Sýning Julie Lænkholm, We The Mountain / Fjallið við, er í Ásmundarsal og stendur til 10. júlí.

Verk Lænkholm eru oft unnin með textíl. Hún notar efni og ull frá ættarbænum sínum Húsavík þar sem hún kynntist jurtalitun í fyrsta sinn og textílaðferðum sem hafa mótað iðkun hennar síðan. Lænkholm telur ljóðstafi felast í öllu efni. Á einkasýningu sinni í Ásmundarsal vinnur hún með ljóð Guðnýjar frá Klömbrum (1836), Saknaðarljóð, og skoðar hvernig sársauki og lækning birtist í ljóðinu samtímis.

Á hverjum fimmtudegi í aðdraganda sýningarinnar bauð Lænkholm gestum að taka þátt í opinni rannsóknarvinnu sem hét Wool Gathering á vinnustofu sinni í Gryfjunni, Ásmundarsal. Á hverri samkomu deildi gestakennari þekkingu sinni til að skapa sameiginlega lækningarleið, Morwenna Bugano (miðill og heilari) , Katrine Bregengaard (fræðimaður og hugleiðslukennari) og Auður Hildur Hákonardóttir (listamaður).

Julie býr og starfar í Kaupmannahöfn. Hún er útskrifuð frá Parsons, The New School of Design í New York. Hún er einnig menntaður hjúkrunarfræðingur með sérhæfingu í hjartaskurðlækningum. ■