Vilhjálmur Bretaprins var hnugginn og í sjokki vegna tilkynningarinnar frá bróður sínum Harry og eiginkonu hans Meghan Markle til drottningarinnar á dögunum. Þetta fullyrðir breska götublaðið The Sun.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá staðfestist það endanlega á dögunum að hjónin myndu segja skilið að fullu við allar skyldur sínar við bresku konungsfjölskylduna. Meira en ár er liðið síðan þau tilkynntu að þau hyggðust gera slíkt en síðan þá hefur fjölskyldan unnið að tæknilegum hliðum málsins.
Í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni sagði að fjölskyldan væri sorgmædd vegna ákvörðunar hjónanna. Þau væru hinsvegar ávallt elskuð. Hjónin sjálf gáfu svo frá sér tilkynningu þar sem minna var rætt um tilfinningar og meira um skyldur hjónanna gagnvart Bretlandi og bresku þjóðinni.
Fullyrðir breska götublaðið að tilkynningin hafi þótt afar köld innan bresku konungsfjölskyldunnar. Þar fari Vilhjálmur fremstur í flokki og er hann sagður miður sín vegna vanvirðingarinnar sem tilkynningin sýndi ömmu hans og konungsveldinu.
Áður hefur verið fullyrt að samband bræðranna hafi lengi mátt muna fífil sinn fegurri. Vilhjálmur hafi til að mynda varað Harry við að ana ekki að hlutunum í sambandi sínu með Meghan, bróður hans til mikils ama. Þá hafa fréttir af löngu og einlægu viðtali hjónanna við Opruh Winfrey ekki orðið til að lægja öldurnar á milli bræðranna.
„Hann finnur pressuna núna,“ segir heimildarmaður miðilsins. „Hann hefur ætíð haft bróður sinn til staðar fyrir sig og eftir að hann jafnaði sig af reiðinni vegna ákvörðunar þeirra, var ekkert eftir nema tómleiki.“