Leik­konan Aníta Briem segir að það hafi verið frá­bært að fá að vinna að nýju verk­efni með UNICEF í þágu barna. Hún reyni á­vallt að velja verk­efnin með til­gangi þeirra í huga og það hafi verið skemmti­legt að vinna að nýju her­ferðinni.

Her­ferðin „Veldu núna“ var kynnt í gær og býðst á­horf­endum tæki­­færi að stjórna á­­kvörðunum þeirra Anítu Briem og Snorra Engil­berts­­sonar sem leika aðal­­hlut­­verk í aug­­lýsingu fyrir á­takið. Í til­­­kynningu frá UNICEF segir að um sé að ræða upp­­lifun sem á sér enga líka á heims­vísu.

„Sem lista­maður ertu alltaf að reyna að finna sögur sem eru að snerta á þemum og mál­efnum sem gætu skipt máli. Fyrir mig er það til­gangurinn þegar litið er til þess hvaða sögur maður á­kveður að segja. Ég hugsa alltaf um hvaða gott það gæti látið af sér leiða, sama hvort það er fyrir ein­stak­ling eða mál­efni,“ segir Aníta Briem.

Aníta vill láta gott af sér leiða
Mynd/Saga Sig

Þurfa að geta komið strax á vettvang þegar þörfin er mest

Hún segir að starf UNICEF um allan heim skipti miklu máli og svo að hægt sé að sinna því á­fram séu Heims­for­eldrar lykil­at­riði, en nýja her­ferðin gengur út á að bjóða fleiri lands­mönnum að ganga til liðs við sam­tökin með því að vera Heims­for­eldri. Alls eru 26 þúsund Heims­for­eldrar á Ís­landi sem styrkja UNICEF mánaðar­lega um fram­lag sem hentar þeim.

„Það sem UNICEF gerir er það sem skiptir máli í lífinu. Auð­vitað finnst mér stundum það sem ég geri lítil­fjör­legt og ó­merki­legt og finnst eins og ég eigi að vera að gera eitt­hvað sem skiptir meiru og því dáist ég að því sem UNICEF gerir,“ segir Aníta.

Hún bendir á að UNICEF starfar ekki bara á einum vett­vangi heldur stuðli þau að bættri næringu barna, menntun drengja og stúlkna þeirra auk þess sem þau starfa á neyðar­vett­vangi þar sem eru átök eða hafa orðið náttúru­ham­farir.

„Heims­for­eldrarnir eru svo mikil­vægir því það skiptir svo miklu máli fyrir UNICEF að hafa fjár­magn sem þau geta nýtt ef það kemur upp krísa. Þá þurfa þau ekki að fara í neyðar­söfnun fyrir þann ein­staka at­burð heldur geta stokkið til inn í kring­um­stæður og at­burði og verið til staðar á þeirri stund þegar þau þurfa mest á því að halda,“ segir Aníta.

Tökurnar fóru allar fram um miðja nótt.
Mynd/UNICEF

Höfum vald sem einstaklingar

Hún segir að það geti allir verið Heims­for­eldrar og fólk geti styrkt eins mikið og það vill eða getur mánaðar­lega, sama hvort það er 500 krónur eða 5.000 krónur.

„Allir þessir litlu hlutir skipta sköpum. Þannig þetta verk­efni kom til tals þá fannst mér svo fal­legt að það væri verið að búa til nýtt „plat­form“ og nýja leið til að ná til fólks eða vekja at­hygli á þessum mál­stað með því að búa til bíó,“ segir Aníta og bætir við:

„Við getum tekið þessar litlu á­kvarðanir í okkar lífi sem okkur finnst ekki skipta máli eða vera hvers­dags­legar en það má ekki gleyma að sem ein­staklingar þá höfum við ó­trú­lega mikið vald. Sama hvort það er með litlu eða stóru fram­lagi þá skiptir getum á­kvörðunin um að styrkja skipt sköpum fyrir börn um allan heim og mér fannst spennandi að geta tekið þátt í að miðla því til fólks.“

Hún segir frá því að systir hennar hafi spilað leikinn með 11 ára syni sínum og að þau hafi að því loknu á­kveðið að hann væri Heims­for­eldri.

„Það er svo fal­legt því þarna var hægt að nýta þetta líka sem leið til að koma þessum upp­lýsingum til og í um­ræðu hjá ung­lingi eða barni. Nú er hann með­vitaður um börn út í heimi sem hafa ekki verið eins lán­söm og hann,“ segir Aníta.

Erum öll í þessu saman

Hún segir að það megi ekki gleyma því að við, sem sam­fé­lag, séum öll í þessu saman.

„Ég trúi svo mikið að við séum öll saman í þessu í heiminum. Við erum ekkert ein hérna á Ís­landi þótt við séum í góðu sam­fé­lagi og höfum það flest al­mennt gott. Við erum hluti af þessari heild sem er allt mann­kynið og ég held að það sé mjög mikil­vægt að reyna að hugsa þannig um heiminn,“ segir Aníta.

Spurð um tökurnar sjálfar og hvort það hafi verið eins og að leika í bíó­mynd segir Aníta að upp­takan hafi verið tekin upp svo hægt væri að horfa í símanum eða sam­fé­lags­miðlum og það hafi verið öðru­vísi upp­lifun.

„Fyrir okkur bæði aftan og framan mynda­vélina ertu með­vitaður um rammana og allt í einu er hann kominn á hina hliðina og það var skemmti­legt að sjá til dæmis aðra sýn á Hall­gríms­kirkju en er vana­lega,“ segir Aníta.

Töfrar um miðja nótt

Annað sem hún segir að hafi verið sér­stakt við tökurnar er að þær voru allar nætur­tökur.

„Á þessum tíma sem við tókum upp þá lokaði allt klukkan annað hvort 22 eða 23 og það var enginn á götunni. Engir ferða­menn og engir Ís­lendingar. Það voru allir heima hjá sér. Við vorum að taka upp á Lauga­veginum, Skóla­vörðu­stígnum, Hall­gríms­kirkju, fyrir framan Þjóð­leik­húsið og á þessum stöðum sem eru venju­lega fullir af fólki allan tíma sólar­hringsins en borgin var yfir­gefin. Þetta er eitt­hvað sem gerist örugg­lega aldrei aftur,“ segir Aníta og bætir við:

„Eitt kvöldið þegar Krist­björg Kjeld var að skutla okkur í Hall­gríms­kirkju þá komu ein­hver stór­kost­legustu norður­ljós sem ég hef nokkurn tíma séð, og það í ein­hvern veginn yfir­gefinni Reykja­vík, þetta voru al­gerir töfrar.“