Breski leikarinn Ben Whishaw, sem fer með hlut­verk Q í Bond-myndunum, vill að sam­kyn­hneigður leikari taki við hlut­verki njósnara hennar há­tignar.

„Guð, geturðu í­myndað þér? Ég meina, það væri nokkuð magnað. Auð­vitað myndi ég vilja sjá það,“ segir Whishaw, sem sjálfur er sam­kyn­hneigður, í við­tali við Atti­tu­de að­spurður um hvort hann gæti séð fyrir sér sam­kyn­hneigðan leikara taka við hlut­verki 007.

Nýjasta Bond myndin No Time To Die, sem var frum­sýnd nú á dögunum, er fimmta og síðasta myndin þar sem Daniel Cra­ig túlkar njósnarann góð­kunna.

„Ég trúi því ein­læg­lega að við ættum að stefna í átt að heimi þar sem hver sem er getur leikið hvað sem er og það myndi vera virki­lega spennandi ef kyn­hneigð ein­stak­linga skipti ekki máli fyrir svona hlut­verk. Ég held að það myndi vera raun­veru­leg fram­för,“ segir Whishaw sem hefur leikið tæknitröllið Q í Bond myndunum Sky­fall, Spectre og No Time To Die.

Hann bætti því við að þrátt fyrir að miklar breytingar hafi átt sér stað í þessum málum þá muni ein­fald­lega þurfa að bíða og sjá.

Að­spurður um hvaða sam­kyn­hneigðu leikarar hann teldi að gætu tekið að sér hlut­verkið sagði hann þá ekki vera marga í Bret­landi en nefndi þó leikarana Luke Evans og Jon­a­t­han Bail­ey sem til­valda kosti.

„Þeir eru báðir leikarar sem virðast vera mjög færir í starfið og væru til­valdir í hlut­verkið. Og það væri mjög spennandi að sjá annan hvorn þeirra taka það að sér,“ segir Whishaw.

„Ég velti því fyrir mér hvort annar hvort þeirra myndi vilja það – af því þetta snýst ekki bara um kröfur hlut­verksins, heldur líka um kröfurnar á því að vera Bond í heiminum og hvað það táknar og hvernig það breytir lífi manns,“ bætir hann við.

Whishaw tekur þó fram að hann hefði aldrei freistast til þess að leika njósnara hans há­tignar ef honum hefði verið boðið hlut­verkið áður en hann landaði hlut­verki Q.

„Ég held að það hafi verið aug­ljóst fyrir mig að ég er ekki efni í Bond, og mér líður vel með það, ég er á­nægður sem Q. […] Ég held að það sé mikil­vægt að hafa fjöl­breytni innan karl­mennskunnar og karl­mennsku­í­mynda; við þurfum ekki allir að vera Bond-týpan, skilurðu?“