Kara Connect er vefhugbúnaður fyrir sérfræðinga af ýmsu tagi eins og félagsráðgjafa, sálfræðinga og næringarfræðinga. Ásamt fjölmörgu öðru er í honum öruggur fjarbúnaður svo hægt er að ná í fólk óháð staðsetningu og vinna saman í teymi á mismunandi stöðum.

Þorbjörg segir að tilgangur hugbúnaðarins sé að bæta aðgengi að sérfræðihjálp. „Markmiðið er líka að hagræða og auka afköst þeirra sem bjóða hjálp og stuðning. Oft eru sérfræðingar undir miklu álagi og mikill tími sem fer í aukaverkefni önnur en að hjálpa fólki,“ útskýrir hún.

Hugbúnaðurinn er aðgengilegur í vefvafra og er í raun bara hnappur á vefsíðu sérfræðinganna sem nýta sér hann. Kara Connect sér um alla bakvinnslu. Hugbúnaðurinn er mjög öruggur og passað er vel upp á persónuvernd í samstarfi við Landlækni.

„Nú eru næstum 800 sérfræðingar að nota Köru. Aðallega hér á landi en við erum að byrja að selja í Danmörku og við erum komin með nokkra kúnna þar. Hugmyndin er að byggja Köru Connect upp svo að hver sem er, hvar sem er í heiminum, geti nýtt hugbúnaðinn fyrir sitt fyrirtæki óháð þeirri tegund af þjónustu sem þeir bjóða.“

Hugmyndin að Köru varð til þegar Þorbjörg var borgarfulltrúi í Reykjavík og tók eftir því að sérfræðiþjónusta sem börn áttu rétt á komst oft illa til skila. Þegar Þorbjörg hætti í stjórnmálum stofnaði hún fyrirtækið Trappa ásamt Tinnu Sigurðardóttur til að bæta aðgengi að talþjálfun. Upp úr Tröppu varð Kara Connect til en þar starfa nú níu manns.

Þorbjörg segir að hvatningarverðlaunin séu mikil viðurkenning fyrir allt teymið. „Þau hafa unnið nótt og dag og stefna öll að sama markmiði, að hjálpa kerfunum að gera betur og bæta aðgengi að hjálp. Ég spái því að tími kvenfrumkvöðla sé kominn. Stafræn þróun þarf að eiga sér stað í þeim geirum þar sem konur eru sterkar eins og í mennta- og velferðar- og heilsugeiranum. Ég vona að viðurkenningin til okkar sé hvatning til annarra kvenna sem sitja með einhverja hugmynd í maganum.“