Sigríður Ævarsdóttir, bóndi á Gufuá í Borgarfirði, tók upp á því að venja geiturnar sínar við taum til að gera þær meðfærilegri í daglegu amstri, en datt svo í hug að öðrum gæti þótt þetta skemmtileg og öðruvísi upplifun og hóf að bjóða upp á göngur með geitunum.

Hún segir að geitalabbið sé ekki mjög flókið í framkvæmd.

„Ég veit fyrirfram hvað margir koma og geri þær geitur sem þarf tilbúnar. Taumurinn fer í múl sem er á geitunum og þær teymast ágætlega,“ segir hún. „Akkúrat núna er reyndar einhver frekjugangur í þeim, því það er svo margt sem þær langar að éta úti sem þær finna ekki á túninu þar sem þær eru vanalega. Meðfram ánni sem við löbbum hjá er lyng, birkilauf og fleira sem hefur einhver efni sem þær vantar og fá ekki úr grasinu um þetta leyti.

Þetta er auðveld ganga eftir veiðivegi og geiturnar taka upp á ýmsu á leiðinni, yfirleitt tengt því að éta, því þær sjá lítinn tilgang í að fara í göngutúr ef það er ekki til að finna eitthvað ætilegt,“ segir Sigríður. „En þær eru mannelskar að upplagi og jafnvel þó að maður missi tauminn fara þær ekki langt. Þetta eru allt geltir hafrar og flestir hafa horn, en þeir eru allir mjög góðir og ekkert hættulegir.“

Geiturnar taka upp á ýmsu á labbinu, yfirleitt tengt því að borða, því þær sjá lítinn tilgang í að fara í göngutúr ef það er ekki til að finna eitthvað að borða.

Afslappandi upplifun

„Það tók geiturnar stuttan tíma að venjast því að vera í taumi. Við erum búin að vera að temja hesta, það hefur verið okkar aðalstarfsemi í gegnum tíðina og það var bara sjálfsagt að temja þær líka, svo það væri hægt að umgangast þær án þess að þær væru stanslaust á hlaupum undan okkur,“ segir Sigríður. „Þetta virkar svipað og að temja hesta, en tekur styttri tíma.

Á vefnum okkar auglýsum við þetta sem ferðaþjónustu í anda hæglætis og núvitundar og erlendis er svona lagað fyrst og fremst hugsað fyrir þá sem vilja vinda ofan af sér, en hér hugsar fólk þetta meira sem eitthvað skemmtilegt fyrir börn,“ segir Sigríður. „Það á alveg við, en einskorðast alls ekki við það. Fullorðið fólk fær ekkert síður ,,kikk” út úr þessu, jafnvel enn frekar. Þegar fólk kemur með börn endar það oft svo að foreldrarnir sitja uppi með geiturnar á meðan krakkarnir verða alveg jafn áhugasamir um hundinn, köttinn eða eitthvað annað á staðnum.“

Aðlöguð og endurbætt hugmynd

Sigríður byrjaði að bjóða upp á geitalabb síðasta vor. Hún segir að ástæðan fyrir því að hún sé með geitur sé að hún sé geitasjúk, þetta sé baktería eins og hestabakterían.

„Ég hef alltaf verið veik fyrir þeim en ekki alltaf haft góða aðstöðu til að hafa þær. En hugmyndin var líka alltaf að þær hefðu eitthvert hlutverk, þær áttu ekki bara að vera til gamans fyrir mig,“ segir hún.

„Við erum tiltölulega nýflutt á jörðina Gufuá og þá fékk ég geiturnar. Ég fékk svo þá hugmynd þegar ég var að temja þær í víðáttunni að það væri sniðugt að leyfa fólki að prófa þetta. Fólk er að labba um með alls konar dýr erlendis, til dæmis lamadýr, alpaka og asna, þannig að þessi hugmynd er ekkert frumleg þannig séð, heldur stolin frá útlöndum, aðlöguð og endurbætt að okkar veruleika,“ segir Sigríður og hlær.

Sigríður segir að hver hafur hann sinn einkennandi persónuleika og þeir hafi mikil samskipti sín á milli.

Goggunarröðin mikilvæg

„Það kemur í ljós strax og maður fer að umgangast hafrana að hver og einn þeirra hefur sinn eigin einkennandi karakter, rétt eins og kindur, hestar og önnur dýr,“ segir Sigríður. „Þetta eru líka hópdýr og þegar þeir eru ekki að vinna er einn sem ræður og allir elta, en það er hann Gandalfur, sem er elstur og stærstur.

Þegar fólk fer að labba með hafrana þá raðast þeir svo kannski öðruvísi en þeir hefðu sjálfir raðað sér upp og þá fara þeir stundum að reka hornin í hver annan til að reka hina á réttan stað í röðinni. Það er svolítið ævintýri að vera með í þessu og það eru alls konar samskipti í gangi hjá þeim þó að þeir segi ekki neitt,“ segir Sigríður. „Þeir eru ekki ruddar og þeir byrja á fínlegum skilaboðum eins og augngotum, en ef það dugar ekki til grípa þeir til hornanna og í versta falli rífa þeir jafnvel í hárið á hver öðrum og kippa í það til að láta hina færa sig.“

Sigríði finnst skemmtilegast að teikna dýr og málar oftast hesta.

Myndskreytir bók

Ásamt því að vera bóndi og sinna ferðaþjónustu er Sigríður líka myndlistarkona.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að mála, en er misdugleg. Mér finnst skemmtilegast að teikna dýr og mála mest hesta, en ég er að átta mig á því í þessum töluðu orðum að ég hef ekki teiknað eina einustu geit. En núna er ég að klára að myndskreyta bók sem ég er að gera með manninum mínum og heitir „Tölum um hesta“ og kemur út fyrir jólin,“ segir hún. „Þetta eru hátt í 50 myndir og í fyrsta sinn sem ég geri þetta af alvöru.

Ég hef reyndar líka stundum verið beðin um að mála eitthvað sérstakt fyrir fólk og hef orðið við því, en ég er ekki með gallerí eða að framleiða neitt til sölu,“ segir Sigríður. „En fólk getur heyrt í mér ef það vill biðja um eitthvað.“

Ekki bara geitalabb

Auk þess að bjóða upp á geitalabb er líka hægt að fara í náttúrugöngu með sagnaþul og heimsækja forystufjárhús á Gufuá.

„Forystufjárhúsið er ekki í gangi á sumrin, því þá eru allar kindurnar á fjalli. En ég leiði náttúrugönguna, sem er um tveir tímar,“ segir Sigríður. „Gufuá er landnámsjörð Rauða-Björns með áhugaverða sögu, fallegt landslag, náttúrufar og útsýni. Þar eru margar vörður og við röltum hér um og ég segi söguna af jörðinni, búskaparháttum, jarðsögu svæðisins, náttúrufari, kem aðeins inn á þjóðtrúna og fleira. Þetta er skemmtifræðsla í fallegu landslagi.“

Hægt er að kynna sér starfsemina á Gufuá á vefsíðunni www.gufua.com.

Sigríður hefur málað 50 myndir fyrir bók sem hún er að gera með manninum sínum og heitir „Tölum um hesta“.