Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu hófst snemma í maímánuði og stefnir í skemmtilegt og spennandi Íslandsmót eins og undanfarin ár. Einn þeirra leikmanna sem koma vel undirbúnir til leiks er Alexandra Jóhannsdóttir í Breiðabliki en hún var valin efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar kvenna á síðasta ári þar sem hún m.a. skoraði fimm mörk og átti stóran þátt í að liðið hampaði Íslandsmeistaratitlinum. „Markmið mitt í sumar er að reyna að gera betur en í fyrra og gera allt sem ég get til að liðinu gangi sem best. Liðið ætlar sér að vinna titla en við einbeitum okkur samt bara að einum leik í einu og sjáum hvert það leiðir okkur. Ég ætla í háskóla í haust svo að ég er ekkert að stressa mig á því að fara í atvinnumennskuna erlendis. Ef eitthvað gott býðst þá er aldrei að vita hvað maður gerir. Það er klárlega markmiðið að fara út einn daginn í atvinnumennskuna.“

Hún segir það hafa komið sér á óvart að vera valin efnilegasti leikmaðurinn eftir síðasta tímabil. „Ég átti alls ekki von á þessu fyrir tímabilið en valið bara hvetur mig til að gera enn betur í ár. Það eru mjög margir efnilegir leikmenn á landinu svo ég þarf bara að halda áfram að æfa vel til að ná lengra en að vera efnileg.“

Fékk góðan stuðning

Alexandra var sex ára gömul þegar hún hóf að æfa fótbolta með Haukum í Hafnarfirði en hafði áður æft fimleika. „Árið 2012 hóf ég einnig að æfa handbolta samhliða fótboltanum og hélt því áfram þar til ég varð sextán ára. Draumurinn hefur alltaf verið að ná langt í fótboltanum og mig hefur lengi dreymt um að komast í landsliðið.“

Hún segir foreldra sína hafa stutt sig vel alla tíð og þakkar þeim mikið árangur sinn. „Þau hafa stutt mig í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og gert allt sem þau geta gert til að ég standi mig sem best. Ég held ég geti talið á fingrum annarrar handar leikina sem þau hafa ekki séð með mér, hvort sem það er hérlendis eða erlendis. Pabbi hefur þjálfað mig nokkrum sinnum og ég hef fengið mörg góð ráð frá honum. Hann var samt stundum aðeins meiri þjálfari en pabbi þegar ég var yngri, þá var alltaf gott að hafa mömmu til að kvarta yfir honum.“

Leiðist aldrei

Í maí útskrifast hún frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og segist hafa stundað námið af kappi. „Síðustu mánuðir hafa verið annasamir því að fyrir utan að vera nemandi og æfa fótbolta tók ég að mér tímavinnu sem persónuleg aðstoðarmanneskja langveikra systra. Ég finn mér alltaf eitthvað að gera og læt mér sjaldan leiðast. Ég fylgist einnig mikið með handbolta og núna upp á síðkastið hef ég einnig fylgst mikið með körfuboltanum.

Aðspurð hvaða þættir skipti mestu máli utan vallar til að ná árangri segir hún skipta miklu máli að hafa skýr og raunsæ markmið og hafa hugarfarið alltaf rétt stillt. „Einnig skiptir mataræði, svefn og styrkur miklu máli. Ef ég á að gefa ungum fótboltastelpum góð ráð mundi ég segja að mikilvægast sé að mæta á allar æfingar. Svo skiptir miklu máli að æfa aukalega og gera alltaf sitt besta. Síðan má alls ekki gefast upp þegar mótlæti kemur upp.“

Spurt og svarað

Hver er uppáhaldsæfingin þín?

Skotæfing.

Hvernig er dæmigerð helgi hjá þér?

Hún inniheldur fótboltaæfingu á laugardagsmorgni. Svo horfi ég oft á Brynjar, kærasta minn, eða systur mína spila fótbolta. Laugardagskvöld er næstum eina kvöldið sem öll fjölskyldan nær að borða saman svo að þá reynum við að borða eitthvað gott. Ef það eru ekki æfingar eða leikir á sunnudögum fer ég í hot jóga með mömmu og ef Liverpool er að spila þá er alltaf svaka stemning heima.

Færðu sumarfrí í sumar?

Ef Steini þjálfari gefur okkur helgarfrí þá skelli ég mér örugglega bara í sveitina á Flúðum.

Hvert stefnir þú eftir að fótboltaferlinum lýkur?

Vonandi mun ég starfa við eitthvað sem mér finnst ótrúlega skemmtilegt.

Hvað færðu þér í morgunmat?

Upp á síðkastið er ég hrifin af hreinni AB-mjólk með höfrum og ávöxtum.

Hvað finnst þér gott að fá þér í kvöldmat?

Gott kjöt eða sushi.

Hvað finnst þér gott að fá þér í millimál?

Þá vel ég helst hrökkkex með rjómaosti og sultu.

Hver er erfiðasti mótherjinn?

Það er erfitt að velja bara eina svo að ég verð að segja pass.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir leik?

Ég fer út að labba og hlusta svo á einhver geggjuð lög í bílnum á leiðinni í leik.

Ertu morgunhani eða finnst þér gott að sofa út?

Ætli ég sé ekki svona mitt á milli.

Ertu nammigrís?

Mér finnst ís vera afskaplega góður.