Blær Örn Ásgeirsson, 16 ára, vann Opna spænska meistaramótið í frisbígolfi með yfirburðum um helgina. Blær æfir folf á hverjum degi og fer sex sinnum á mót í útlöndum á þessu ári. Hann á sér þann draum að geta lifað af spilamennskunni í framtíðinni.

Blær er aðeins sextán ára og stundar nám í Kvennó á fyrsta ári. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann margra ára reynslu í folfíþróttinni. „Ég prófaði folf í fyrsta sinn með vini mínum á Flateyri og sagði foreldrum mínum að það hefði verið gaman. Þau gáfu mér þá startsett í 11 ára afmælisgjöf og strax helgina á eftir keppti ég á fyrsta Íslandsmótinu mínu,“ segir Blær um upphafið að folfáhuganum. Reyndar lagði hann diskana á hilluna í heilt ár eftir fyrsta mótið en tók þá síðan upp að nýju og hefur ekki lagt þá frá sér.

„Ég byrjaði að æfa af fullum krafti 2014. Þá keypti ég mér fleiri diska og ferðakörfu sem ég gat stillt upp úti og æft mig að pútta. Í dag á ég síðan alvöru körfu sem búið er að setja upp fyrir mig úti.“

Blær segir sportið henta sér mjög vel. Hann æfði fótbolta í sjö ár en hætti því til að spila folf. „Ég var alltaf slæmur í hnjánum í fótboltanum svo folfið á betur við mig,“ segir hann en bætir við að frisbígolfið sé ekki hættulaust. „Maður snýr svo mikið upp á líkamann þegar maður spilar og frekar auðvelt að meiða sig. Ég hef sjálfur verið í dálitlu veseni með bakið.“

Æfir alla daga

Frisbígolfið lá vel fyrir Blæ sem náði strax góðum tökum á því. Þrotlausar æfingar hafa síðan skilað honum á þann stað sem hann er á í dag. „Ég reyni að æfa mig á hverjum degi. Fer allavega út í garð í klukkutíma að pútta og spila svo um helgar. Það er reyndar aðeins minni tíma til æfinga eftir að ég byrjaði í menntaskóla, en ég reyni samt að gera eitthvað á hverjum degi,“ segir Blær sem fer auk þess í ræktina til að styrkja líkamann.

Blær segir aðstöðu til frisbígolfiðkunar frábæra á Íslandi. „Það er fullt af völlum á höfuðborgarsvæðinu sem eru opnir öllum og ekki þarf að borga fyrir að spila,“ segir Blær og telur lítið mál að spila allan ársins hring. „Það er reyndar dálítið erfitt í miklum snjó því þá er auðvelt að týna diskum.“ Þar talar Blær af reynslu en hann hefur týnt ófáum diskum í gegnum tíðina. „Ætli ég sé ekki búinn að týna í kringum 75 diskum í allt. En það er í lagi því ég er kominn með styrktaraðila sem lætur mig hafa fría diska.“

Blær er kominn á samning hjá Innova sem er leiðandi fyrirtæki í folfíþróttinni. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu tekið eftir góðum árangri Blæs og komu að máli við hann um að hann kæmi á samning hjá þeim.

Sex sinnum til útlanda á árinu

Blær hefur tekið þátt í óteljandi mótum á Íslandi og einnig þó nokkrum mótum í útlöndum og ávallt gengið mjög vel. „Ég hef orðið Íslandsmeistari í barnaflokki en hef verið einu kasti frá sigri tvö síðustu ár.“ Fyrsta stórmótið sem hann vann var í Skotlandi fyrir tveimur árum. „Þá ætlaði ég að skrá mig í barnaflokk en það var enginn slíkur. Í staðinn skráði ég mig í fullorðinsflokk og endaði síðan á að vinna hann.“ Blær sigraði einnig á alþjóðlegu frisbígolfmóti í Bretlandi í fyrra, British Open 2018 og hefur nýlokið keppni í Opna spænska meistaramótinu þar sem hann vann yfirburðasigur, spilaði samtals á 21 kasti undir pari og sigraði á 156 köstum, fimm köstum betur en næsti keppandi.

Í ár fer hann sex sinnum til útlanda að keppa. Hann er eins og stendur á Spáni að keppa á spænska meistaramótinu og um páskana verður hann í Hollandi. „Svo fer ég í tvær vikur til Skotlands, á European Open í Finnlandi og síðan keppi ég í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu sem verður haldið í Bandaríkjunum í ágúst,“ segir Blær sem lýkur svo þessu mikla keppnisári með því að keppa á opna bandaríska mótinu í október.

Er ekki dýrt að ferðast svona um og keppa? „Jú fokdýrt, og þar sem ég er ekki með neina styrki aðra en í fríum diskum, reyni ég að halda mót til að safna mér fyrir þessu,“ svarar hann og vonast til að geta fundið sér einhverja styrktaraðila til að létta undir með sér.

En hver er framtíðardraumurinn? „Að verða atvinnumaður í frisbígolfi, ferðast um heiminn og keppa,“ svarar Blær og bendir á að þó nokkrir slíkir séu starfandi í heiminum. „Folfheimurinn er ennþá frekar lítill miðað við stærri sport eins og golf. En þetta er ört stækkandi íþrótt sem á framtíðina fyrir sér.“