Björgvin hefur stundað íþróttir frá því að hann man eftir sér. Byrjaði fjögurra ára í fótbolta og stundaði fimleika alla tíð. „Fimleikarnir voru mjög góður grunnur fyrir CrossFitið,“ segir Björgvin sem er fæddur á Þórshöfn, uppalinn á Stokkseyri en býr í Hveragerði í dag þar sem hann æfir í CrossFit-stöðinni Hengli sem rekin er af bróður hans og mágkonu.

Björgvin hætti í fótbolta átján ára og fimleikum á svipuðum tíma. „Ég var orðinn slæmur í hnjám, ökklum og úlnliðum, held að ég hafi ofgert mér frá því ég var lítill enda farinn að æfa fimm til sjö klukkutíma á dag. Reyndar er ég kominn á þann stað aftur í dag en á allt annan hátt,“ segir hann glettinn.

Áhuginn á CrossFit vaknaði árið 2012. „Bróðir minn var að vinna í sérsveitinni og margir þar að æfa í CrossFit Reykjavík. Hann dró mig með sér á eina æfingu og þá fann ég eitthvað sem hafði vantað upp á. Þarna var íþrótt þar sem ég var algerlega búinn á því eftir æfingu. Það var tilfinning sem mér þótti mjög fullnægjandi. Svo var líka skemmtilegt hvað maður var fljótur að bæta sig.“

Björgvin hafði enda strax hug á að ná árangri í greininni og komst fljótt í hóp þeirra bestu. Hann tók þátt í Íslandsmóti og varð í öðru sæti og þá var ekki aftur snúið. „Takmarkið hjá mér var að komast á heimsleikana sem mér fannst fjarlægt markmið þá en tókst á tveimur árum. Ég tók þátt í fyrstu heimsleikunum mínum 2014 og það var ótrúleg upplifun að standa allt í einu meðal fyrirmyndanna minna að keppa á móti þeim.“

Hark til að byrja með

Í marga mánuði ók Björgvin á morgnana frá Stokkseyri til Reykjavíkur til að æfa en síðan flutti hann til Hveragerðis þegar bróðir hans opnaði stöðina þar í lok árs 2012. „Þetta var mikið hark. Ég seldi bílinn minn af því hann eyddi of miklu og við leigðum fjórir saman í Hveragerði og áttum ekkert aukalega. Ég hugsaði reglulega hvers vegna ég væri að standa í þessu en ákvað að gefa þessu tvö ár. Þegar ég komst á heimsleikana 2014 breyttist margt og síðan gerbreytti það öllu fyrir mig þegar ég varð í þriðja sæti á heimsleikunum 2015. Þarna var ég orðinn eitt af aðalnöfnunum og auðveldara að fá betri sponsora,“ lýsir Björgvin sem er með umboðsmann sem sér um öll hans mál.

„Þetta er mín vinna. Það er ekki langt síðan fólk var í fullri vinnu, að æfa og keppa á heimsleikum. Þetta er ekki hægt í dag, þú þarft að einbeita þér eingöngu að æfingunum til að eiga séns. Það eru ekki margir sem lifa á þessu sporti nema að vera í topp tíu í heiminum eða vera með mjög sterkt samfélagsmiðlanet. Ég lifi ágætlega af þessu en myndi ekki segja að ég væri ríkur.“

Brjáluð stemning á heimsleikum

Til að vera á toppnum í CrossFit-heiminum þarf mikið til. „Æfingatíminn breytist eftir tíma árs. Núna er ég aðeins að koma til baka eftir heimsleikana en eyði þó ekki minna en fimm tímum á dag í gymminu. Þegar mest lætur æfi ég mestan hluta dagsins, tek tvær æfingar á dag og æfi aldrei minna en sex til sjö klukkutíma á dag þessa síðustu tvo mánuði fyrir heimsleikana. Ég fer út fimm vikum fyrir keppnina og leigi hús með Annie og kærastanum hennar en við erum með sama þjálfarann. Svo æfum við í stöð hjá félaga okkar úr CrossFitinu.“

Hann segir brjálaða stemningu ríkja á heimsleikunum. „Miðar á svona mót seljast upp á nokkrum dögum og langflestir sem koma og horfa eru CrossFitarar þannig að þetta er örugglega „fittest crowd in the world“. Svo verða engin smá læti inni í höllunum þar sem keppnin fer fram.“ Björgvin segir alla íslensku keppendurna fína vini en vissulega sé samkeppnin mikil.

Íslensku stelpurnar í CrossFit hafa fengið mikla athygli, líður hann fyrir það?

„Maður fellur klárlega í skuggann en þær eiga alveg inni fyrir allri athyglinni. Ég er ekkert sár,“ segir hann og hlær. „Það vita samt langflestir hver ég er, sérstaklega í bandaríska CrossFit-heiminum, þar er maður hálfgerð súperstjarna.“

Sársaukinn skárri en uppgjöf

Í sumum greinunum sem keppt er í fara keppendur á ystu nöf sársaukamarka. Hvað hugsar hann í slíkum aðstæðum?

„Ég get ekki hugsað mér að hætta því þá veit ég að mér mun líða tíu sinnum verr en í þeim sársauka sem ég er að ganga í gegnum þá stundina. Ég veit að allt verður þess virði ef ég legg mig hundrað prósent fram því manni líður frábærlega þegar maður gerir eins vel og maður getur.“

Björgvin segir andlega líðan ekki síst mikilvæga bæði í æfingum og keppni. „Þeir sem eru í topp fimmtán á heimsleikunum eru það sterkir að allir gætu unnið alla. Í raun kemur þetta niður á hausnum, hversu sterkur þú ert andlega og hvað þig langar þetta mikið.“

Gott að æfa í Hveragerði

Þó að CrossFit-sportið sé umfangsmikið í Bandaríkjunum og að þjálfari Björgvins búi þar hefur hann lítinn áhuga á því að flytja til útlanda, raunar ekki einu sinni til Reykjavíkur. „Mér fannst nógu stórt stökk að fara frá Stokkseyri til Hveragerðis,“ segir hann brosandi. „Ég myndi segja að hér séu kjöraðstæður til að æfa. Hér er allt til alls, nægur tími, stutt á milli staða, og maður þarf ekki að sitja í umferð allan daginn til að komast í ræktina. Stöðvarnar eru eins um allan heim og svo lengi sem við erum með nýjasta búnaðinn þurfum við ekki meira.“

Fer á skytterí

En gerir hann eitthvað annað en að æfa?

„Ójá, ég á mörg áhugamál sem eru dálítið árstíðatengd. Núna er ég mikið að fara á skytterí með félögum mínum. Svo er ég farinn að hjóla á reiserhjólum og á veturna fer ég á snjóbretti og snjósleða. Á sumrin tekur CrossFitið yfir.“

En að fara í frí?

„Ég reyni að fara í frí, ætlaði til dæmis til Tenerife eftir heimsleikana en nennti svo ekki aftur til útlanda. Við fórum því til Ísafjarðar í staðinn í hús sem foreldrar kærustunnar minnar eiga. Ég eyddi tímanum mikið í að hjóla um Vestfirði og skoða mig um.“

Kærasta Björgvins heitir Katla María Ketilsdóttir. Hann segir hana sýna sér furðumikinn skilning. „Ég er örugglega ekki merkilegur að hanga með. Ég er samt skemmtilegri núna en fyrir heimsleikana í sumar. Hún ber mikla virðingu fyrir því að ég þurfi að æfa mikið og þurfi að fara oft í burtu að keppa. En hún er líka flugfreyja þannig að hún þekkir það að vera á ferð og flugi og við finnum mjög góðan milliveg.“

Setur stefnuna á pallinn

Björgvin gerir sér grein fyrir að keppnisferlinum muni á einhverjum tímapunkti ljúka. „Ég sé mig ekki fyrir mér í keppni þegar ég er kominn á fertugsaldur. Ég er þó ekki með neitt plan um hvenær ég hætti eða hvað tekur við. Meðan ég er að byggja upp mitt nafn og mitt orðspor þá hef ég ekki miklar áhyggjur og læt þetta ráðast. Ennþá finnst mér þetta rosalega skemmtilegt en um leið og ég fæ ekki lengur gleði út úr þessu hætti ég, enda myndi það líka sjást strax á niðurstöðunum. Ég væri hins vegar alveg til í að lenda aftur á palli og þá vonandi í fyrsta eða öðru sæti.“