Þjóðleikhúsið frumsýnir í kvöld, fimmtudag, leikritið Nashyrningarnir eftir Eugène Ionesco. Þetta marglofaða verk var frumflutt árið 1959 og leikið í Þjóðleikhúsinu árið 1961. Það er sett upp reglulega víða um heim. Verkið er í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og þar fer Guðjón Davíð Karlsson með hlutverk skrifstofumanns sem sér íbúa bæjarins breytast í nashyrninga, hvern af öðrum.

„Í uppfærslunni bera allar persónurnar nöfn leikaranna sem léku í uppfærslunni frá árinu 1961. Persóna mín í verkinu er Bérenger en í okkar uppfærslu heitir hann Lárus. Þannig að ég feta þarna í fótspor Lárusar Pálssonar,“ segir Guðjón Davíð. „Bérenger/Lárus vinnur á skrifstofu og starfið á engan veginn við hann. Hann er þreyttur á vinnunni og finnst sopinn góður. Hann verður fyrir stöðugum árásum frá samstarfsfélögum og vini sínum Róberti fyrir að vera illa til hafður og timbraður. Þegar samborgarar hans byrja að breytast í nashyrninga tekur óttinn yfir. Hann er yfirgengilega hræddur við faraldurinn sem geisar og vill ekki verða nashyrningur. Hann berst gegn því allt til enda og ætlar ekki að gefast upp.“

Stokkið á vagninn

Guðjón Davíð segir þetta fræga leikrit vera magnað. „Þetta er eitt af hinum stóru stóru leikverkum 20. aldarinnar. Það er ótrúlegur heiður að fá að takast á við þetta mikla burðarhlutverk. Verkið hefur náð miklum vinsældum um allan heim vegna þess að það speglar okkur mannfólkið. Í því er varpað fram siðferðislegum og heimspekilegum spurningum.

Jaðarhugmynd nær vinsældum og allir stökkva á vagninn og breytast í nashyrninga. Þótt flestir séu í byrjun sammála því að þeir séu stórir, klunnalegir og hættulegir, þá breytist viðhorfið fljótt hjá öllum nema einni persónu sem spyrnir niður fótum og vill ekki fylgja þeim. Það er persóna mín. Það sem gerist í leikritinu er nokkuð sem mannskepnan er að glíma við út um allan heim. Þannig á umfjöllunarefnið við í dag eins og áður.“

Draumur að vinna með Benna

Um leikstjórann Benedikt Erlingsson segir hann: „Það er alltaf draumur að vinna með Benna. Hann er stórkostlegur listamaður sem skapar gott andrúmsloft og vinnumóral sem smitar út frá sér. Hann leyfir okkur að leggjast í alls kyns rannsóknir og hefur skýra sýn og lausnir. Hann veit nákvæmlega hvernig hann vill segja þessa sögu og það fyllir okkur leikarana öryggistilfinningu. Hópurinn er líka ótrúlega flottur. Algjört draumalið. Þannig að það er búið að vera einstaklega gaman í vinnunni. Mikil stemmning og gleði. Ég lofa flugeldasýningu.“

Getur ekki beðið

Hann segist fullur tilhlökkunar að fá að stíga á svið á ný. „Ekkert er eins skemmtilegt og að fá að segja magnaða sögu fyrir framan áhorfendur. Ég get ekki beðið. Við erum búin að bíða lengi og vinna baki brotnu við að skapa þessa sýningu. Það að fá loksins að sýna afraksturinn er ótrúlega spennandi. Ég trúi því varla að það sé loksins komið að þessu.“

Spurður hvað sé fram undan hjá honum segir Guðjón Davíð: „Ég er nýbúinn að ljúka tökum á þáttaröðinni Verbúðin sem verður frumsýnd á Rúv næsta vetur. Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt. Svo verða vonandi sem flestar sýningar á Nashyrningunum. Ég er alltaf að skrifa og er með leikrit í undirbúningi og er að fara að leikstýra barnasýningu í Hörpu. Þannig að það er eitt og annað á dagskrá.“