Fyrstu þrjú árin í íbúðinni gerðum við lítið sem ekkert. Allar innréttingar voru upphaflegar. Þunnt, gulleitt og illa farið parket var á stærstum hluta íbúðarinnar og eldhúsinnréttingin var orðin mjög lúin og nýtti rýmið illa. Það er engin geymsla í sameigninni heldur er lítil kompa inni í íbúðinni sem við nýtum bæði sem þvottaherbergi og geymslu. Geymsluplássið var því takmarkað fyrst um sinn,“ segir Guðfinna.

Eftir nokkur ár í íbúðinni voru Guðfinna og Bjössi komin með meira en nóg af gömlu innréttingunni og ljóta parketinu. „Mig langaði að rífa hurðirnar á eldhúsinnréttingunni af í hvert einasta skipti sem ég opnaði skápana. Þegar við fórum svo af stað í að setja upp almennilegar gardínur og skipta út litlum bráðabirgðafataskáp fyrir stóran stóran úr Ikea, þá skildum við ekki hvers vegna við vorum ekki löngu byrjuð á þessu.“

Nýi eldhúskrókurinn kemur sérlega vel út með stórauknu borðplássi.

Fyrirkomulag sem hentar okkur

Í íbúðinni er eitt svefnherbergi sem fyrstu árin var nýtt sem slíkt. Sjónvarpið var frammi í aðalrými ásamt sófa og stúdíóhorni Guðfinnu. „Draumur minn var að aðskilja stúdíóið mitt frá aðalrýminu. Því ákváðum við að taka rúmið fram í aðalrýmið og setja sjónvarpið og sófann inn í „svefnherbergið“, og úr varð sjónvarpsherbergi með fataskáp. Þetta fyrirkomulag hentar okkur mikið betur enda horfum við lítið á sjónvarp. Ég fæ næði til að teikna og hanna í mínu listahorni í aðalrýminu og Björn er með sína aðstöðu inni í herbergi. Við reynum að nýta hvern einasta fermetra sem best. Við viljum að íbúðin sé sérsniðin að okkar þörfum en ekki þeirra sem munu kannski koma í heimsókn einhvern tíma og gista. Við erum óhrædd við að taka mublur í sundur og geyma eða selja það sem er ekki notað til að losa um pláss, því við þurfum allt það pláss sem okkur býðst. Það færist alltaf í aukana að fólk búi í litlum íbúðum og framleiðendur á innréttingum og innbúi koma sífellt með betri lausnir fyrir litlu heimilin.“

Guðfinna er hrifin af SKÅDIS hirslutöflunum sem auðveldar henni að komast í potta, pönnur og önnur áhöld. Þetta verður líka til þess að smáhlutir safnast ekki fyrir á dýrmætu bekkjaplássi í litlum eldhúsum.

Gerðu allt sjálf

Guðfinna og Bjössi tóku ákvörðun um að reyna að gera sem mest sjálf. Þó segist Guðfinna vera flinkari með blýant og pensil en hamar og nagla, enda hæfileikaríkur teiknari. Þegar hún er ekki uppi á fjalli að ljósmynda náttúruna má vanalega finna hana við tölvuna að hanna veggspjöld eða að vinna teikningar sínar og ljósmyndir. „Við ákváðum að fara í þetta sjálf og sjá bara hvað við næðum að gera. Björn mundi ekki viðurkenna að hann sé laghentur en það kom á óvart hversu vel tókst til, sérstaklega í ljósi þess að hvorugt okkar hefur reynslu. Björn er fyrrum starfsmaður Byko á Akureyri til margra ára svo það var heppilegt hvað hann þekkir vörurnar vel, enda voru ferðirnar í Byko og Bauhaus óteljandi í ferlinu. Þá teljum við ekki með allar ferðirnar í Ikea að sækja parta úr innréttingu eða skila og skipta. Eins áttum við afar takmarkað magn verkfæra í upphafi framkvæmda, en þeim fjölgaði aðeins í gegnum ferlið, þó ekki mikið.“

Kallax rúmið er ævintýralega skemmtileg lausn sem dregur fram barnið í okkur öllum.

Dóu ekki ráðalaus

Það var margt sem þurfti að gera eftir þrjú ár í óhreyfðri íbúð. „Fyrst þurfti að ná gamla parketinu og flestöllum flísunum af gólfinu, en flísarnar voru alger martröð. Á sínum tíma höfðu þær verið límdar á grunninn með þykku lími sem var eins og steinn. Við vorum í marga klukkutíma að skiptast á með höggborvél að ná líminu og flísunum af með tilheyrandi ryki og hávaða. Þá loks gátum við lagt parket á stofuna og eldhúskrókinn með aðstoð fjölskyldumeðlima. Þegar parketið var komið á var allt annað að horfa yfir íbúðina.

Philips Hue ljósið býr til skemmtilega stemningu í herberginu með marglitu ljósi.

Þá var komið að eldhúsinu sem var töluvert meiri vinna. Við fengum einfalda hjólsög að láni til að saga borðplötur og hliðarklæðningar. Vinnuaðstaðan var takmörkuð. Við söguðum því úti og lögðum langar plötur á lítið skrifborð. Atvinnusmiðir myndu örugglega klóra sér í hausnum yfir vinnubrögðunum, en þetta gerði sitt gagn og við dóum ekki ráðalaus í öllum hindrununum sem urðu á vegi okkar. Youtube og Google komu sér líka vel enda er hægt að finna þar leiðbeiningar um hvað sem er. Það var líka gott að fá hönnunarþjónustu frá Ikea. Sjálf var ég búin að reyna að eiga við uppsetningarforritið þeirra á netinu en gekk illa, svo við mættum til þeirra, gáfum upp málin og létum vita um séróskir varðandi hönnunina. Til dæmis langaði mig að hafa opnar hillur inn á milli eldhússkápa og veggfestar hillur fyrir ofan eyjuna eða tunguna til að raða glærum krukkum á, sem mér finnst svo huggulegt að sjá í eldhúsum.“

Guðfinna vill þó brýna fyrir fólki að skoða vel allar samsetningarleiðeiningar með skápum og raftækjum áður en hlutir eru keyptir saman. „Við gerðum þau mistök að setja saman skápinn sem viftan átti að fara í, áður en við keyptum viftuna. Svo sáum við í leiðbeiningunum fyrir viftuna að það þarf að saga pláss fyrir viftuna úr botnplötunni áður en skápurinn er settur saman. Eftir á að hyggja hefði líka verið betra að hafa viftuna ekki innbyggða því innbyggðar viftur þurfa barka upp úr skápnum sem þær eru settar í. Okkar skápar eru svo þétt upp við loftið að það gengur ekki. En við náum að redda því með því að saga gat yfir í efsta hólfið í opna skápnum við hliðina með hringbor og tengja barkann þangað. Við eigum enn eftir að klára þetta en það fer að koma að því.“

Ævintýraleg lausn

Eitt af því forvitnilegasta sem skötuhjúin tóku sér fyrir hendur í íbúðinni var að smíða sér forláta rúm, sem gegnir að auki hlutverki geymslupláss og lítils notalegs skots. „Eftir að við færðum rúmið fram í aðalrýmið var ekki nægt pláss fyrir gólfhillu. Okkur vantaði meira geymslupláss svo það þurfti helst að sameina rúm og hillur í eitt. Ég gruflaði mikið á Pinterest í leit að hentugum útfærslum og rakst á allnokkrar. Í flestum útfærslunum voru Kallax-hillurnar frá Ikea notaðar. Við ákváðum að gera eins og teiknuðum upp hvernig væri best að raða þeim undir dýnuna í tvö L, sem koma á móti hvort öðru með stoð í miðjunni til stuðnings. Við héldum í enn eina Byko ferðina og fengum þar tvær krossviðarplötur sem samanlagt voru jafnstórar og dýnan, eða 200 x 180 cm. Svo fórum við í Ikea og náðum í sex Kallax-hillur með fjórum hólfum ásamt skrúfum og róm til að festa allt saman.

Hér undir rúminu er einkar notalegt að liggja í næði með ótal púða að lesa, teikna eða skrifa skáldsögu.

Ég er ótrúlega ánægð með hversu vel tókst til. Þetta steinliggur og hilluplássið létti mikið á geymslunni/þvottahúsinu sem var orðin troðfull. Svo er líka nóg pláss fyrir dót undir rúminu. Við vorum dálítið hrædd um að hillurnar væru ekki nógu sterkar, enda ekki hannaðar til að vera rúmbot. En þeim er raðað þétt saman og þær eru skrúfaðar við krossviðarplötuna á mörgum stöðum. Þetta er því mjög stöðugt rúm og haggast ekki. Það var skrítið að sofa fyrstu næturnar í rúminu því það er töluvert hærra en við vorum vön. Ég þarf tröppu til að komast upp í. En ég er ekki hrædd um að detta framúr enda hef ég aldrei rúllað mér úr rúmi í svefni.“

Undir rúminu er svo stórskemmtilegt „leyniskot“ þar sem má koma sér vel fyrir með bók eða teikniblokk. „Það er næstum eins og aukaíbúð undir rúminu. Þar má hrúga púðum til að hafa notalegt og leyfa krökkum að leika sér. Sjálf næ ég ekki að sitja upprétt en það er vel hægt að liggja. Við settum Philips Hue ljós sem lýsir í öllum regnbogans litum undir rúminu og skapar notalega stemningu þegar það er orðið dimmt og ljósið skín út um hillurnar.“

Guðfinna er virkilega ánægð með nýja eldhúsið, enda er hún afar dugleg að töfra fram dýrindis heilsurétti, eins og sjá má á Instagram. myndir/aðsendaR

Ár af framkvæmdum

Í heildina tók allt ferlið, frá byrjun til enda, eitt ár. „Í bjartsýni okkar héldum við að við gætum klárað þetta í sumarfríinu í fyrra. En svo ákváðum við að mála alla íbúðina, sem var ekki á planinu alveg strax. Þegar við losuðum listana meðfram veggjum, kvarnaðist úr pússningunni á veggjunum sem varð til þess að við þurftum að gjöra svo vel að fylla upp í það. Við lærðum líka að framkvæmdir taka alltaf miklu lengri tíma en maður heldur. Eins mikil snilld og Ikea er, þá lendir maður oft í því að það er ekki allt til sem mann vantar. Einnig er ekki alltaf allt til í innréttingarnar svo það getur verið gott að panta allt með góðum fyrirvara áður en framkvæmdir eiga að hefjast. Næst á framkvæmdalistanum eru hurðaskipti og svo er baðherbergið eftir það, sem við förum í þegar við erum aðeins farin að gleyma hvað framkvæmdir síðasta árs voru mikil vinna.“

Á Instagram-síðu Guðfinnu, @gudfinnaberg má finna allt ferlið frá upphafi til enda í „highlights“, en Guðfinna var dugleg að skrá heimildir yfir allt sem þau gerðu upp í íbúðinni og deila því með fylgjendum. Einnig er hún meira en tilbúin að svara þar spurningum um rúmgerðina, séu aðrir í svipuðum hugleiðingum. Hún er þegar búin að fá nokkrar fyrirspurnir frá fólki úti í heimi eftir að hafa birt myndir af rúminu.