„Ég var í húsasmíðanámi en fór í leiklistarnámið áður en ég kláraði það. Ég snerti ekki smíðarnar lengi en hef gert það í seinni tíð. Ég hélt að ég myndi ekki fara út í þetta aftur en það er ákveðin hvíld og íhugun sem fylgir smíðavinnunni og ég segi að handverk sé eitt það göfugasta sem við eigum. Ég fór að hafa gaman af þessari vinnu aftur og er núna búinn að vera að vinna uppi á heiði, nánar tiltekið á Heytjarnarheiði, sem er ekki langt frá Hólmsheiði. Við keyptum hús með hektara lands og skógi sem þurfti að hressa upp á og ég er búinn að vera svolítið að dunda mér í því. Ég hef svolítið gaman af því að höggva skóg eða eins og berserkirnir gerðu, ryðja skriður og grjót, smíða og gróðursetja,“ segir Pálmi og bætir við:

„Mér telst til að ég sé búinn að gera upp fimm hús eða íbúðir. Ég gerði til að mynda upp húsið sem ég fæddist í í Bolungarvík.

Spurður hvort hann sé vel búinn tækjum og tólum í smíðavinunnunni segir Pálmi: „Ég á nokkur verkfæri heima en á meira fyrir vestan. Ég er að koma mér upp verkfærum sem nægja mér en hver veit nema að það bætist eitthvað í safnið þegar ég opna jólapakkana. Verkfæri eru helstu jólagjafirnar sem ég óska mér ef einhver ætlar að gefa mér jólagjöf,“ segir Pálmi, og hlær.

Pálmi hefur nóg fyrir stafni í leiklistinni en það eru að nálgast 40 ár frá því hann varð fastráðinn við Þjóðleikhúsið. „Ég var að klára tökur í sjónvarpsseríunni Heima er best, sem Tinna Hrafnsdóttir er að gera, og það er alltaf nóg að gera í þessum bransa.“