Vinir og vanda­menn Kim Kar­dashian og Taylor Swift hafa nú blandast í opin­bera net­deilur kvennanna en einn besti vinur hinnar síðar­nefndu, Todrick Hall, skaut föstum skotum að Kim á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram nú á dögunum.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá lak heims­frægt sam­tal Kanye West og Taylor Swift frá árinu 2016 í mynd­bandi á netið nú á dögunum. Söng­konan tjáði sig um mynd­bandið á Insta­gram, sagði það sanna að hún hefði á­vallt haft rétt fyrir sér áður en hún benti fólki á mikil­vægan góð­gerðar­sjóð.

Kim skaut þá næst föstum skotum að söng­konunni. Sagði hana hafa valið að rífa upp gömul sár á tímum þar sem heims­byggðin væri að ganga í gegnum erfiða tíma. Gaf hún í skyn að söng­konan væri að ljúga og nýta sér að­stæðurnar.

Ýmsir hafa blandað sér í deilurnar. Systir Kim, Khloe Kar­dashian, lýsti yfir fullum stuðningi við systur sína á Twitter. Dansarinn Todrick Hall, sem hefur verið vinur Swift um ára­bil, skaut hins vegar föstum skotum að Kim Kar­dashian vegna málsins.

„Henni leið AUG­LJÓS­LEGA ó­þægi­lega vegna þessa og eftir að þú niður­lægir ein­hvern á opin­berum vett­vangi tvisvar í sjón­varpinu, held ég að þú ættir að láta ein­hvern annan sjá um þessi sím­töl eða ein­hvern fag­aðila,“ segir Hall.

„1. Enginn myndi veita leyfi fyrir slíku án þess að heyra lagið. Ef þau höfðu tíma til að taka þetta mynd­band, þá höfðu þau tíma til að senda tölvu­póst með vörunni og fá leyfi þegar lagið var til­búið. 2. Þau minntust ekkert á að þau myndu hafa NAKTA dúkku í raun­stærð af Taylor með Kanye í mynd­bandinu.“