„Ætli mér sé ekki best lýst sem nokkuð margbrotnum karakter. Ég á það til að koma fólki á óvart því oft og tíðum hefur fólk myndað sér fyrir fram skoðanir á því hvaða mann ég hafi að geyma. Eflaust er ég misskilinn út af ásjónu minni, en þegar fólk kynnist mér kemur í ljós að ég er allt annar en það heldur. Þar að auki er ég með massíft „resting bitch face“ sem getur ruglað fólk. Ég reyni að koma vel fram við alla, en fólk ætti þó ekki að taka því sem veikleika því það er alls ekki hægt að vaða yfir mig. Ég veit hvað ég vil og er mjög ákveðinn; alls enginn bullukollur og segi hlutina eins og þeir eru.“

Þetta segir Viktor Andersen, 33 ára Seyðfirðingur og hjúkrunarfræðingur.

„Ég er einkabarn en á tvö hálfsystkin sem fæddust löngu á eftir mér. Ég var alinn upp af einstæðri móður minni og ömmu, en hef líka alltaf átt góð tengsl við föður minn. Mamma og amma voru vanar að hafa mig vel tilhafðan og ég man eftir mér fimm ára í skyrtu og vesti við fínni tilefni. Ég var líka oftar en ekki settur í svarta eða hvíta rúllukragapeysu sem hefur fylgt mér inn í fullorðinsárin, og var yfirleitt vatnsgreiddur þegar og ef ég leyfði því að vera í friði.“

Viktor í glæsilegum Moschino mokkasíum og með perlufesti um hálsinn, en perlur eru uppáhalds skartið hans. Á hægri upphandlegg sést í stórt húðflúr með mynd af ömmu hans. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Með stóran persónuleika

Viktor er spurður hvort fötin skapi manninn.

„Nei, ég hef aldrei verið sammála því orðatiltæki. Það er persónan sem skapar manninn. Vitaskuld er hægt að tjá sig með klæðaburði, en það segir ekkert til um það hvaða mann fólk hefur að geyma. Maður getur því verið flottasta týpa í heimi en samt algjör skíthæll. Þess vegna þarf að horfa dýpra en bara á yfirbragð fólks,“ svarar Viktor.

Í menntaskóla var hann kosinn best klæddi nemandinn þrjú ár í röð.

„Ég fæ hugmyndir héðan og þaðan úr dægurmenningunni þar sem ég tíni úr það sem ég vil fyrir sjálfan mig. Tískuvitið kemur líka frá foreldrum mínum sem voru miklar týpur á sínum yngri árum. Þau voru pönkmegin á níunda áratugnum og af þeim lærði ég mikilvægi þess að geta tjáð sig í gegnum tísku. Mamma var algjör skvísa og átti fullt af geggjuðum kjólum og hælaskóm sem ég stalst í að máta. Svo var amma mikil saumakona og gaf mér ákveðna hugmynd um hvernig maður klæðir sig, en það var hefðbundnari stíll sem ég hrífst líka af.“

Mamma var algjör skvísa og átti fullt af geggjuðum kjólum og hælaskóm sem ég stalst í að máta.

Fatastíll Viktors er á breiðum skala.

„Ég er allt frá „posh spice“ til „sport spice“. Ég nýt þess að vera fínn til fara og klæða mig upp á við öll tilefni. Ég er mjög mikið í „preppy country club“-stíl en líka í sportlegum stíl. Ég elska einlitan fatnað og lifi fyrir flotta gervipelsa, en það sem einkennir mig eru rúllukragapeysur. Sé ég í vafa er rúllukragapeysa alltaf öruggt val. Ég kaupi sjaldan litríkan fatnað, frekar hvítan, svartan, gráan og brúnan. En ég elska að tjá mig með mismunandi hætti og finnst gaman að ögra staðalímyndum, er oft að „genderbenda“ hlutina og ekki þekktur fyrir að sigla á milli skers og báru.“

Viktor segir miklu skipta hvernig hann tjáir sig í útliti.

„Ég er með minn ákveðna stíl og finn sjaldan það sem ég leita að. Ég er duglegur að skoða föt á netinu en finnst erfitt að finna flíkur sem ég verð ástfanginn af og vil auðvitað kaupa föt sem hafa á sér gæðastimpil; ekki eitthvað hræódýrt sem skemmist eftir fyrsta þvott.“

Vænst þykir honum um „vintage“ Adidas-flíkurnar sínar en segist þó ekki tengjast fötum sínum tilfinningalegum böndum.

„Ég finn stundum flíkur á Asos, Topman og Reiss og nota Farfetch líka mikið. Á Íslandi kíki ég annað slagið í GK Reykjavík, Gallerý 17, COS, Húrra Reykjavík og Collections, en finn mér voða sjaldan eitthvað sem heillar. Ég fíla þó merki á borð við Tommy Hilfiger, Heron Preston, Moschino, Acne Studios og Dr. Martens. Ef ég ætti skítnóg af peningum ætti ég meira af Gucci, Givenchy og Casablanca, með dassi af Dolce&Gabbana og Versace,“ segir Viktor glettinn, en í útskriftargjöf gaf hann sjálfum sér einmitt forláta Versace-baðslopp.

Viktor er hrifinn af sportlegum stíl og vill kaupa föt sem hafa á sér gæðastimpil í stað einhvers hræódýrs sem skemmist eftir fyrsta þvott. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Með ömmu á handleggnum

Viktor er með sex húðflúr.

„Eitt þeirra er portrett af ömmu, sem mér þykir rosalega vænt um. Svo er ég meira gull en silfur í skarti, og elska perlur. Ég á eitt úr sem ég hef notað í sjö ár og verið nægjusamur með það. Ég nota hringi lítið sem ekkert. Það skrifast á hjúkkuna í mér, því þar safnast sýklarnir,“ segir Viktor.

Í fataskápnum eru Moschino-inniskórnir í mestu dálæti.

„Þeir eru dæmigerðir fyrir mitt lúkk og öskra Viktor Andersen,“ segir Viktor og hlær.

Hann notar ilminn Super Cedar frá Byredo. „Ég er mjög kresinn á ilmvötn, var lengi að ákveða þennan ilm og það þarf mikið til að mér finnist ilmur góður.“

Honum líður best í svartri rúllukragapeysu við svartar buxur og hvíta strigaskó.

„Það er mitt lúkk í grunninn og mestar líkur eru á að sjá mig úti á götu í rúllukragapeysu. Ég er þó oftast það fínn að fólk tekur eftir mér og ég sker mig úr fjöldanum, ekki bara út af fötunum heldur líka því hvernig ég mála mig og hef mig til. Svo er ég með stóran persónuleika sem fer ekki framhjá neinum,“ segir Viktor sem sannarlega fangar augað.

Moschino inniskórnir eru dæmigerðir fyrir mitt lúkk og öskra Viktor Andersen.

Besta tískuráðið sem honum hefur hlotnast er: „Ef þú ert í vafa, hafðu hlutina einfalda og veldu svart.

„Á sama tíma þykja mér köflótt jakkaföt hreinn hryllingur. Ég hata köflótt og eina undantekningin eru köflóttar flannel-skyrtur,“ segir Viktor sem í fórum sínum á glæsilega Gucci-tösku sem hann gaf sjálfum sér í þrítugsafmælisgjöf og er það dýrasta sem hann hefur keypt sér af fötum og fylgihlutum.

„Yngri hefði ég þó viljað vera meðvitaðri um gæði og að kaupa ekki drasl sem eyðileggst strax. Ég klæddi mig oftast vel sem unglingur en stundum leit ég út eins og ódýr mella á djamminu. Það er stíll sem ég færi aldrei aftur í og var mjög druslulegur.“

Viktor kveðst vera alæta á ákveðin tískutímabil.

„Ég elska níunda og tíunda áratuginn, og finnst margt flott frá árunum eftir 1950 og 1920. Mér finnst „old money“-fílingur líka mjög töff.“

Spurður hvaða frægu manneskju hann dreymir um að fara í búðaráp með, svarar Viktor:

„Það væri fatahönnuðurinn Dorit Kemsley úr Real Housewives of Beverly Hills. Hún klæðir sig mjög vel og er alltaf með réttu múnderinguna tilbúna fyrir hvert tilefni. Lúkkið er útpælt frá A til Ö.“

Viktor var kosinn best klæddi nemandinn í menntaskóla, þrjú ár í röð. Hann elskar að klæðast rúllukragabolum og gervipelsum og þykir einna vænst um Adidas vintage-fötin sín. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ég skipti máli-tilfinningin

Viktor útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands á dögunum.

„Ég lærði hjúkrunarfræði því ég vil hafa alvöru tilgang í þessu lífi fyrir sjálfan mig. Ég vil leggja mitt af mörkum til samfélagsins og líða eins og ég sé að bæta við gæðum í þetta líf. Þegar ég var ekki að vinna á hjúkrunarheimili eða Landspítalanum fannst mér ég ekki vera að sinna mínum tilgangi. Starfinu fylgir svo mikil vellíðan, að geta hjálpað öðrum eins vel og manni er unnt. Ég hlakka því alltaf til að fara í vinnuna og leggja mitt af mörkum. Þá upplifi ég þessa „ég skipti máli“-tilfinningu,“ segir Viktor, sæll í sínu starfi.

Spurður um styrkleika sína sem hjúkrunarfræðingur, svarar Viktor:

„Ég hef mjög gott auga fyrir smáatriðum og því að sjá hverjar þarfir einstaklingsins eru, en þar er margt sem þarf að huga að. Ég mynda jafnframt alltaf góð tengsl og samskipti við aðstandendur og reyni að mæta þeim þar sem þeir eru, því ég tel mig vera skilningsríkan einstakling.“

Hjúkrunarstarfinu fylgir svo mikil vellíðan, að geta hjálpað öðrum eins vel og manni er unnt. Ég hlakka því alltaf til að fara í vinnuna og leggja mitt af mörkum. Þá upplifi ég þessa „ég skipti máli“-tilfinningu.

Útskriftin úr HÍ eru ekki einu tímamótin í lífi Viktors því nú hefur hann loksins meiri tíma til að huga að eigin heilsu.

„Mig langar að verða besta útgáfan af sjálfum mér en til að ná því markmiði þarf ég kannski að líta aðeins inn á við og taka ábyrgð á sjálfum mér. Ég elska lífið og er þakklátur fyrir það og fólkið mitt í því. Ég er rosalega heppinn með vini og fjölskyldu, og er í draumastarfinu. Eins og aðrir á ég mín vandamál og hata að tala um þau en ég er að reyna að læra að opna mig betur fyrir fólki og taka niður veggina. Ég er því bjartsýnn á komandi tíma og hlakka til framtíðarinnar og þess sem hún ber í skauti sér. Það er svo margt sem mig langar að gera en núna er ég að njóta þess að vinna í fullu starfi á hjarta-, lungna- og augnskurðadeild Landspítalans.“

Viktor nýtur þess að vinna nú í fullu starfi á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild Landspítalans. Hann segist ekki hafa haft ákveðið andlit í huga þegar hann byrjaði útlitsbreytingarnar með hjálp lýtalækna. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Vildi verða ýktari í útliti

Viktor hefur verið ófeiminn að sýna hvernig hann hefur látið eiga við eitt og annað í andliti sínu.

„Fæstir munu skilja hvers vegna ég fór þessa leið, en ég vil ekki vera náttúrulegur í útliti. Þetta er bara ákveðin yfirlýsing og það að leggjast undir hníf lýtalækna tengist ekki hækkandi aldri, enda var ég bara sautján ára þegar ég vildi verða ýktari í útliti. Þetta snýst því um að breyta ásýnd minni, en ekki að halda í æskuna,“ útskýrir Viktor í einlægni.

Hann kveðst sáttur við spegilmynd sína.

„Margir halda að ég eigi við vandamál að stríða og það hljóti að vera af andlegum toga úr því ég er að þessu, en það er ekki raunin. Ég hef viljað þetta síðan ég vissi hvað lýtalækningar voru. Ég er því mjög sáttur með hvernig ég lít út núna, en ég vil miklu meira og hef nú meiri tíma til að fara í þær aðgerðir sem ég stefni að á komandi tímum.“

Margir halda að ég eigi við vandamál að stríða og það hljóti að vera af andlegum toga úr því ég er að þessu, en það er ekki raunin. Ég hef viljað þetta síðan ég vissi hvað lýtalækningar voru.

Í upphafi lýtaaðgerðanna segist Viktor ekki hafa haft ákveðið andlit í huga.

„Nei. Ég var aldrei að reyna að vera annar eða sækjast eftir útliti annarra. Ég vildi bara ýktara útlit sem hentar mínu andliti og hugmyndunum sem ég hafði í huga.“

Hann segir líf sitt hafa breyst til batnaðar eftir að hann ákvað að láta breyta andliti sínu.

„Já, því í dag er ég sáttari með sjálfan mig og finnst ég vera í meira samræmi við minn innri mann og hvernig ég vil tjá mig útlitslega séð. Ekki að það skipti máli, en að auki er ég nú að fá miklu meiri athygli frá strákum. Kannski það sé vegna aukins sjálfstrausts míns sem fylgdi í kjölfar útlitsbreytinganna sem ég hef farið í gegnum,“ segir Viktor.

Í starfi sínu á Landspítala og með eldri borgurum á hjúkrunarheimilum áður segist Viktor alltaf hafa fengið góð viðbrögð við útliti sínu.

„Ég hef aldrei orðið fyrir fordómum né fengið neikvætt viðmót vegna útlits míns. Ég hef fengið meiri gagnrýni á húðflúrin mín frá eldri kynslóðinni, en samt sárasjaldan, og fáeinar eldri konur hafa spurt út í varirnar mínar. Mér er alltaf tekið vel. Í vinnunni er ég reyndar miklu minna málaður svo kannski er ekki alltaf tekið eftir því, en ég hef aldrei fengið athugasemdir um það. Bara um hversu sætur ég sé,“ segir Viktor og hefur gaman af.

Viktor er á Instagram @viktor.andersen