Margir muna eftir ævintýrinu um Öskubusku sem glataði glerskó af öðrum fæti á meðan hún hljóp úr höllinni. Þrátt fyrir að glerskórnir hafi óneitanlega verið fallegir hljómar gler ekki eins og æskilegt efni í skóbúnað. En á okkar tímum er hægt að fá glæra skó og þó seint sé hægt að segja að þeir séu á einhvern hátt æskilegir þá eru þeir í það minnsta ekki úr gleri.

Tónlistarkonan Kacey Musgraves á síðustu Coachella-hátíðinni.

Þeir eru hins vegar úr plasti og ekki eru allir sammála um það hversu öruggt eða skynsamlegt það sé að klæðast þeim. Plastefni er ekki beinlínis fótavænt þar sem það hvorki andar né gefur eftir að ráði. Plastið getur því nuddast við fótinn og þannig orsakað sár eða blöðrur. Það er vert að hafa þessi atriði í huga áður en fjárfest er í skóm af þessu tagi.

Fyrirsætan og ekkja Davids Bowie, Iman, í glærum hælum árið 2006.

Árið 2015 kom út Öskubuskumynd og tóku þá ýmsir eftir því að hællinn var enn hærri en í fyrri útgáfum og hlaut það umtalsverða gagnrýni. Félagsfræðingurinn Lisa Wade kallaði þá raunar „Glass stripper slipper“, sem féll ekki í kramið hjá öllum. Sumir töldu það fela í sér „drusluskömmun“ en glærir skór eru líka oft tengdir við erótíska dansara og hefur heitið „fatafelluskór“ gjarnan verið notað yfir þá.

Ógeðfelldar skýringar

Það er því áhugavert að skoða tilgátur um það hvers vegna skór Öskubusku voru úr gleri og þar af leiðandi glærir eins og plasthælar samtímans. Talið er að glerskórnir hafi fyrst komið fram í útgáfu franska rithöfundarins Charles Perrault frá árinu 1697. Staðreyndin er þó sú að það er ekki almennilega vitað hvers vegna skórnir urðu að glerskóm. Í öðrum útgáfum hafa þeir til dæmis verið úr gulli eins og er tilfellið í útgáfu Grimms-bræðra frá árinu 1812.

Nærmynd af fótum Pamelu Anderson í glærum skóm frá árinu 2008.

Ein kenningin er sú að hugsanlega hafi skórnir orðið að glerskóm vegna þýðingarmistaka á texta Perrault en „pantoufle de vair“ þýðir á frönsku „loðskór“ á meðan „pantoufle de verre“ þýðir glerskór. Auðvelt er að gera sér í hugarlund að loðskór væru þannig tilvísun í sköp kvenna, bæði vegna augljósrar vísunar í skapahár og vegna þess að prinsinn hafi krafist þess að líkamspartar kvenna væru settir inn í og „mátaðir“ við (loðinn) skóinn.

Leikkonan Cameron Diaz á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2003.

Flestir fræðimenn telja Perrault hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að hafa skóna úr gleri vegna þess að á 17. öld hafi gler verið afar dýrt og hafi skórnir því átt að vera myndlíking fyrir dýrmætan meydóm Öskubusku sem einungis auðugir menn hefðu efni á. Þá er bent á það hvernig blæddi úr fótum stjúpsystra Öskubusku þegar þær mátuðu skóinn, sem enn fremur gefur til kynna að þær séu á einhvern hátt skítugar, öfugt við hina hreinu Öskubusku.

Lucy Liu í glærum hælaskóm árið 2003. MYND/GETTY

Eftir stendur að prinsinn ferðaðist út um allar trissur og lét fjölda stúlkna máta skóinn áður en hann fann þá sem „passaði“. Er það nokkuð sem hægt er að túlka á ýmsa og líklega miður geðslega vegu.

Tennisstjarnan Serena Williams í glærum hælaskóm.