Flóttamaðurinn Refik Naccur er frá Venesúela og af sýrlenskum ættum. Bæði löndin hafa gengið í gegnum miklar hremmingar undanfarin ár, sem varð til þess að Refik kom hingað í leit að hæli. Síðan þá hefur hann sinnt sjálfboðastörfum fyrir Rauða krossinn af miklum krafti.

„Mér hefur verið tekið vel á Íslandi og líður eins og ég sé heima hjá mér. Mér finnst ég velkominn og hef eignast marga íslenska og erlenda vini, sem er frábært,“ segir Refik. „Ég hef bara verið hér í rúmlega átta mánuði en ég er hrifinn af Íslandi, sérstaklega á sumrin, þá er það allt grænt og yndislegt.

En það er margt erfitt við að vera hér og það erfiðasta fyrir mig hefur verið að finna gott starf þar sem ég er rafeindavirki og fjarskiptasérfræðingur. Ástandið er ekki gott vegna faraldursins og starfsleitin kostar mikla vinnu og tíma,“ segir Refik. „Ég hef líka rekið mig á það að þó að ég elski tungumál og geti talað nokkur reiprennandi á ég í erfiðleikum með íslensku.

Það besta við að vera hér er að mér líður öruggur og þegar fjölskyldan mín verður komin hingað til mín held ég að ég fái hugarró,“ segir Refik. „Hér þarf maður ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni og getur bara lifað einn dag í einu, þó að ég sé reyndar alltaf mjög duglegur að huga að framtíðinni.“

Byrjaði strax að hjálpa

„Um leið og ég lenti hér, áður en ég fékk vernd, fór ég til Rauða krossins í Keflavík og bauð fram krafta mína. Ég sýndi þeim tungumála- og tæknikunnáttu mína og í vikunni eftir það hóf ég störf sem sjálfboðaliði,“ segir Refik. „Alveg frá byrjun hef ég hjálpað mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd, en ég þýði mikið fyrir þau sem tala spænsku og arabísku þar sem ég tala þau tungumál og ensku reiprennandi. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hef ég haldið því áfram, ásamt því að sinna tæknivinnu fyrir félagið.

Ég hef líka tekið þátt í nokkrum verkefnum, eins og karlahóp sem sér um hjólaviðgerðir og hef áhuga á að taka þátt í fleiri verkefnum. Ég bauð mig til dæmis fram til að hjálpa í sóttvarnahúsum Rauða krossins,“ segir Refik.

Vill hjálp við atvinnuleit

„Ég sinni sjálfboðastörfum vegna þess að mér finnst mér hafa verið tekið opnum örmum hér og langar að launa þann greiða. Ég vildi endurgjalda hluta af örlætinu sem mér hefur verið sýnt,“ segir Refik. „Þar að auki gleður það mig að hjálpa fólki sem þarf aðstoð. Ég held að þátttaka mín í þjónustu Rauða krossins bæti hana.

Rauði krossinn bauð mér meiri stuðning en ég vildi, en mér líkaði verkefnið um „íslenskan vin“ þannig að ég tók þátt og hef eignast góðan nýjan vin sem heitir Kristján,“ segir Refik. „Við hittumst næstum vikulega og spjöllum lengi. Eini stuðningurinn sem ég vil og þarf er við að finna gott starf. Persónulega finnst mér mjög mikilvægt að vera með vinnu og ég hvet flóttafólk til að falast eftir aðstoð við að finna starf.“