Í dag opna listamenn vinnustofur sínar á Hólmaslóð úti á Granda. Þeirra á meðal eru þau Jón Magnússon, Hulda Vilhjálmsdóttir og Hjörtur M. Skúlason.

„Á morgun átti Menningarnótt Reykjavíkurborgar að fara fram og okkur fannst mikilvægt fyrir listamenn að taka þátt í þeim viðburði. Við ákváðum hafa vinnustofurnar opnar þrátt fyrir að Menningarnótt hafi verið aflýst,“ segir Hjörtur.

Vinnustofan við Hólmaslóð er opin milli klukkan 13.00 og 18.00.

Hver er kostur þess að vera með vinnur ými ásamt öðrum þegar maður er listamaður?

„Kosturinn er sá að það myndast vinnuandi og samtal milli listamanna. Miðlar í myndlist eru margir og ólíkir og þannig verður maður fyrir jákvæðum áhrifum frá hver öðrum. Einnig myndast ákveðin stemning, sem er gott fyrir myndlistina á Íslandi,“ segir Hulda.

„Já, sköpun myndlistar er ekki alltaf einföld og þá er gott að hafa stuðning og fá gagnrýni á verkin frá hverju öðru,“ segir Jón. „Sameiginleg vinnustofa okkar þriggja gerði það að verkum að við erum alltaf að kynna hvert annað fyrir þeim sem heimsækja okkur. Vinnutími okkar er sveigjanlegur og gerði það mögulegt að forðast Covid,“ segir Hjörtur.

Hulda vinnur með blandaða tækni í sínum verkum, akríl og olía á striga eru einkennandi fyrir hennar verk.

Gafst ykkur meiri tími til að vinna að listinni í faraldrinum?

„Já, ég mundi segja það. Vinnustofan er okkar athvarf og gott að geta verið þar á tímum Covid,“ segir Jón.

„Listamaðurinn er spámaður í framtíðina sem áhugavert er að lesa í myndlistarverkum og líka spegill samtímans,“ segir Hulda.

Jón hefur nær eingöngu helgað sig málverkinu og vinnur helst með olíu og akríl.

Þau segjast finna fyrir meiri bjartsýni í samfélaginu og það hafi áhrif á listsköpunina.

„Allri bjartsýni fylgir meiri orka sem vekur upp töfra og leiðir til meiri sköpunar, sem er áhugavert fyrir listnjótandann að koma og sjá og upplifa á vinnustofum okkar.“

Þau eru sammála um að þetta sé einmitt tíminn þar sem við þurfum hvað mest á list að halda.

„Í hræðslunni í Covidinu gaf myndlistin okkur tjáningarfrelsi og griðastað. Listsköpun er sterkari en öll trúarbrögð,“ segir Hjörtur.

Vinnustofurnar eru opnar milli 13.00 og 18.00. Þær eru við Hólmaslóð 4 á Granda.

Hjörtur hefur að undanförnu unnið skúlptúra úr striga. Einnig hefur hann unnið ljósmyndir í prentverkum