Þetta er bara svo skemmtilegt og svo ótrúlega gaman að fá að vera að grúska í einhverju svona endalaust,“ segir dagskrárgerðarkonan Viktoría Hermannsdóttir um sjónvarpsþættina Fyrir alla muni, þar sem hún og safnvörðurinn og dellusafnarinn Sigurður Helgi Pálmason rekja sögu gamalla hluta sem tengjast misþekktum atburðum og manneskjum í sögu þjóðarinnar.

„Fyrsta þáttaröðin var sýnd haustið 2019 og nú erum við mætt aftur. Þetta eru sex þættir núna og við vitum meira hvað við erum að gera núna þannig að þetta er orðið fastmótaðra.“

Önnur þáttaröðin hefur göngu sína á RÚV annað kvöld að loknum fréttum og veðri og þótt Viktoría sé þar reynslunni ríkari segir hún að enn komi henni á óvart hversu „mikið er af merkilegum atburðum og manneskjum,“ sem hægt sé að fjalla um með því að rekja sig áfram frá einum litlum hlut.

Áhugasamir áhorfendur

„Við byrjum með einhvern einn mun í hverjum þætti og fylgjum honum eftir. Við erum alltaf með einhverjar hugmyndir þegar við byrjum en síðan kemur alltaf svo miklu, miklu meira í ljós.“

Viktoría bætir við að hver einn og einasti þáttur hafi breyst eitthvað meðan á vinnslunni stóð. „Þetta er brjálæðislega áhugavert og ég er búin að læra svo mikið og við fengum svo ótrúlega margar ábendingar eftir síðustu þáttaröð.

Þar tókum við fyrir hluti sem Siggi vissi um, eða hafði heyrt af í gegnum vinnu sína þegar hann var með Safnaramiðstöðina. Hann er náttúrulega inni í þessum safnaraheimi,“ segir Viktoría og bendir á að ólíkt fyrstu þáttaröðinni spretti nánast allir þættirnir í þessari út frá ábendingum áhorfenda.

„Fólk hefur bara alveg ótrúlega mikinn áhuga á þessu og þetta er náttúrlega alltaf svo miklu meira heldur en einhver gamall hlutur og við förum alltaf í svo stóra sögu sem býr að baki. Það eru alls konar sögur hér og þar og við erum svo þakklát fyrir hversu áhorfendur hafa sent okkur margar ábendingar.“

Viktoría fylgist með Sigurði leita að fjársjóð Egils Skalla-Grímssonar. Það skýrist síðar hvernig það gekk en hún bendir á að ýmislegt óvænt um muni koma í ljós um Pourquoi-Pas? strax í fyrsta þætti. Mynd/Skjáskot

Hvers vegna ekki?

Grúsk Viktoríu og Sigurðar Helga í kringum ábendingar áhorfenda leiðir þau í alls konar ólíkar áttir. Í fyrsta þættinum skoða þau grip sem hefur verið í eigu íslenskrar fjölskyldu í nokkra áratugi og er sagður vera úr franska skipinu Pourquoi-Pas? sem fórst í aftakaveðri undan Mýrum í Borgarfirði árið 1936.

„Það er ótrúlega áhugaverð saga þar. Við erum alltaf að kanna hvort þessar tengingar munanna við söguna séu raunverulegar og það er oft erfitt að sanna það,“ segir Viktoría og nefnir til sögunnar annað þekkt skip sem kemur við sögu í einum þættinum.

„Þar erum við að fjalla um mjög flottan hlut sem tengist Petsamo-ferðinni og svo erum við með hlut sem tengist Fjalla-Eyvindi þannig að það eru stór nöfn þarna,“ segir Viktoría brosandi og bætir við að inn á milli séu minna þekktir hlutir, en engu að síður mjög áhugaverðir.

Málmleit í Mosó

„Við getum líka sagt að við komum aðeins inn á þekktustu fjársjóðssögu Íslands í leit að silfri Egils. Þannig að það er farið víða þarna,“ segir Viktoría og bætir við að Sigurð Helga hafi lengi dreymt um að finna hið goðsagnakennda silfur Egils.

„Ég hafði nú ekki mikla trú á honum í þeim leiðangri. En við sjáum hvernig það fer. Hann stóð þarna bara tímunum saman með málmleitartæki að leita að silfri Egils í Mosfellsbænum,“ heldur Viktoría áfram og áréttar að þau hafi fengið öll tilskilin leyfi, þar sem bannað er að nota málmleitartæki á Íslandi.