Bandaríska kántrístjarnan Dolly Parton vill ekki láta reisa styttu af sér í borginni Nashville í Tennessee.

Löggjafar í Tennessee lögðu fram tillögu um að láta reisa styttu af Parton fyrir utan ríkisþinghúsið í Nashville, þar sem söngkonan hefur búið nær alla sína ævi.

Parton sendi frá sér tilkynningu á Instagram þar sem hún afþakkaði með þeim orðum að það væri óviðeigandi að setja hana á svo háan stall í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum. Hefur hún beðið löggjafana um að draga til baka tillöguna.

Stytta af Dolly Parton í borginni Sevierville.
Mynd: Trip Advisor

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá hefur tónlistarkonan fjármagnað rannsóknir og framleiðslu á CO­VID-19 bólu­efni Moderna. Segist hún ætla að halda áfram að halda áfram að gera góða hluti sem fylkið gæti verið stolt af.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Tennessee vill reisa styttu af Dolly Parton en í borginni Sevierville má einmitt finna styttu úr bronsi af söngkonunni sem minni óneitanlega á hafmeyjuna í Kaupmannahöfn. Þar má sjá unga Dolly Parton sitja á steini með gítar í fanginu.