Tyra Banks, sem er líklega þekktust í dag fyrir að vera þáttastjórnandi hinnar vinsælu þáttaseríu America’s Next Top Model, mun opna garðinn þann 1. maí næstkomandi í Santa Monica í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum. Miðasala inn í garðinn hófst í vikunni. Samkvæmt lýsingu á vefsíðu Módelgarðsins mun fólk sem þangað kemur geta upplifað drauminn og verið fyrirsæta í einn dag. Það getur fengið ljósmyndir af sér teknar af fagmönnum sem draga fram það besta hjá öllum gestum. Hægt verður að ganga inn á svið þar sem gesturinn er þátttakandi í tískusýningu.

Það er sérstaklega tekið fram að allir óháð vaxtarlagi og útliti geti komið í garðinn og upplifað bestu útgáfuna af sjálfum sér. Þar segir að Tyra Banks sjálf muni gefa gestum ýmis ráð þegar þeir fá að stilla sér upp fyrir myndavélarnar. Fyrirsætan verður að vísu ekki á staðnum heldur gefur hún leiðbeiningar á upptöku sem spiluð er fyrir gesti. Einnig fara gestirnir í gegnum einhvers konar ævintýraveröld sem er drifin áfram af leikurum og dönsurum innan um stórkostlega hönnun. Gestirnir yfirgefa garðinn svo með myndabók með myndum sem teknar eru af þeim á meðan þeir upplifa ævintýraheim fyrirsætunnar.

Margir tískuspekúlantar vestanhafs hafa velt fyrir sér hver tilgangurinn sé með garði sem þessum og hver sé raunveruleg ástæða þess að fyrirsætan hrinti þessari hugmynd í framkvæmd. Er þetta hrein og bein græðgi, er ætlunin að hafa af fólki pening fyrir einhvers konar óljósa upplifun? Spurningum sem þessum hefur verið varpað fram. Miði inn garðinn er alls ekki ódýr og fólk hefur rætt og skrifað um að óljóst sé hvað nákvæmlega er innifalið í verðinu. Almennt aðgangsverð eru 59 Bandaríkjadollarar sem eru rúmlega 8.000 íslenskar krónur. Svo er hægt að kaupa ævintýraaðgang og draumaaðgang sem kosta heilar 208.000 krónur, dýrari miðinn, og tæpar 80.000 krónur ódýrari miðinn. Innifalið í dýrasta aðganginum er, ásamt því sem áður var talið, hárgreiðsla og förðun, aðgangur að tískufatnaði og VIP-sætum sem óljóst er hvað fela í sér, drykkir í boði hússins og fleira.

Tyra sagði sjálf í viðtali að hana langaði einfaldlega að leyfa öllum að njóta sín í einn dag. Modelland væri staður til að fagna sinni eigin einstöku fegurð og elska sig sjálf þrátt fyrir eigin galla. Hún vill að allir geti upplifað sig fallega. Hvort fólk er tilbúið til þess fyrir rúmar 200.000 krónur á svo eftir að koma í ljós.