Erna Geirlaug hefur starfað lengi sem innanhússarkitekt og í fyrra ákvað hún að starfa sjálfstætt á þessum vettvangi. Hún segir að mikið hafi verið að gera, sérstaklega sé mikil eftirspurn eftir hugmyndum að breyttum eldhúsum og baðherbergjum. „Það er ekki spurning að endurgreiðsla virðisauka hefur haft hvetjandi áhrif á fólk til að drífa sig í framkvæmdir. Verkefnin hafa verið fjölbreytileg, til dæmis endurbætur á eldhúsum, baðherbergjum og upp í heilu húsin, en þá er verið að tala um gólfefni, litaval og ekki má gleyma húsgögnum, til að ná fram heildarútliti hússins,“ segir Erna.

Hlýlegir tónar

Erna segir að margir séu að sækjast eftir svipaðri línu í eldhúsinnréttingum en þó fari það aðeins eftir húsnæðinu hvað passar best. „Ljósar innréttingar eru vinsælastar þótt sumir vilji grátt eða svart. Brúnbæsuð eik eða askur með ljósum steini á borði hefur verið mjög vinsæl undanfarið. Mér hefur þótt fólk sækja frekar í hlýlega tóna inn á heimilið. Annað sem ég hef tekið eftir er að margir vilja hafa vínkæli í nýja fína eldhúsinu sínu og þá finn ég góðan stað fyrir hann. Það er hægt að fá vínkæla sem passa undir borðplötu. Nú er hægt að fá vínkæla allt frá einni flösku og upp í stóra gólfskápa. Vínkælar eru á góðu verði og fólk notfærir sér það,“ segir Erna og bendir á að kröfurnar séu alltaf að breytast. Hún nefnir einnig að vinnulýsing þurfi að vera góð í eldhúsi og rétt að huga að því líka.

Fallegt eldhús hannað af Ernu. Innréttinguna smíðaði BGS Trésmiðja ehf. en borðplatan er frá Granítsmiðjunni. Takið eftir innbyggða vinkælinum.

Ný tækni í heimilistækjum

„Ég teikna auk þess yfirleitt tækjaskáp, búrskáp og geri ráð fyrir plássi fyrir flokkunarfötur undir vaskinum,“ segir hún. „Þegar ég byggði mitt hús árið 2008 þá var aðalmálið að hafa ofn og einnig gufuofn. Núna vilja margir svokallaðan combi-ofn en það er sambyggður baksturs- og örbylgjuofn eða sambyggður baksturs- og gufuofn. Ég nota gufuofninn minn sjaldan en held að ég myndi nota combi-ofn meira,“ segir Erna. „Þegar skipt er út eldhúsinnréttingu vilja langflestir fá ný tæki líka. Þá er einnig algengt að breyta eldhúsinu með því að taka niður veggi. Fólk sem hefur fundið sér stað sem það vill búa á til frambúðar er duglegt að taka í gegn og velur að hafa hlutina vandaða og vel gerða,“ segir Erna.

Þegar Erna er spurð hvort heppilegt sé fyrir fólk að skipta út innréttingu ef það sé í söluhugleiðingum þá sé það ekki sjálfgefið þar sem smekkur fólks sé svo misjafn.

Erna segir að margir láti sérsmíða eldhúsinnréttinguna. Þegar innanhússarkitekt hannar getur hann komið með ýmsar skemmtilegar lausnir sem auðvelda fólki lífið í eldhúsinu. „Að láta sérsmíða innréttingu gefur oft á tíðum meiri möguleika. Auk þess koma fagmenn og setja innréttinguna upp sem er alltaf til bóta.

Annað sjónarhorn. Eldhúsið gefur umhverfinu skemmtilegan svip.

Eldhús í stofunni

Í flestum nýjum íbúðum er eldhúsið opið inn í stofu. Erna var spurð hvort það þýddi ekki glæsilegra eldhús? „Jú, nauðsynlegt er að hugsa út í það. Maður velur svolítið öðruvísi eldhús ef það er opið inn í stofu. Til dæmis skiptir máli hvernig blöndunartæki og fleira eru valin. Höldulausar innréttingar eru vinsælar og gufugleypar sem eru ofan í helluborðinu. Ég legg áherslu á að fólk velji það sem því líður vel með,“ segir hún.

Það er ljóst að endurgreiðsla á virðisauka hefur skipt miklu máli fyrir fólk þegar kemur að framkvæmdum á heimilum. Einnig bendir Erna á að stundum geti fólk leyft sér meiri framkvæmdir en upphaflega var stefnt að vegna aðgerða stjórnvalda sem settar voru til að efla atvinnulífið.

Erna Geirlaug er á Facebook og Instagram.