Nú hefur verið sett á lag­girnar sér­stök heima­síða, Awesome Reykja­vík, en hún er ætluð t il að auð­velda að­fluttum að að­lagast lífinu hérna á höfuð­borgar­svæðinu. Þeir Jökull Sól­berg og Kristinn Árni Lár áttuðu sig á þörfinni og hafa nú opnað awesome-rvk.is, en þar getur fólk nálgast upp­lýsingar um það mikil­vægasta sem þarf að vita þegar maður er ný­fluttur til borgarinnar og þekkir ekki nógu vel til, hvort sem það varðar tungu­málið, menninguna eða al­menna skrif­finnsku.

Mikil­vægt að flýta að­lögun

„Hug­myndin er að f lýta að­lögun þeirra sem flytja til höfuð­borgar­svæðisins með því að búa til leiðar­vísi á ensku. Ís­lenskt sam­fé­lag er enn þá frekar lokað. Þó að veitinga­staðir séu komnir með mat­seðla á ensku þá er ekki endi­lega auð­velt að átta sig á því hvort það sé hægt að stofna til við­skipta við síma­fé­lag án kenni­tölu. Og hvernig fær maður annars kenni­tölu? Við vildum svara svona spurningum og búa til hand­bók sem er upp­færð og við­haldið af gras­rótinni, bæði inn­fæddum og að­fluttum,“ segir Jökull.

Jökull og Kristinn koma báðir úr sprota­geiranum þar sem eru mjög blandaðir vinnu­staðir með er­lendum sér­fræðingum, að þeirra sögn. „Þar vorum við heppnir að sjá ís­lenskt sam­fé­lag í gegnum þeirra augu og það er svo margt sem er ekki hugsað út frá þeirra upp­lifun,“ segir Jökull.

„Við erum ekki að skrifa al­fræði­bók fyrir út­lendinga heldur mjög litla síðu með nokkrum undir­síðum sem við vonum að stækki í gegnum fjölda við­bóta frá alls konar fólki. Þannig virkar „open source“ hug­búnaður. Við erum að byggja þetta á þeirri fyrir­mynd,“ segir Kristinn

Tungu­málið mörgum tor­velt

Kristinn og Jökull kynntust þegar þeir störfuðu fyrir Qu­izUp.

„Við áttuðum okkur kannski á þörfinni þegar við unnum þar enda var mikið af að­fluttum sér­fræðingum. Við bjuggum til frá­bæra menningu innan­húss þar sem allt var á ensku. Þetta er opið sam­fé­lag, en það eru klár­lega hindranir fyrir að­flutta. Að tvinnast inn í ís­lenskt sam­fé­lag tekur mörg ár. Það er gott ef það er hægt að stytta þetta tíma­bil, fækka skrefum og koma fólki dýpra inn í sam­fé­lagið og gefa því þennan að­gang,“ segir Kristinn.

Nú þegar er hægt að nálgast margar nyt­sam­legar upp­lýsingar á borð við hvernig skuli sækja um kenni­tölu og raf­ræn skil­ríki á Ís­landi.
„Við þekkjum fólk sem hefur flutt til landsins og við byggjum eitt­hvað á þeirri reynslu. Fyrsta út­gáfan er skrifuð af okkur. Svo fengum við reyndar David Blurton til liðs við okkur, hann kom öflugur inn,“ segir Jökull.

Vilja þjónusta breiðan hóp

Jökull segir David vera mikinn sér­fræðing í ís­lenskri tungu, en hann hefur búið á Ís­landi í þó­nokkur ár.

„Ég skil ekki alveg hvernig fólk lærir ís­lensku, þetta er örugg­lega flóknasta og skrýtnasta mál í heimi. En hann gerði það og hefur smíðað hug­búnaðar­lausnir til að að­stoða þá sem eru að læra ís­lensku. David vann með mér hjá sprota sem ég stofnaði og þar kynnumst við. Ég bað hann að hjálpa til og hann brást vel við því. Hann á nokkrar greinar þarna inni og vonandi fleiri í fram­tíðinni,“ segir Jökull.

„Tungu­málið getur ein­mitt reynst mörgum f lókið. Við erum oft löt að tala ís­lensku við þá sem hafa tekið stóra skrefið og kosið að læra ís­lensku. Stjórn­sýslan er oft nokkrum skrefum eftir á með þýðingar. Svo eru bara litlir hlutir eins og að vita hvernig heilsu­gæslan virkar, hvernig maður bókar tíma og hvar maður kaupir notaðan bíl,“ segir Kristinn.

„Það fyrsta sem við sjáum er þessi þrenning; kenni­tala, sími, banka­reikningur. Maður er eigin­lega bara túr­isti þangað til maður er kominn með kenni­tölu. Svo eru á­kveðin skatt­fríðindi fyrir er­lenda sér­fræðinga en það eru enn þá of fá fyrir­tæki sem vita af þeim. Hér er tæki­færi til að láta vita af svo­leiðis hlutum. Svo er auð­vitað sér kapítuli hvernig farið er með er­lent verka­fólk. Við erum aular í þeim efnum. Við erum enn þá að reyna að átta okkur á því hvort þessi hand­bók nái til allra þessara hópa.

Hafið þið dæmi um eitt­hvað sem getur reynst að fluttum of flókið?

„Við erum ekki orðnir sér­fræðingar enn þá. En ég get í­myndað mér að fé­lags­lífið geti verið á­skorun. Ís­lendingar vilja svo­lítið hanga með Ís­lendingum og búa til pláss fyrir aðra bara á tylli­dögum,“ segir Kristinn.

Hvernig gengur sam­starfið ykkar á milli?

„Ég þurfti að leið­rétta tvær inn­sláttar­villur í gær. Annars er Kiddi að standa sig vel,“ segir Jökull og hlær.