Sviðs­lista­hópurinn Vinnslan frum­sýnir verkið Pr­oximity í dag í hinu þekkta Shakespeare-leik­húsi í Gdansk, Pól­landi. Um er að ræða allt­um­lykjandi verk sem er hug­leiðing um fólks­flutninga, þrána eftir betra lífi, ei­lífðina og þá stað­reynd að dýpsta þrá og hvöt mannsins er þörfin fyrir að til­heyra, til­heyra hópi, fjöl­skyldu, þjóð, og þörfin fyrir nánd við aðrar mann­eskjur.

Verkið tekur á sam­skiptum Pól­verja og Ís­lendinga, sem á þessum síðustu tímum hafa fyrst og fremst markast af stórum hópi Pól­verja sem koma til Ís­lands í von um betra líf, en einnig um fólks­flutninga frá upp­hafi tíma. Hvaða á­hrif hafa þessir fólks­flutningar á fjöl­skyldu­mynstur og hagi þeirra sem heima sitja? Verkið er mikið sjónar­spil vídeóa og ljósa og nýtur sín vel í mögnuðu leik­rými Shakespeare-leik­hússins.

Með aðalhlutverk fara pólska leikkonan Olga Boladz og Árni Pétur Guðjónsson.
Mynd/Aðsend

Með aðal­hlut­verk fara Olga Bola­dz, þekkt pólsk leik­kona sem Ís­lendingar fengu að kynnast í mynd Árna Óla Ás­geirs­sonar heitins, Wolka, og Árni Pétur Guð­jóns­son. Með önnur hlut­verk fara Guð­mundur Ingi Þor­valds­son, Stefan Andruszko, Justyna Betańska, Oliwia Drożdżyk, Joanna Gor­ycka, Katarzyna Grott, Mieszko Wierciński og Mateusz Włostowski.

Vinnslan er þver­fag­legur hópur lista­fólks sem vinnur verk sín frá grunni út frá spuna.

List­rænir stjórn­endur verksins eru María Kjartans­dóttir, Vala Ómars­dóttir og Guð­mundur Ingi Þor­valds­son. Tón­list/hljóð­mynd: Birgir Hilmars­son. Leik­mynd og búningar: Þórunn María Jóns­dóttir. Ljósa­hönnun: Józef Leoniuk. Vídeó: Sandra Ksepka.