Reykja­vík Dance Festi­val fagnar tuttugu ára af­mæli sínu í ár og hefur há­tíðin tekið höndum saman við al­þjóð­legu leik­listar­há­tíðina Lókal og býður fólki í fimm daga langa af­mælis­veislu sem hefst í dag. Sviðs­lista­hjónin Pétur Ár­manns­son og Brogan Davi­son, list­rænir stjórn­endur RDF, segja mikla stemningu vera fyrir há­tíðinni í sviðs­lista­senunni hér á landi.

Pétur: „Við erum ó­trú­lega vel stemmd myndi ég segja og finnum að það er mikill á­huga fyrir há­tíðinni. Ég held að fólk sé bara al­mennt mjög menningar­þyrst.“

Fjöl­breytni og inn­gilding

Hver eru þemu há­tíðarinnar í ár?

Pétur: „Þemu há­tíðarinnar eru fjöl­breytni, inn­gilding og að­gengi. Þetta er fjöl­breytt safn sýninga og við­burða með fjöl­breyttum hópi lista­manna. Það er bæði ís­lenskur dans og al­þjóð­legur dans, þannig að það er fjöl­breyti­leiki bæði í list­rænum skilningi og í birtingar­myndum þeirra sem stíga á svið.“

Brogan: „Inn­gilding er eitt af þemum há­tíðarinnar í ár og hefur verið í mörg ár en á sér­stak­lega vel við núna í ljósi ný­legrar um­ræðu um birtingar­myndir, sér­stak­lega er við kemur fötluðum lista­mönnum og fólki með fat­lanir. Þetta virðist vera góður tími til að halda á­fram þeirri um­ræðu í gegnum lista­mennina sem sýna á há­tíðinni.“

Á meðal þess sem boðið er upp á á há­tíðinni eru við­burðir fyrir börn, nám­skeið fyrir fólk yfir sex­tugt og sýning með flytj­endum á ní­ræðis­aldri.

Pétur: „Við reynum ein­hvern veginn alltaf að spyrja spurninganna fyrir hvern er dans, hver fær að dansa og hver hefur fengið boð í dans­teitið? Kannski er há­tíðin okkar til­raun til að svara þeim spurningum og ögra við­teknum hug­myndum.“

DJ Ívar Pétur stýrir Baby Rave í Iðnó fyrir yngstu áhorfendurna.
Mynd/Aðsend

Eitt­hvað fyrir alla

Eins og áður sagði markar há­tíðin í ár tíma­mót því Reykja­vík Dance Festi­val á tuttugu ára af­mæli um þessar mundir.

Brogan: „Þemað er að þetta er stór fimm daga löng af­mælis­veisla. Við höfum tekið höndum saman við Lókal – al­þjóð­lega leik­listar­há­tíð og erum með 54 við­burði yfir fimm daga þannig að þetta verða risa­stór há­tíða­höld með mál­stofum, smiðjum, sýningum, göngum og ein­hverju fyrir alla.“

Sér­stakt há­tíðar­blað RDF verður gefið út á opnunar­há­tíðinni í dag í rit­stjórn Sól­eyjar Frosta­dóttur og hannað af Einari Viðari Guð­munds­syni Thor­odd­sen og Sigurði Atla Sigurðs­syni.

Pétur: „Það kemur út í opnunar­­partíinu okkar þar sem allir geta skoðað sögu há­tíðarinnar frá því hún byrjaði sem lista­manna­rekið appa­rat og hefur svo stækkað og stækkað.“

Gentle Unicorn eftir ítölsku sviðslistakonuna Chiara Bersani.
Mynd/Aðsend

Dans­höfundur með fötlun

Hvað ber hæst á há­tíðar­dag­skránni í ár?

Pétur: „Fyrsti við­burðurinn sem kemur upp í hugann er sýningin Gent­le Unicorn eftir ítölsku sviðs­lista­konuna Chiara Bersani, hún er að koma hingað og verður í heila viku með okkur, er að kenna uppi í Lista­há­skóla og verður með mál­þing og nám­skeið á Dans­verk­stæðinu. Við höfum kynnst henni undan­farið rúmt ár og finnst hún vera frá­bær lista­kona og hafa ó­trú­lega mikið fram að færa, þannig að við erum mjög spennt að fá hana hingað.“

Brogan: „Hún er lista­maður með fötlun og það er mjög á­huga­vert að fá hingað lista­mann sem er höfundur verka sinna. Það hafa verið mörg verk í sviðs­lista­senunni hér með þátt­töku fólks með fat­lanir en hún er marg­verð­launaður dans­höfundur sem hefur verið starfandi í mörg ár.“

Pétur: „Dead eftir Höllu Ólafs­dóttur og Amanda Apetrea, sem verður í Tjarnar­bíói á föstu­dags- og laugar­dags­kvöldinu, er held ég sýning sem fólk mun tala um. Þær eru að vinna með mörk og sam­þykki á­horf­andans fyrir því sem hann er að fara að sjá og svo fram­vegis. Svo ætlum við að halda okkar stærsta Baby Rave til þessa í Iðnó sem okkur finnst frá­bær við­burður og er litla barnið okkar. Þegar við byrjuðum með há­tíðina þá vorum við ný­búin að eignast litla dóttur og vorum að leita að tæki­færum til að dansa með henni. Að endur­upp­götva dansinn þegar við vorum að djamma um helgar.“

Dead eftir Höllu Ólafsdóttur og Amanda Apetrea.
Mynd/Aðsend

Spenna í loftinu

Pétur: „Verk­efni sem við erum ó­trú­lega stolt af og mun ganga sam­hliða há­tíðinni er Litla systir, þessi ó­hefð­bundni menningar­skóli sem Ás­rún Magnús­dóttir stendur að. Litla systir-hópurinn tekur þátt í að skipu­leggja Femínískt reif undir stjórn Önnu Kol­finnu Kuran í Iðnó sem tekur við af opnunar­partíinu.“

Eins og lætur nærri hafa ekki gefist mörg tæki­færi fyrir dans undan­farin ár vegna Co­vid, hvorki fyrir dans­lista­menn né fyrir al­menning að fara út að dansa. Brogan segir fólk í dans­senunni vera einkar spennt að fá að sletta að­eins úr klaufunum.

Brogan: „Ég held að þetta verði villtasta há­tíðin hingað til. Fólk er að segja okkur hversu spennt það er fyrir há­tíðinni. Svo er dans­senan líka sí­fellt að stækka og ná til fleira fólks. Ég held að í kjöl­far Co­vid sé mikil löngun hjá fólki til að tengjast líkamanum, að dansa sjálft eða að horfa á dans. Mér finnst það liggja í loftinu.“

Ég held að í kjöl­far Co­vid sé mikil löngun hjá fólki til að tengjast líkamanum, að dansa sjálft eða að horfa á dans. Mér finnst það liggja í loftinu.