Ljósvaki//Æther 1.0.1. er yfirskrift sýningar Selmu Hreggviðsdóttur og Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur sem nú stendur yfir í BERG Contemporary á Klapparstíg 16. Þar vinna myndlistarmennirnir út frá sögu og eiginleikum íslenska silfurbergsins. Á sýningunni eru ljósmyndir og vídeóverk.

„Við hittumst á Eskifirði árið 2015 og þá sýndi Selma mér Helgustaðarnámu sem er staðsett utar í firðinum,“ segir Sirra. „Í nokkur hundruð ár var þetta eina náman í heiminum með svo tært silfurberg. Þetta silfurberg dreifðist síðan um heiminn til vísindamanna sem meðal annars gerðu mikilvægar uppgvötvanir á eðli ljóss.

Þetta er sagt vera eitt merkilegasta framlag Íslands til menningarsögu heimsins. Okkur langaði til að vinna með silfurberg og síðasta sumar vorum við með sýningu á Eskifirði. Á þessari sýningu er ein ljósmyndasería sem var á þeirri sýningu en önnur verk eru ný.“

Rækta kristalla

Fyrir sýninguna á Eskifirði gerðu þær tilraunir með að rækta kristalla og hafa haldið því áfram fyrir sýninguna í Berg Contemporary. Þær segja kristalsræktun taka tíma og að sinna þurfi verkefninu af alúð. „Maður leysir upp í vatni efni sem hefur tilhneigingu til að kristallast eftir eigin formúlu og vex í sexhyrningsform. Í byrjun myndast lítil fræ í botninn á ílátinu og maður velur þau sem hafa fallegustu formin og heldur áfram að rækta þau,“ segir Sirra.

Silfurbergskúla Bjarna Ólafssonar.

Hluti ljósmyndanna á sýningunni í BERG Contemporary er af kristöllum sem þær hafa ræktað. „Kristallinn er á svörtum fleti og hlutföllin eins og verið sé að taka portrett af manneskju,“ segir Selma.

Glitrandi sólkerfi

Auk ljósmynda af ræktuðum kristöllum og silfurbergi eru myndbönd á sýningunni og hljóðverk sem er vatnsniður úr námunni á Eskifirði. Eitt vídeóverkanna er tekið upp í anddyri aðalbyggingar Háskóla Íslands og sýnir hvelfinguna sem Guðmundur frá Miðdal og Guðjón Samúelsson gerðu í sameiningu. „Þetta er fimm metra hvelfing, ferningur með yfir 200.000 silfurbergsmolum. Við tókum vídeóið upp í gegnum skautunarsíur þannig að Silfurbergið verður eins og glitrandi sólkerfi,“ segir Selma. „Það er fallegt að þeir hafi komið með þessa hugmynd því silfurbergið skiptir máli í þekkingarleit og það er mjög við hæfi að það sé yfir inngangi í æðstu menntastofnun landsins. Við vildum gefa þessari hvelfingu sess á sýningunni og sýna um leið menningarleg áhrif silfurbergs,“ bætir Selma við.

Hin fullkomna kúla

Á sýningunni er stórmerkileg silfurbergskúla sem fengin er að láni frá Náttúrufræðistofnun. „Alþýðumaður og bókbindari, Bjarni Ólafsson frá Brimnesgerði, frétti af því í kringum 1880 að skipuleggjendur heimssýningarinnar í Chicago vildu sýna þar silfurberg. Hann var að vinna í námunni á Eskifirði og keypti tæran mola og fór að slípa hann í kúlu. Það á ekki að vera hægt því silfurberg brotnar alltaf í fleti. Hann vann að þessu í einhver ár og tókst að gera fullkomna kúlu sem við sýnum á sýningunni. Kúlan fór ekki á heimssýninguna en ferðaðist til Bandaríkjanna og Danmerkur áður en hún var gefin Þjóðminjasafni Íslands af ættingjum Bjarna,“ segir Sirra.

Myndlistarmennirnir segjast ætla að halda áfram að vinna með viðfangsefnið og sýningar eru meðal annars fyrirhugaðar í Sofíu í Búlgaríu, Haag í Hollandi og Aþenu.