Á fimmtu­dags­kvöld stendur Hringdu fyrir góð­gerðar­streymi þar sem grín­istinn Villi Neto mun bregða sér í staf­rænan kattar­ham og spila tölvu­leikinn Stray til styrktar Katt­holti. Villi var vel á veg kominn með Grandiosa-pitsu þegar Frétta­blaðið náði af honum tali.

„Hún Melína Kolka hjá Hringdu, sem stendur fyrir streyminu, bar þetta undir mig og ég var strax mjög til,“ segir Villi sem segist elska kisur. „Mér hefur þótt mjög gaman að streyma í þau skipti sem ég hef gert það. Það er samt leiðin­legt að stilla þessu upp sjálfur heima svo það er frá­bært að hafa svona um­stang í kringum mig.“

Ást Villa á kisum er þó harmi blandin.

„Ég er með alveg bullandi of­næmi svo ég get lítið gert fyrir þær nema með því að hjálpa í svona fjár­öflun,“ segir Villi dapur í bragði.

Þú átt sem sagt auð­veldara með pixlaðar kisur?

„Já, hundrað prósent!“

Stray hlaut góða dóma kattar- og tölvuleikjafólks.
Fréttablaðið/Skjáskot

Katt­holtin tvö

Það ætlaði allt um koll að keyra í leikja­sam­fé­laginu þegar Stray kom á markaðinn enda eru kisu­hermar ein­stak­lega van­ræktur markaður. Leikurinn hefur fengið góða dóma en í honum bregður leik­maðurinn sér í hlut­verk villi­kattar í fram­tíðar­dystópíu þar sem staf­ræna byltingin hefur mögu­lega náð að­eins of langt.

„Ég hef haft auga á honum í ein­hvern tíma en hef ekki prófað hann enn þá svo það er gaman að fara í hann alveg blindandi,“ segir Villi klár í slaginn fyrir morgun­daginn. „Ég fylgdist með honum á Twitter þegar hann kom þangað fyrst svo ég veit kannski að­eins hvað er í gangi en samt ekki.“

Villi er sjálfur leikja­kall en hefur ekki náð að sinna dellunni sem skyldi.

„Ég var að kaupa hús svo maður getur ekki beint verið að splæsa í PS5,“ út­skýrir hann. „Síðasti leikurinn sem ég spilaði eitt­hvað af viti var Red Dead Redemption 2 sem er auð­vitað alveg geggjaður. Ef ég fæ mér Playsta­tion dett ég á­byggi­lega inn í FIFA og Rocket Leagu­e – ég elska bolta­leiki eins og alveg týpískur gaur.“

Dag­skráin á fimmtu­daginn hefst klukkan 18 þar sem kynnar kvöldsins verða með Pub Quiz áður en Villi bregður sér í gervi kattarins. Á eftir honum munu stelpurnar í raf­í­þrótta­liðinu Kröflu halda streyminu á­fram með partí­leikjunum Overcooked og Jack­box.

„Það er fyndið að benda á að ég er sjálfur að vinna í Katt­holti um helgar, í upp­setningunni á Emil í Katt­holti,“ segir Villi og hlær. „Mér finnst annars gaman að sjá fólk styrkja þetta flotta starf sem Katt­holt stendur fyrir og er spenntur fyrir því að fólk mæti í streymið og hafi gaman með mér.“

Streymið verður að­gengi­legt á twitch.tv/hringdu.