Bandaríska leikkonan Kaley Cuoco, sem þekktust er fyrir leik sinn í gamanþáttunum Big Bang Theory, vill kaupa hest sem kýldur var af þjálfara þýsku fimmtarþrautarkonunnar Annika Schleu er hún keppti 6. ágúst á Ólympíuleikunum í Tókýó. Henni var síðan vikið úr keppni.

Cuoco er mikil hestakona og er gift hestaþjálfaranum Karl Cook. Hún segist ekki geta þagað yfir málinu og fordæmdi þjálfarann Kim Raisner fyrir að hafa kýlt hestinn Saint Boy en hann lét illa af stjórn er Schleu keppti.

„Ég tel það vera skyldu mína að tjá mig um þessa hneysu,“ segir hún á Instagram. Þetta sé ekki í anda íþróttarinnar og í raun ógeðslegt. Schleu og teymi hennar ættu að skammast sín.

„Þú og teymi þitt gerðu þjóð ykkar ekki stolta, né þessa íþrótt. Þú lætur okkur líta illa út. Skammastu þín og guð blessi hvert dýr sem þarf að vera í kringum þig. Þessi knapi og 'þjálfari' eru til skammar.“
„Ég skal kaupa þennan hest og leyfa honum að lifa því lífi sem hann á skilið. Nefndu verð þitt,“ skrifaði hún og að sér væri full alvara.
