Vinirnir Þórdís Imsland og Sigurjón Örn Böðvarsson eignuðust son í 23. október síðastliðnum og opinberuðu nafn hans í Ísland í dag í gær.

Drengurinn var nefndur Óðinn Örn Sigurjónsson Imsland.

Nafnið Óðinn er út í bláinn, en Örn er einnig millinafn Sigurjóns og föður hans, afa Óðins. „Þetta er eiginlega smá ættarnafn, segir Sigurjón.“

Tilgangur lífsins breyttur

Þórdís segir meðgönguna hafa gengið mjög vel, „Þetta er alveg æðislegt og þetta er bara svo mikil ást,“ segir Þórdís Imsland. „Tilgangur lífsins er búinn að breytast,“ segir Sigurjón stoltur.

Að sögn Þórdísar gekk fæðingin mjög vel og ráðleggur konum frá því að lesa of mikið af hryllingssögum.

„Ég fékk fyrstu hríðir klukkan þrjú um nóttina,“ segir Þórdís og að hún hafi ekki viljað vekja Sigurjón strax, þar sem hann myndi fara þá að smyrja nesti.

„Ég vek hann um sexleytið og segi við hann að það sé eitthvað að gerast og hann segir strax, á ég þá að fara byrja smyrja,“ segir Þórdís og hlær.

Sigurjón var búinn að fara sérferðir í Hagkaup og var ætlunin að vera búinn að smyrja og vera með kaffi og með því, segir hann.

Magnað að koma barni í heiminn

„Það er alveg magnað að maður geti komið svona barni út. Hann var algjör klappstýra og frábær sem var eiginlega að rembast með mér,“ segir Þórdís og hlær.

Þórdís og Sigurjón ætla að búa saman næsta árið. „Við ætlum að miða við að hafa þetta viku og viku í framtíðinni og ætlum að vera saman um jólin,“ segir Þórdís.