Samtök grænkera á Íslandi ætla á alþjóðlegum degi grænkera að afhenta hvatningarverðlaun til framúrskarandi einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aukið valkosti grænkerakosta og/eða vakið fólk til vitundar um hugmyndafræðina að baki grænkeralífsstíls með störfum sínum.

„Við ætlum að fagna þessum alþjóðlega vegandegi með pálínuboði. Þetta er góð samverustund þar sem allir koma með einn veganrétt á borðið og við njótum matarins saman. Í leiðinni er þetta góð leið fyrir grænkera að hittast og kynnast. Síðan munum við afhenda hvatningarverðlaun ársins. Við kjósum alltaf um einstakling og fyrirtæki á aðalfundi sem okkur finnst hafa skarað fram úr í þessum málefnum,“ segir Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, en ekki hefur verið hægt að halda pálínuboð frá því fyrir heimsfaraldurinn.

Hefur vaxið ofboðslega mikið

Samtök grænkera á Íslandi voru stofnuð árið 2013. Skráðir meðlimir og félagar í samtökunum eru um 570 að sögn Valgerðar. „Svo erum við með Vegan Ísland-hópinn á Facebook og í honum eru tæplega 25 þúsund manns. Þetta hefur vaxið ofboðslega mikið og hratt eins og sést bara á vöruúrvali í verslunum og á veitingastöðum. Það er alls staðar hægt að fá góðan vegan mat og umræðan í samfélaginu um þetta málefni orðin upplýstari. Við leggjum okkur fram um að upplýsa af hverju við tökum þetta skref hvort sem það er fyrir umhverfið, dýrin eða heilsuna,“ segir Valgerður.

Valgerður segir að aðalbaráttumálið sé að berjast fyrir réttindum og velferð dýra. „Við erum ásamt öðrum dýraverndunarsamtökum á Íslandi mjög upptekin af því sem gengur á núna með MAST (Matvælastofnun) og hvernig þau eru að bregðast hlutverki sínu gagnvart dýrum. Það er okkur hugleikið. Við viljum ekki að dýr þurfi að þjást að óþörfu og við viljum að það séu strangar reglugerðir og viðurlög við því að vanrækja eða misþyrma dýrum. Þetta er skyni bornar verur sem eiga betra skilið en að það sé komið fram við þær eins og vörur,“ segir Valgerður.

Er flóran alltaf að aukast hvað varðar grænkerafæði?

„Úrvalið er alltaf að aukast vegna þess að vegan fæði er í eðli sínu umhverfisvænna en dýraafurðir. Þá eru auðvitað fyrirtæki, um leið og þau reyna að stíga skrefið til umhverfisvænni framleiðslu, að sjá tækifæri í því að framleiða grænkerafæði í auknum mæli sem er mjög gott mál. Við höfum verið að þrýsta á stjórnvöld að gera betur, bæði að leggja meira í að rækta grænmeti, styrkja bændur til að skipta yfir í það eða að rækta meira af grænmeti, kornvörum og jafnvel væri hægt að fara út í baunarækt eða rækta þörunga til að fá næringarefni. Við fáum þau úr fiski en það er hægt að fá þau beint úr þörungum sem eru ræktaðir á mjög sjálfbæran máta. Það er hröð þróun og meiri vakning um þessi mál,“ segir Valgerður.

Hætti að borða kjöt tólf ára

Sjálf fór Valgerður út í að verða grænkeri fyrir tæpum átta árum þegar hún tók þátt í veganúar. „Fram að þessu hafði ég verið fiskæta. Ég hætti að borða kjöt þegar ég var tólf ára en hélt áfram að borða fisk. Mín vegferð er löng. Ég hef alltaf verið dýravinur. Mín hugsjón er að skaða ekki dýr. Við eigum að bera virðingu fyrir þeim og fyrir jörðinni,“ segir Valgerður sem hefur verið í forsvari fyrir Samtök grænkera í rúm tvö ár.

„Ég fór fljótlega inn í samtökin þegar ég varð vegan fyrir átta árum og hef verið í stjórn síðan þá. Ég var varaformaður og framkvæmdastjóri áður en ég tók við formennskunni. Ég er því búin að vera mjög virk í samtökunum í átta ár. Við erum með mjög lýðræðislega stjórn. Þótt ég sé formaður að heitinu til þá vinnum við að öllum málefnum saman. Þetta er alfarið í sjálfboðastarfi. Við fáum ekki krónu fyrir okkar störf. Við byggjum okkar félag upp á styrkjum og það eru félagsgjöld einu sinni á ári. Við höfum fengið styrki frá umhverfisráðuneytinu, Landsbankanum og fleirum og þá sækjum við styrki til fyrirtækja í veganúar-átakinu sem er í janúar ár hvert,“ segir Valgerður.