Sviðslistahópurinn Vinnslan frumsýnir verkið Proximity í dag í hinu þekkta Shakespeare-leikhúsi í Gdansk, Póllandi. Um er að ræða alltumlykjandi verk sem er hugleiðing um fólksflutninga, þrána eftir betra lífi, eilífðina og þá staðreynd að dýpsta þrá og hvöt mannsins er þörfin fyrir að tilheyra, tilheyra hópi, fjölskyldu, þjóð, og þörfin fyrir nánd við aðrar manneskjur.
Verkið tekur á samskiptum Pólverja og Íslendinga, sem á þessum síðustu tímum hafa fyrst og fremst markast af stórum hópi Pólverja sem koma til Íslands í von um betra líf, en einnig um fólksflutninga frá upphafi tíma. Hvaða áhrif hafa þessir fólksflutningar á fjölskyldumynstur og hagi þeirra sem heima sitja? Verkið er mikið sjónarspil vídeóa og ljósa og nýtur sín vel í mögnuðu leikrými Shakespeare-leikhússins.

Með aðalhlutverk fara Olga Boladz, þekkt pólsk leikkona sem Íslendingar fengu að kynnast í mynd Árna Óla Ásgeirssonar heitins, Wolka, og Árni Pétur Guðjónsson. Með önnur hlutverk fara Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Stefan Andruszko, Justyna Betańska, Oliwia Drożdżyk, Joanna Gorycka, Katarzyna Grott, Mieszko Wierciński og Mateusz Włostowski.
Vinnslan er þverfaglegur hópur listafólks sem vinnur verk sín frá grunni út frá spuna.
Listrænir stjórnendur verksins eru María Kjartansdóttir, Vala Ómarsdóttir og Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Tónlist/hljóðmynd: Birgir Hilmarsson. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Ljósahönnun: Józef Leoniuk. Vídeó: Sandra Ksepka.