Kæru Valsmenn.

Í dag erum við léttir í lund og fögnum 110 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Vals. Upphafið má rekja til þess að nokkrir piltar stofnuðu fótboltafélag þann 11. maí 1911, dyggilega hvattir áfram af séra Friðriki Friðrikssyni. Saga Vals er ævintýri líkust og samofin íþróttasögu landsins.

Okkar mesta gæfa var að festa kaup á jörðinni Hlíðarenda við Öskjuhlíð árið 1939. Þannig eignaðist Valur sitt eigið land og hefur byggt upp sína starfsemi lið fyrir lið. Þökk sé dugnaði og hugsjónum forystumanna félagsins sem höfðu háleitar hugmyndir um uppbyggingu að Hlíðarenda. Þeir lögðu traustan grunn. Grunn sem við byggjum á enn þann dag í dag og ekki sér fyrir endann á.

Á tímamótum sem þessum er ánægjulegt að líta um öxl, rifja upp góðar stundir, sigrana og ekki síst; minnast fallinna félaga. En það er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn og reyna að spá fyrir um framtíðina vegna þess að á hverjum degi erum við öll að skrifa sögu félagsins.

Í dag, rúmri öld frá stofnun Vals, erum við enn að vinna að uppbyggingu á svæðinu okkar, Hlíðarenda, til hagsbóta fyrir iðkendur félagsins. Mörg stór mál brenna á okkur varðandi þá aðstöðu sem við viljum búa þeim sem iðka íþróttir sínar hjá Val. Þar best hæst byggingu knatthúss sem mörgum hefur verið tíðrætt um. Viðræður hafa staðið yfir við Reykjavíkurborg í allnokkurn tíma og við trúum því að það hilli undir lausn á því máli. Saga okkar sýnir að þegar við höfum náð fram úrbótum á aðstæðum iðkenda okkar, s.s. íþróttahúsið 1958 eða grasvöllurinn 1971, þá hefur það verið mikil lyftistöng fyrir íþróttastarf Valsmanna. Við erum komin að þeim tímamótum að þörf er á aukinni aðstöðu. Fjölgun yngri iðkenda í fótbolta, handbolta og körfubolta er slík að til þess að geta sinnt þessari miklu ásókn verðum við að bæta aðstöðuna.

Á hverjum einasta degi er eitthvað spennandi og skemmtilegt að gerast að Hlíðarenda og oftar en ekki er sjón sögu ríkari. Mikið líf og fjör er innan húss og utan þegar ólíkir aldurshópar mæta á svæðið. Gleðin og eftirvæntingin endurspeglast í andlitum krakkanna. Einvalalið stýrir æfingum, starfsfólk félagsins er sífellt á tánum og fjöldi sjálfboðaliða leggur nótt við dag til að halda íþróttastarfinu í réttum skorðum.

Við hjá Val höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera sigursælt íþróttafélag en meira þykir mér vert um þá áherslu sem félagið leggur á; að heilbrigð sál búi í hraustum líkama. Íþróttaiðkun er besti undirbúningurinn til árangurs í lífinu, ekki síst vegna þess að mótlætið er þroskandi; að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Við uppskerum eins og við sáum. Agi og ánægja eru lykilorð í velgengni, því þeir sem leggja sig fram ná góðum árangri. Við leggjum áherslu á að allir séu jafnir og njóti virðingar að Hlíðarenda, líka mótherjar okkar.

Valur er metnaðarfullt íþróttafélag sem hefur það að markmiði að vera í fremstu röð í fótbolta, handbolta og körfubolta, karla og kvenna og gefa öllum jöfn tækifæri. Árið 2019 uppskárum við ríkulega þegar meistaraflokkar kvenna urðu Íslandsmeistarar í handbolta, fótbolta og körfubolta. Og enn fremur bikarmeistarar í handbolta og körfubolta. Ólíklegt er að þetta verði endurtekið í bráð.

Það að standa uppi sem Íslandsmeistari er mikilvægt fyrir komandi kynslóðir en við leggjum enn meiri áherslu á að öllum líði vel að Hlíðarenda, fái útrás. Við erum öll að glíma við eitthvað og besta leiðin til að takast á við sjálfan sig er að stunda íþróttir, fá útrás, sýna félagsþroska og vera hluti af öflugri liðsheild. Þá skapast gott jafnvægi til að takast á við verkefni hvers dags. Við fögnum hverjum einasta iðkanda og þeim fer fjölgandi dag frá degi. Hverfið okkar er í hraðri uppbyggingu, íbúum fjölgar hratt og það setur aukna pressu á okkur Valsmenn. Við viljum fá allar fjölskyldur að Hlíðarenda.

Einkunnarorð Vals, orð séra Friðriks, verða ætíð í hávegum höfð meðal Valsmanna: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“ Færa má sterk rök fyrir því að þau eigi jafnvel meira erindi til okkar í dag en áður fyrr, nú þegar hraðinn og kappið í þjóðfélaginu er orðið þannig að fegurðin fer stundum halloka. Það er fátt meira gefandi en að sjá sanna vináttu hjá ungum iðkendur sem hlaupa um glaðlegir og kappsamir. Framtíðin er þeirra og ábyrgðin er að hluta til okkar í Val. Við þurfum öll að hjálpast að.

Sökum þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu, tengt þeirri óværu sem hefur raskað svo mörgu hjá okkur, þá erum við tilneydd til þess að fresta hátíðarhöldum okkar. Við stefnum hins vegar að því að slá upp veglegri afmælisveislu með haustinu. Nánar verður greint frá því þegar línur fara að skýrast.

En í dag, 11. maí, er afmælisdagurinn og við kætumst yfir því. Kæru Valsmenn – innilega til hamingju með afmælið.

Árni Pétur Jónsson,

formaður Knattspyrnufélagsins Vals