Aflýsa hefur þurft hlaupinu undanfarin tvö ár vegna heimsfaraldursins en nú eru væntanlegir þátttakendur í fullum undirbúningi og að gera sig klára fyrir hlaupið en fjórar vegalengdir eru í boði, maraþon, hálfmaraþon, 10 kílómetrar og skemmtiskokk. Þetta verður í 37. sinn sem Reykjavíkurmaraþonið fer fram en það fyrsta var árið 1984.

Einn af þeim fjölmörgu sem ætla að vera með í ár er Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsu vegalengdum. Hann kom fyrstur í mark þegar Reykjavíkurmaraþonið fór síðast fram, 2019, og varð þar með Íslandsmeistari í greininni fjórða árið í röð.

„Jú, jú, ég er að sjálfsögðu skráður í maraþonið og eins og alltaf er mikil tilhlökkun fyrir því. Hápunkturinn á þessu tímabili var Laugavegshlaupið sem fram fór 16. júlí. Það gekk eins vel og hægt var að búast við. Þar náði ég næstbesta tíma sem náðst hefur í hlaupinu og vann það. Síðustu vikurnar hef ég verið að jafna mig eftir það og ég er kannski ekki alveg kominn í 100% gír. Maður þarf bara að vera þolinmóður en formið er gott,“ segir Arnar en Laugavegshlaupið var 55 kílómetra utanvegahlaup, sem hann hljóp á tímanum 4:33,07 klukkustundum.

Arnar segir að Reykjavíkurmaraþonið sé stærsti hlaupaviðburðurinn á Íslandi á hverju ári og segist alltaf vilja taka þátt í því.

„Það er svo gaman að finna hlaupaandann sem myndast í kringum Reykjavíkurmaraþonið. Stemningin er frábær. Það eru svo margir að ná markmiðum sínum, safna fullt af peningum í góðgerðarmál og það er svo mikil jákvæð gleði í kringum hlaupið. Þarna myndast ótrúlegur góður andi,“ segir Arnar.

Ekki keyra þig út fyrstu kílómetrana

Það eru eflaust margir að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta sinn hvort sem þeir hlaupa heilt maraþon, hálft, 10 kílómetra eða skemmtiskokk.

En á Arnar til einhver góð ráð fyrir þessa aðila varðandi undirbúning?

„Það sem er mikilvægast næstu daga og þegar hlaupið fer af stað er að gera ekki of mikið. Þú vilt ekki mæta þreyttur á ráslínuna og ekki keyra þig út fyrstu tvo til þrjá kílómetrana hvort sem þú ert að hlaupa heilt maraþon, hálft eða 10 kílómetra. Það er betra að vera með markmið að hlaupa frekar 10 prósentum of hægt heldur en 10 prósentum of hratt fyrstu kílómetrana. Þú átt að leyfa þér að brosa og njóta andlega. Ef þú ert tiltölulega heill heilsu átt þú að vera þakklátur fyrir það að geta verið að undirbúa þig fyrir hlaupið. Það er ekkert sjálfsagt að fá tækifæri til að vera með. Það er fullt af fólki sem langar að taka þátt en getur það ekki af ýmsum ástæðum. Þetta verður erfitt og sársaukafullt á einhverjum tímapunktum í hlaupinu og þá er mikilvægt að takast á við það á jákvæðan hátt. Ég myndi mæla með því að fólk taki síðustu erfiðu æfinguna tíu dögum fyrir hlaupið.“

Arnar á besta tíma sem Íslendingur hefur hlaupið maraþon á á íslenskri grundu. Sá tími er 2:23,08 klukkustundir sem hann náði í Reykjavíkurmaraþoninu þegar það fór síðast fram, árið 2019.

„Ég hef svo sem ekkert sett mér nein markmið tímalega séð. Ég er alveg í formi til að vera eitthvað í kringum þennan tíma sem ég hljóp á fyrir þremur árum. Ég er mikill keppnismaður. Í Laugavegshlaupinu var ég ekki svo mikið að spá í tímanum. Mig langaði bara að keppa og vinna. Þegar sá hugsunarmáti er í gangi þá koma oftar en ekki góðir tímar í kjölfarið. Ég á eftir að taka eina stóra æfingu fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Ég nýt góðs af reynslunni og ég mun taka síðustu æfinguna stuttu fyrir hlaupið en sjálfur myndi ég ekki mæla með því fyrir hvern sem er.“