Erla Hlín Hilmars­dóttir opnaði síðasta föstu­dag net­verslunina EKTA þar sem selur notaða merkja­vöru, fatnað, skó, skart­gripi og fylgi­hluti í um­boðs­sölu.

„Ég hef í gegnum tíðina keypt mikið af minni merkja­vöru á „second hand“ merkja­vöru­síðum og hefur alltaf þótt þetta vanta á Ís­landi. Ein­hver staður þar sem fólk getur selt föt sem það hefur ekki not fyrir lengur eða fyrir þá sem langar í merkja­vöru en vilja ekki borga fullt verð,“ segir Erla Hlín.

Hún segir að öllum sem ætli að selja hjá henni sé boðin mynda­taka af því sem þau ætla að selja og þær séu svo að­gengi­lega á vef­síðunni auk þess sem valdar vörur eru birtar á sam­fé­lags­miðlum.

Þannig það eru engir básar?

„Nei, þetta er ekki þannig. Fólk kemur með flíkurnar sem það vill selja til mín, ég mynda þær, tek mál af þeim og sé svo um sendinguna á vörunni til við­skipta­vina og fyrir þetta tek ég sölu­prósentu,“ segir Erla Hlín.

„Þú getur selt vörur frá tísku­merkjum í gegnum Ekta, fengið gott verð og getur hreinsað fata­skápinn í leiðinni. Þetta er um­hverfis­vænt og skemmti­legt. Með þessum hætti getur þú tekið þátt í hring­rásar­hag­kerfinu. Fólk er orðið svo miklu með­vitaðra um að gefa gæða vörum lengra líf og kaupir meira notað, sem er bara frá­bært í alla staði, sér­stak­lega fyrir jörðina,“ segir Erla Hlín.

Á síðunni ertu birtar myndir af vinsælum eða uppáhalds vörum Erlu Hlínar.
Skjáskot/EKTA

Verðið fer eftir ástandi

Erla Hlín segir að hún taki við vörunum hreinum og þær þurfa að vera vel með farnar.

„Ef að það er eitt­hvað að þá er hægt að laga það. Ég tek fram á­standið á vörunni og hversu mikið hún er notuð og verðið fer eftir því. Ef þetta er dýr vara sem er að­eins notuð einu sinni þá er verðið á henni hærra en ef þetta er eitt­hvað sem smá notað og kannski er einn blettur í því þá tek ég það fram og tek mynd af því,“ segir Erla Hlín.

Erla Hlín hefur lengi starfað í fata­bransanum og segir að hún hafi lært margt um gæði og nýtni af Báru Hólm­geirs­dóttur, eig­anda Aftur, sem hún starfaði hjá með hléum frá árinu 2007.

„Ég lærði vel af henni að velja gæða­vöru sem endist. Ef ég kaupi mér föt er ég mjög með­vituð um val á efnum og reyni yfir­leitt að kaupa betri efni sama hvaða merki það er. Það er ekkert aðal­at­riði hvaða merki það er. Það er frekar, sem dæmi, að finna bol sem er úr 100 prósent líf­rænum bóm­ull og borga að­eins meira fyrir hann en fyrir lé­legra efni, því endingin er betri,“ segir Erla Hlín.

Stærðir misjafnar eftir merkjum

Hún segir að við hverja vöru á síðunni séu bæði góðar lýsingar á vörunni og mælingar þannig fólk geti heima mælt hvort að varan passi á sig.

„Það skiptir máli hvaða merki um ræðir hvernig stærðirnar eru og þess vegna, tek ég fram mál. Ef það er jakki til sölu þá set ég inn mál fyrir axlar­s­aum, sídd og lengd einnig tekur hún fram hvort það er teygja í efninu og úr hvaða efni varan er,“ segir Erla Hlín.

Eins og má sjá á síðunni er mikið af vörum í boði frá ís­lenskum og er­lendum hönnuðum eins og Aftur, Alexander Wang, Bahns, Balenciaga, Bur­berry, Christian Dior, Givenchy, Gucci, Helmut Lang, Her­mes, Margi­ela, Mot­her og Marc Jacobs og mörgum fleiri.

Hægt er að fylgjast með Ekta á öllum helstu sam­fé­lags­miðlum og svo er auð­vitað hægt að skoða allar vörurnar á vef­siðunni hér.

Nýtt á www.ekta.store 💥💥

Posted by Ekta on Tuesday, 30 March 2021