Sýningin Einu sinni var … stendur nú yfir í Listasafni Árnesinga. Þar má sjá myndskreytingar Ásgríms Jónssonar við íslensku þjóðsögurnar, bæði olíu- og vatnslitamálverk auk fjölmargra túskteikninga. Þarna eru meðal annars túlkanir á sögunum Mjaðveig Mánadóttir, Velvakandi og bræður hans, Gellivör, Jóra í Jórukleif, Una álfkona, Nátttröllið, Gissur á botnum, Búkolla, Djákninn á Myrká og Tröllin á Hellisheiði. Sýningin stendur til 20. október.

Kristín Þóra Guðbjartsdóttir er sýningarstjóri. „Þessi sýning er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands og byggir á sýningunni, Korríró og Dillidó sem var haldin þar fyrir ári. Verkin á sýningunni eru úr safneign Listasafns Íslands fyrir utan þrjú sem eru í eigu Listasafns Árnesinga.“

Ein af myndum Ásgríms.

Sýningin er sérstaklega hönnuð með börn í huga, en hinir fullorðnu munu ekki síður njóta hennar. Í safninu eru búið að skapa ævintýraheim því þar er að finna veglega álfakirkju, verk Þorvaldar Böðvars Jónssonar sem hannaði kirkjuna eftir teikningum listamannsins. Það er hægt að ganga inn í þessa kirkju og þá sér maður hversu fagurt var um að litast hjá álfum. Lýsingin er falleg og það glampar á silfur og gull,“ segir Kristín.

Ein myndanna á sýningunni, Álfarnir í Tungustapa, verður gefin út á frímerki á næstunni í tilefni þess að í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. „Fólk hefur ekki séð þessa mynd mikið og hún vekur mikla athygli enda er hún óskaplega falleg,“ segir Kristín.

Um þjóðsagnamyndir Ásgríms segir hún: „Ásgrímur er fyrstur til að gera myndir við þjóðsögurnar. Það er hann sem gefur skessunni þá ásýnd sem við sjáum alltaf fyrir okkur. Þetta er stórstíg skessa með skuplu á höfði og stórt og mikið nef sem skartar vörtu. Ég er fædd 1960 og eftirprentanir af þessum myndum Ásgríms voru á heimili mínu. Það er gaman hversu mikla ánægju þessar myndir Ásgríms vekja hér, bæði hjá börnum og hinum fullorðnu.“

Tröllahöfuð eftir Baniprosonno.

Á sýningunni er eitt verk sem er ekki eftir Ásgrím heldur indverska listamanninn Bwaniprosonno. „Hann kemur oft til Hveragerðis ásamt konu sinni Putel og dvelja þau í listamannaíbúð í bænum og halda listsmiðjur fyrir krakka. Hann vinnur aðallega með pappír og gerði fyrir nokkrum árum tröllasögustól úr pappír og trjágreinum sem var í bókasafninu í Hveragerði. Stóllinn varð ónýtur en höfuð tröllsins er heilt og við fengum það hingað,“ segir Kristín.

Það er ekki að undra að sýningin hefur vakið mikla hrifningu gesta því hún er einstaklega hrífandi. „Hér er líka hægt að hlusta á fjórar þjóðsögur, bæði á ensku og íslensku. Útlendingar sem hingað koma heillast mjög, setjast niður og hlusta, spyrja mikið og skoða,“ segir Kristín.