Erla hefur alltaf gengið á fjöll með fjölskyldu og vinum. „Ég var nördið sem vildi, vinkonum mínum til mikillar mæðu, fara upp á Esju eftir skólaböll og hefur alltaf fundist þessi hreyfing heillandi,“ segir Erla.

Horfði löngunaraugum á Esjuna

Sem ung kona hafði Erla mörg áhugamál og tók áhugasviðspróf STRONG nokkrum sinnum. „Þá byrjaði ég í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, hætti eftir eitt ár, dreif mig í klásus í hjúkrunarfræði, hætti í því eftir eitt ár, því mig þyrsti í ferðalög og fjallgöngur. Fyrsta vinnan mín í ferðabransanum var á hjólabáti í Jökulsárlóni 2010. Svo vann ég við hitt og þetta tengt ferðabransanum næstu árin, ásamt því að klára mína fyrstu gráðu. Ég tók rútuleiðsögnina í Garði áður en að ég varð leiðsögumaður og var eiginlega hent út í djúpu laugina þar sem ökuleiðsögumaður. Þetta var vel borgað starf þar sem tíminn flaug áfram, en ekki vinna þar sem maður starir á klukkuna og bíður eftir því að hún verði fjögur. Ég vissi snemma að skrifstofustarf væri ekki fyrir mig, og sem hjúkkunemi inni á deild horfði ég alltaf út um gluggann í áttina að Esjunni. Svo stofnaði ég Fjallhöllu árið 2014.

Ég kynntist manninum mínum Ívari Sæland árið 2016 og flutti með honum upp í Reykholt stuttu síðar. Ég hafði sko alls ekkert á móti því búa úti á landi þar sem ég gat skroppið upp á fjall þegar mig langaði. Mér leiðist það aldrei að sýna erlendum ferðamönnum landið mitt.“

Hvað varstu gömul þegar þú kleifst þitt fyrsta fjall?

„Ætli ég hafi ekki verið um þriggja ára uppi á Úlfarsfelli. Fimm ára fór ég á Rauðagnúp en við eigum ættarbýli á Melrakkasléttu og höfum gengið mikið þar um að veiða, finna rekavið og njóta náttúrunnar.“

Hver er ykkar sérstaða hjá Fjallhöllu?

„Við erum þau einu í Reykholti í Biskupstungum og nágrenni sem bjóðum upp á göngur, og við þekkjum vel til og erum í góðu samstarfi við eigendur landanna. Ívar, maðurinn minn, er heimamaður og getur léttilega haldið þriggja tíma fyrirlestur um staði og menn.“

Sló vörn í sókn

Þegar faraldurinn hóf innreið sína sló Erla hjá Fjallhöllu vörn í sókn. „Það vill svo skemmtilega til að ég er tækifærissinni og fylgi áhuganum hjá fólki. Við nýttum því þennan tíma til að stækka. Síðasta sumar var spurt hvort ekki væri áætlunarferð í Kerlingarfjöll, en ferðirnar þangað voru eitthvað takmarkaðar út af COVID. Ég hafði áður rætt við leiðsögumanninn minn, bekkjarfélaga úr gönguleiðsagnarnáminu, um að skipuleggja ferð í Kerlingarfjöll, en aldrei látið verða af því, og var þessi spurning kveikja að öllum gönguferðunum síðastliðið ár í COVID-ástandinu.

Við höfum alltaf verið dugleg að passa upp á grímunotkun og fylgja sóttvarnareglur og létum þannig allar ferðirnar ganga vel fyrir sig. Ég er bara svo ánægð að sjá hvað Íslendingar eru duglegir að nýta sér landið sitt í þessu ástandi í stað þess að vera svekktir yfir því að komast ekki út í sólina. Við bjuggum til ferð á Grænahrygg og svo bættust fleiri ferðir við. Við höfum nýtt ástandið til þess að fara úr því að vera ferðaskipuleggjendur í að vera ferðaskrifstofa sem býður klárlega upp á fleiri möguleika. Við erum því að bjóða upp á nokkrar margra daga ferðir í sumar. Leiðsögumennirnir eiga svo mikið hrós skilið, enda hafa þau samið flestallar ferðirnar frá grunni! Ég hef aðallega bara verið jákvæði drifkrafturinn í þessu og leiðist ekki að senda tölvupósta og heyra í fólki. Það má því segja að COVID hafi verið ákveðið sóknartækifæri fyrir okkur, en ég hefði aldrei haft tíma til að sinna þessu, nema af því að ég var einmitt í fæðingarorlofi.“

Grænahryggsferðirnar eru jafnvinsælar í sumar og síðasta sumar.

Erla er bjartsýn á að Íslendingar verði duglegir að nýta sér ferðirnar í sumar. „Íslendingarnir sem ferðuðust um landið síðasta sumar hafa verið duglegir að byggja upp þolið, þannig að þeir sem komust ekki með okkur síðasta sumar, fara þetta sumar. Ég veit um marga sem ætla að nýta tækifærið og drífa sig upp á hæsta tind Íslands eða einhvern jökul. Við, ásamt svo mörgum öðrum, erum með þrusutilboð í gangi í jöklaferðir, enda ekki hægt að okra. Við viljum bara að sem flestir kynnist þessum perlum okkar.“

Bjarnarfell er að sögn Erlu í miklu uppáhaldi enda trúlofaðist hún Ívari, manninum sínum, uppi á tindi fjallsins.

Hvað er það við ferðaþjónustuna og starfið sem heillar þig?

Ætli það sé ekki hvað greinin er „lifandi“. Alltaf að hitta nýtt fólk, og að hitta fólk aftur, sem kemur aftur og aftur í ferðir hjá okkur. Upplifa nýja hluti og það að fá að vinna úti er bara draumur í dós. Það er svo gaman að geta verið á ferðinni og fá að gera eitthvað heillandi og nærandi og að það sem ég geri virki, það gleður mig mest.

Áttu þér uppáhaldsfjall?

„Úff, þarna kom erfiðasta spurningin. Í augnablikinu verð ég að segja Bjarnarfell, því við Ívar trúlofuðum okkur þar. En fjöllin hér hjá Reykholti eru jafn mörg og þau eru fjölbreytt og kannski á ég enn þá eftir að kynnast mínu uppáhaldsfjalli, þar sem ég hef ekki gengið á þau öll.“