„Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri eitthvað svona, í vöruhönnun,“ segir Ingi Bekk, ljósa- og myndbandshönnuður hjá Borgarleikhúsinu, um vínilfestingu sem hann hannaði og framleiddi á dögunum. „Ég hef alltaf haft áhuga á uppfinningadóti. Ég fékk 3-D prentara í jólagjöf frá konunni minni og byrjaði eitthvað að brasa.“

Það var þá sem hugmyndin kviknaði. „Svo fór ég að horfa á plöturnar mínar og fannst leiðinlegt að þær sætu bara ofan í kassa. Ég prófaði að búa til júnit og ákvað að athuga hvort fólk hefði áhuga á þessu. Það kom á daginn.“

Ljósin og prentið tala saman

Ég er búinn að nota þrívíddarforrit mikið í vinnunni, til þess að hanna lýsingar. Það færðist rosalega vel yfir og það var auðvelt fyrir mig að koma mér inn í prentunina sem er mjög áhugaverður heimur,“ segir hann.

„Plötuumslög geta verið svo ofboðslega falleg og mikið er lagt í hönnunina á þeim flestum. Það er svo mikil synd að þau sitji bara á skringilegum stað ofan í kassa eða geymslu,“ segir Ingi og bendir á að sú staðreynd hafi veitt honum innblástur að lausninni sem var að koma plötunum smekklega upp á vegg svo fólk gæti notið þess að horfa á umslögin.

Hönnun Inga hefur vakið athygli
fréttablaðið/sigtryggur ari

Gefur plötunum meira gildi

Hann segir að tvær til þrjár plötur rúmist í hverri festingu. „Svo geturðu bara svissað, þetta er bara svolítið lifandi listaverk. Það gefur líka vínilplötunum þínum meira gildi finnst mér, og meira hlutverk inni á heimilinu.“

Umslagið á Annarri Mósebók hljómsveitarinnar Moses High­tower, eftir eftir Sigríði Ásu Júlíusdóttur, varð ekki síst kveikjan að hugmyndinni. „Ég fór allt í einu að velta þessu fyrir mér. Allir eru að kaupa vínilplötur núna og ég var að horfa á umslagið á þessari plötu og mig langaði að koma þessu upp á vegg. Ég bjó til prótótýpuna og hún er enn uppi á vegg hjá mér.“

Á miðvikudaginn ákvað Ingi svo að kanna áhuga fólks á að kaupa slíka festingu. „Ég kýldi á það í gær, á bríaríi í fæðingarorlofi að athuga áhugann á þessu. Nú er kominn það mikill áhugi að ég þarf að kaupa þjónustu til að prenta megnið af þessu. Ég bjóst við að geta sinnt þessu meðfram fæðingarorlofinu, en það er ekki fræðilegur.“

Hann sat og klóraði sér í höfðinu í fyrrinótt í leit að lausninni. „Ég hefði verið að afhenda síðasta parið í ágúst miðað við afköstin á prentaranum hjá mér.“ Ingi segist næst hafa fengið 3D verk til að prenta vörurnar fyrir sig. „Þeir eru frábærir og ætla að prenta fyrir mig frekar stórt upplag til að komast yfir fyrsta hjallann. Svo fer ég að gera sérútgáfur í rólegheitum, og sérpantanir,“ segir hann.

Eitthvað alveg nýtt

Ingi segist vera með fleiri hugmyndir í kollinum varðandi lausnamiðaðar heimilisvörur. „Ég var að segja við Aðalbjörgu, konuna mína, ég horfði á hana yfir eldhúsborðið og sagði: Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert í langan tíma. Finna eitthvað alveg nýtt.“

Ingi starfar hjá leikhúsi alla jafna, en leikhússenan hefur verið í lægð vegna heimsfaraldurs. „Það er algjör lægð í bransanum, því miður, en við höfum fengið falskar vonir af og til. Ég ákvað að taka fæðingarorlof á þessum tíma og þetta fyllir mjög vel upp í þetta kreatíva gap á meðan ég er ekki að vinna vinnuna mína. Á meðan ég skipti um bleyjur,“ segir hann sposkur.