Óttarr er þaulvanur bóksali, þótt hann hafi einnig sinnt öðrum störfum, þar á meðal þingmennsku og starfað í borgarstjórn. „Ég datt beint úr menntaskóla inn í bóksölugeirann. Í rúm tuttugu ár starfaði ég við bóksölu, lengst í Máli og menningu og fór í gegnum allan þann rússíbana sem fylgdi eigendaskiptum og uppstokkun,“ segir Óttarr.

Finnst honum hann hafa séð í gegnum áratugina áberandi þróun í bóksölu og bókaútgáfu? „Það urðu miklar breytingar með kiljunni og svo hljóðbókinni og rafbókinni. Við finnum eins og aðrir að vefverslun er að verða æ sterkari. Þegar ég var að byrja í bókabransanum þá seldust fagurbókmenntir mjög vel, til dæmis bækur Milan Kundera. Síðan kom ákveðin sprengja um aldamótin og glæpasögur og vísindaskáldsögur urðu ráðandi. Síðustu árin finnst mér þetta aðeins vera að breytast. Þessi bókmenntaform, glæpasagan og fantasían, hafa kannski ekki þróast eins og annað í bókmenntunum og eru að gefa eitthvað eftir. Stóra sprengingin á síðustu árum er rödd kvenna sem er orðin mjög sterk og það sama má segja um raddir minnihlutahópa. Það er eins og það sé ákveðin lýðræðisvæðing í bókmenntunum og vonandi er það að endurspegla breytingar í samfélaginu.“

Það er eins og það sé ákveðin lýðræðisvæðing í bókmenntunum og vonandi er það að endurspegla breytingar í samfélaginu

Fjölbreytnin er sem sagt orðin meiri. „Á fyrstu árum mínum í bransanum voru áberandi bækur frá Rússlandi og töfraraunsæið frá Suður-Ameríku datt inn, en á sama tíma heyrðist ekkert frá Indlandi. Síðan kom bylgja af indverskum bókum og núna eru afrískar bækur líka mjög áberandi. Það er eiginlega allt í gangi.

Mjög jákvæð breyting varð síðan hér á landi, sem er hin aukna áhersla á barnabækur og unglingabækur, sem maður fær ekki séð annað en séu mjög vinsælar bókmenntir. Það fær mann til að vera bjartsýnan á framtíðina.“

Bókabúð stórs þorps

Óttarr segir að sín tilfinning sé að fólk lesi mjög mikið. „Mér finnst ég finna fyrir miklum áhuga á lestri, en bókin er í samkeppni við aðra miðla um tíma fólks. Nýir miðlar taka kannski kraft frá bókmenntum en fólk les af því það vill fá sögur. Bókin á pappír er enn þá ótrúlega sterk, það er eitthvað við það að halda sögunni allri í höndunum á sér og geta ráðið lestrarhraðanum. Viljinn til að lesa er alltaf til staðar. Auðvitað eru ekki allir sem safna bókum, en það eru lúmskt margir. Íslendingar eru í eðli sínu bókelsk þjóð, þótt við séum stundum upptekin við annað.“

Hjá Bóksölu stúdenta er eðli málsins samkvæmt áhersla á að selja námsbækur, en þarna er einnig hin fínasta bókabúð fyrir fólk sem vill fylgjast með því sem er að gerast í hinum alþjóðlega bókaheimi. „Áherslan er fyrst og fremst á að þjóna háskólanemendum í öllum háskólum landsins um námsefni, en það eru allir velkomnir. Deildirnar í bókabúðinni, og í vefversluninni boksala.is, endurspegla fögin í háskólanum, sem spanna auðvitað flest sem er gefið út. Síðan erum við með töluvert lúmska deild í bókmenntum líka. Við flytjum sjálf inn bækur, fyrst og fremst á ensku, og bjóðum sérpantanaþjónustu og rafbækur. Auðvitað reynum við líka að endur­spegla það helsta frá íslenskum útgefendum og sérstaklega fræðilegu útgáfunum á Íslandi. Við erum bókabúð og áherslan er á fjölbreyttar og skemmtilegar bækur í sem flestum bókaflokkum. Bókakaffið okkar er svo rúsína í pylsuenda og verður sífellt vinsælla.

Við erum ekki bara að þjónusta háskólana, heldur lít ég svo á að við séum bókabúðin í þessu háskólaþorpi sem er í Vatnsmýrinni. Ég held að margir átti sig ekki á hvað þetta er menningarlega stórt og fjölmennt svæði. Hér á Háskólatorgi er ákveðin miðja og við tökum það mjög alvarlega í bóksölunni að okkar hlutverk sé að vera bókabúð þessa stóra þorps.“

Saknar ekki stjórnmálanna

Auk þess að starfa sem verslunarstjóri er Óttarr tónlistarmaður og lagahöfundur og hefur samið handrit. Þar sem hann er umkringdur bókum nær alla daga, spyr blaðamaður hvort hann langi til að skrifa skáldsögu. „Ég er ekki búinn að finna neitt sem vantar á bókamarkaðinn,“ svarar hann kíminn. „Plúsinn við að vera á kafi í bókum er að maður er alltaf að lesa og kynnist alls konar hugmyndum. Oft les maður eitthvað í bókum og hugsar: Þetta er einmitt eitthvað sem mér hefur dottið í hug. En ég hef ekki fundið þörf hjá mér til að setjast niður og skrifa skáldsögu.“

Í allnokkur ár starfaði hann í pólitík og var heilbrigðisráðherra um tíma. Saknar hann stjórnmálanna? „Ég er dauðfeginn að vera laus úr þeirri dómhörku og þeim látum sem eru í umræðum um stjórnmálin. Það skemmtilega í stjórnmálum er að vinna með og vera innan um fólk sem hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu. Það var líka mjög gaman fyrir nörd eins og mig að vera stöðugt að koma mér inn í alls konar mál. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að álpast þarna inn í nokkur ár, fá að læra hitt og þetta og kynnast alls konar fólki. Niðurstaðan er samt sem áður sú að ég sakna stjórnmálanna ekki neitt.“