnámskeið sem endar á tónleikum á sunnudaginn. Námskeiðið hefst á föstudagskvöldi. Það er æft allan laugardaginn og svo eftir hádegi á sunnudeginum. Námskeiðið endar svo með heljarinnar tónleikum klukkan 16.00 á sunnudaginn. Það kostar 15.000 krónur að taka þátt og hressing er innifalin. Það mega allir sem hafa áhuga á að syngja taka þátt og við auglýsum sérstaklega eftir körlum að taka þátt,“ segir Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi og flokksleiðtogi í Reykjavík.

Samferða fyrir eldri borgara

Samferða er nafnið á starfi Hjálpræðishersins með eldri borgurum, og miðast aldurinn við fólk sem er sextugt og eldra. „Það eru í raun allir velkomnir sem hafa áhuga og komast á þessum tíma. Aldur er svo afstæður. Starfið hefst á mánudaginn 27. september klukkan 15.00-16.30. Þarna er í boði létt samvera með smá kaffisopa. Við syngjum saman og hlustum á framhaldssögur. Þá hefur verið lesið upp úr sögum eins og þeim eftir Guðrúnu frá Lundi. Einnig hafa verið lesnar gamlar gamansögur, sögur frá Reykjavík í gamla daga og stundum eru sagðir brandarar. Einstaka sinnum mætir einhver með erindi fyrir hópinn. Þarna mætir iðulega um 15-20 manna hópur á breiðu aldursbili, en sú elsta sem mætir til okkar er að nálgast nírætt.“

Við syngjum saman og hlustum á framhaldssögur. Þá hefur verið lesið upp úr sögum eins og þeim eftir Guðrúnu frá Lundi. Einnig hafa verið lesnar gamlar gamansögur, sögur frá Reykjavík í gamla daga og stundum eru sagðir brandarar.

Ganga saman

Gönguhópurinn hittist alltaf klukkan 11.00 á þriðjudögum. „Við byrjum á léttri göngu í Elliðaárdalnum og endum svo á samverustund og snæðum hádegisverð í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Gangan er létt og rétt um þrír kílómetrar og flestir ráða við hana. Ef veður er vont er stundum tekinn hringur í hverfinu. Flestir sem mæta er fólk sem kemur reglulega og þeir sem treysta sér ekki í gönguna mæta til þess að fá sér að borða með hópnum.“

Handavinna

Á miðvikudögum klukkan 15.00 hittist handavinnuhópurinn. „Þar mætir fólk með handavinnuna sína, hvort sem það er prjónar og garn, krosssaumur eða annað og vinnur á staðnum. Hópurinn er hugsaður fyrir hvort tveggja byrjendur og lengra komna. Þarna eru svo reyndar handavinnukonur sem geta veitt aðstoð. Sumir eru að vinna eigin handavinnu á meðan aðrir stefna á að selja á basarnum í desember.“

Sauma fjölnota poka

Á mánudögum og fimmtudögum klukkan 10-13 er saumanámskeið fyrir hælisleitendur og konur af erlendum uppruna. „Þetta starf hefur verið haldið undanfarin ár í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar. Við nýtum tímann til að kynnast og sauma saman fjölnota poka sem eru svo seldir til styrktar verkefninu. Hópurinn er hugsaður fyrir konur af erlendum uppruna sem vilja koma saman og vinna í höndunum. Þetta er frábært tækifæri fyrir konur til að mynda mikilvæg tengsl í nýju samfélagi. Þetta er lokaður hópur og við getum tekið við ákveðnum fjölda þátttakenda. Margar sem eru að koma núna á mánudaginn hafa tekið þátt áður. Það er um að gera fyrir áhugasama að skrá sig ef fólk vill taka þátt því við förum í gegnum listann ef það losnar pláss. Við byrjum fyrsta saumanámskeiðið á mánudaginn 13. september.“

Akureyri og Reykjanes

Eins og er liggur starfið niðri á Akureyri þar sem Hjálpræðisherinn er að flytja í nýtt húsnæði. „En starfið mun hefjast með krafti þegar við opnum að nýju. Í Reykjanesbæ er prjónahittingur á þriðjudagskvöldum klukkan 19.30 þar sem fólk mætir og prjónar saman. Bæn og matur er svo í boði alla þriðjudaga klukkan 12.00.“