Grínistinn Vilhelm Netó hefur undanfarið reynt að upplýsa ráðgátuna um afdrif og örlög söngvarans góðkunna Friðriks Dórs Jónssonar sem hann gengur út frá að hafi horfið sporlaust eftir tónleikana Í síðasta skipti árið 2018. Sá Friðrik Dór sem fólk þekki í dag sé því alls ekki Frikki Dór heldur einhver allt annar.

Kvikmyndatökufólk hefur fylgt Vilhelm eftir í leitinni að hinum eina sanna Frikka Dór og afraksturinn verður gerður opinber í þáttunum Hver drap Friðrik Dór? í Sjónvarpi Símans frá og með næsta fimmtudegi.

„Ég er hér. Á lífi,“ segir Vilhelm, sem telur sig ekki geta sagt það sama um Frikka Dór, þegar Fréttablaðið ber undir hann dularfull veggspjöld sem hanga víða um borgina með óskum um upplýsingar um afdrif söngvarans dáða.

„Ég vil meina að sá Friðrik Dór sem er núna sé ekki sá sem við höldum að hann sé. Þetta er ekki sami Friðrik Dór og í gamla daga. Ekki sama manneskjan,“ heldur Vilhelm áfram nokkuð óðamála. Hann telur Frikka af og er viss um að hann hafi horfið fyrir um það bil þremur árum.

Vilhelm segist oft hafa komist í hann krappann í leit sinni að sannleikanum um Friðrik Dór. Mynd/Síminn

Síðasta skiptið

„Þetta eru sirka þrjú ár, já. Það gerðist eitthvað eftir lokatónleikana hans í Kaplakrika 2018 og eftir þá er hann bara farinn,“ segir Vilhelm og segist hafa sannanir fyrir því að Frikka hafi verið ráðinn bani og að hann muni leggja fram sönnunargögn og afhjúpa viðkomandi í þáttunum.

Tónleikarnir örlagaríku voru haldnir þann 6. október 2018 þegar söngvarinn fagnaði þrítugsafmæli sínu og nefndust Í síðasta skipti enda ætlað að „endurspegla ákveðin leiðarlok á ferli Friðriks“. Nokkuð sem þeir hafa svo sannarlega gert ef eitthvað er að marka samsæriskenningar Vilhelms.

„Ég náttúrlega var risastór aðdáandi, sko, en ég vil bara komast til botns í þessu máli og hvað hefur komið fyrir hann,“ segir Vilhelm þegar hann er spurður hvernig hann geti verið svo viss í sinni sök um að Frikki Dór sé ekki Frikki Dór.

Innrás líkamsþjófanna?

„Hann er ekkert með í þessu. Ekki svo ég viti. Hann er frekar kannski bara, hvernig segir maður það, victim?“ segir Vilhelm og svarar með spurningu þegar hann er inntur eftir því hvort Jón Jónsson, bróðir Frikka, eða aðrir nákomnir honum ættu ekki að hafa séð í gegnum svikin.

Hvað erum við þá að tala um hérna? Eitthvað í líkingu við vísindahrollvekjuna Innrás líkamsþjófanna, eða Invasion of the Body Snatchers, þar sem geimverur yfirtóku líkama og vitund fólks?

„Ég veit ekki hvað við erum að tala um en þetta mun allt koma í ljós þegar við frumsýnum þættina núna á fimmtudaginn,“ segir Vilhelm og fullyrðir að þetta ferðalag hans hafi allt verið skrásett vandlega.

Vilhelm tók ýmsa sénsa í háskalegri sannleiksleitinni og sigldi jafnvel undir fölsku flaggi.
Mynd/Síminn

„Ég upplifði mig mjög oft í hættu í þessu ferðalagi og var heppinn að vera með kvikmyndatökufólkið sem gat stundum komið til bjargar.“

Þegar gengið er á hann viðurkennir Vilhelm að hann viti aðeins meira en hann lætur uppi. „Já, nefnilega sko. Eins og maður segir þá verður þú að „see it to believe it“. Eða sjá þetta til að trúa því. Það er bara þannig og þetta mun allt koma í ljós einhvern veginn.

Þetta er mjög fyndin sería, bara þótt ég segi sjálfur frá. Mjög skemmtileg og rugluð. Þetta er líka alveg einstakt í íslenskri þáttagerð svona „mockumentary“ sem byggir á raunheimum en samt ekki þannig að þetta verður spennandi að sjá viðbrögðin,“ segir Vilhelm um Hver drap Friðrik Dór? sem sennilega er best lýst sem grínheimildarþáttum.

Hvað kom fyrir Friðrik Dór?

Vilhelm hefur víða auglýst eftir upplýsingum um Friðrik Dór og spurt „Hvað kom fyrir Friðrik Dór?“ með til dæmis dreifibréfum, veggspjöldum og borða yfir fjölförnum umferðargötum.

Hann biður fólk sem kann að búa yfir upplýsingum um afdrif söngvarans vinsæla um að hafa samband í símanúmerið 550 2000 þar sem símsvari tekur við öllum ábendingum sem hann segir hingað til mest hafa verið kjaftæði. „Þetta eru mikið bara unglingar að hringja og segja eitthvert kjaftæði. Bara verið að fíflast í mér. Ég kann ekkert mjög mikið að meta það.“

Friðrik Dór eins og hann leit út árið 2017, um það bil ári áður en Vilhelm telur að hann hafi horfið sporlaust og tvífari, sem ekki er allur þar sem hann er séður, tók hans stað.
Fréttablaðið/Eyþór

Vilhelm er talsvert niðri fyrir á upptöku símsvarans þar sem hann fer óðamála og andstuttur með þennan texta:

„Hæ, takk fyrir að hringja. Ef þú ert með einhverjar upplýsingar um hvarf Friðriks Dórs þá máttu endilega deila þeim með mér. Einnig ef þú varst á tónleikum í Kaplakrika og sást eitthvað grunsamlegt þá vil ég líka fá að vita af því. Ég er með rannsókn í gangi og ég mun komast að því hvað varð um Friðrik Dór. Ég hætti ekki fyrr en ég kemst að sannleikanum. Plís, skildu eftir skilaboð ef þú hefur einhverjar upplýsingar. Þetta skiptir mig miklu máli.“