Margir velta því eflaust fyrir sér af hverju vindorka er ekki nýtt betur hér á þessu vindasama landi. Þröstur Þorsteinsson jarðeðlisfræðingur segir að fyrir því séu nokkrar ástæður.

Helsta ástæða þess að vindorka hefur lítið verið nýtt hérlendis er sennilega sú að kostnaður við að framleiða rafmagn með henni hefur verið mun meiri en fyrir vatnsafls- og jarðhitavirkjanir, að sögn Þrastar.

„Það hefur hins vegar breyst hratt á undanförnum árum. Með hærra raforkuverði, þróun aðferða og bættri tækni, meðal annars betri nýtni vindmylla, verður vindorka sífellt raunhæfari valkostur. Fleiri þættir hafa einnig áhrif, til dæmis hefur hingað til ekki skort endurnýjanlega virkjanakosti á Íslandi; hvorki í vatnsafli, né jarðhita. Síðan má nefna að nokkuð vantar af rannsóknum á mögulegum staðsetningum, sér í lagi með tilliti til fugla og umhverfis, meðal annars sjónrænna áhrifa,“ útskýrir hann.

Þröstur er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og hefur einnig unnið að rannsóknum á dreifingu H2S frá jarðhitavirkjunum og auk þess kennt námskeið um endurnýjanlega orkuvalkosti og þekkir því vel til málsins. Hann segir það fara eftir tegund og líka eftir því við hvað er miðað hvort kostnaðarsamt sé að setja upp vindmyllur.

„Í MS-ritgerð Kristjáns Gunnarssonar frá árinu 2014 kemur fram að kostnaðarverð vindorku getur verið samkeppnishæft við jarðvarmavirkjanir en heldur hærra en í vatnsorku,“ segir hann, en spurður hvort þær séu umhverfisvænar segir hann að stutta svarið sé já.

„Það er engin bein losun vegna reksturs eða framleiðslu á vindorku. Auðvitað þarf efni í þær en samanborið við jarðefnaeldsneyti er mjög lítil losun gróðurhúsalofttegunda tengd vindmyllum, eins og kemur út úr lífsferilsgreiningum.“

Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði.

Stöðugur vindur bestur

Þröstur segir að mörg svæði á Íslandi ættu að vera góð til að nýta vindorku.

„Nýting vindmyllanna sem Landsvirkjun rekur, Hafið, virðist mjög góð og hærri en meðaltöl. Það er sagt að hún sé um 40%. Vindmyllur virka til dæmis hvorki í logni né í of miklu roki, oft hættir framleiðsla við vindhraða upp á 25-30 m/s. Hámarksafköst fást við stöðugan og nokkuð háan vindhraða; framleiðslugetan fylgir vindhraða í þriðja veldi,“ útskýrir hann.

„Upplýsingar um vindafar hér á landi gefa sterka vísbendingu um að hér á Íslandi geti vindorka keppt við aðra virkjunarkosti.“

Spurður að því hversu mikið rafmagn vindmylla getur framleitt í samanburði við vatnsvirkjun segir Þröstur að uppsett afl vindmyllu sé breytilegt. „Þær sem eru við Búrfell eru tæplega 1 MW hvor. Allra nýjustu vindmyllurnar eru nú orðnar 13 MW. Búrfellslundur er hugsaður með 30 vindmyllum sem eru um 4 MW hver, samtals 120 MW – eða 440 GWst á ári. Til samanburðar er fyrirhuguð Hvammsvirkjun með uppsett afl 93 MW og orkugetu upp á 720 GWst á ári.“

Er þörf á meiri raforkuframleiðslu á Íslandi?

„Það þyrfti eiginlega að spyrja raforkuframleiðendur að því til að fá nákvæm svör. En samkvæmt raforkuspá til 2060 var heildarnotkun raforku á árinu 2019 um 19,5 TWst og búist er við að hún verði orðin um 21,5 TWst á árinu 2030. Undir lok spátímans 2060 er gert ráð fyrir að notkun raforku verði nærri 24 TWst.“

Eru aðrir kostir en vindorka betri ef framleiða á rafmagn á annan hátt en með vatnsafli?

„Jarðhita má nota til raforkuframleiðslu til dæmis eins og Hellisheiðarvirkjun. Eins og kom fram að ofan er kostnaður við vindorku sennilega lægri en rafmagn framleitt með jarðhita. Auk þess er orðið umdeildara en áður að taka svæði undir orkuvinnslu. Það hefur ekki verið vinsælt í umræðunni að stækka jarðhitasvæði og erfiðlega gengur að finna vindmyllum stað sem ekki er umdeildur. En ný tækni gæti auðvitað breytt hlutum hratt.“