Vil­hjálmur Breta­prins fagnar fer­tugs af­mæli sínu í dag. Hann er annar í röðinni til þess að erfa bresku krúnuna á eftir föður sínum, Karli Breta­prins.

Vil­hjálmur hefur staðið and­spænis fjölda á­skorana í lífinu, bæði per­sónu­legum sem og þeim á­skorunum sem fylgja því að vera opin­ber per­sóna og mikið í sviðs­ljósinu sem með­limur konungs­fjöl­skyldunnar.

Leiða má að líkum að stærsta á­skorunin sem hann hefur staðið frammi fyrir sé hörmu­legt bíl­slys sem móðir hans, Díana prinsessa, lenti í árið 1997 og leiddi til dauða hennar. Prinsinn var þá ný­orðinn fimm­tán ára gamall.

Með tímanum hefur Vil­hjálmur tekið að sér sí­fellt fleiri konung­legar skyldur sem fjöl­miðlar ytra búast við að aukist, þá sér­stak­lega þar sem Elísa­bet II Breta­drottning hefur dregið úr opin­berum at­höfnum og heim­sóknum vegna minnkandi hreyfi­getu

Það var mikill fögnuður þegar Karl Bretaprins og Díana prinsessa stigu út á tröppur fyrir utan St. Mary´s spítalann í London með nýfæddan erfingja bresku krúnunnar.
Mynd/Getty Images

Vil­hjálmur Arthur Philip Louis af Wa­les fæddist 21. júní 1982 á St. Mary´s Hospi­tal spítala í London. Hann er fyrsta barn for­eldra sinna, Karls Breta­prins og Díönu prinsessu, og því annar í röðinni að bresku krúnunni.

Frá fæðingu og út níunda ára­tuginn varð Vil­hjálmur það barn í heiminum sem var hvað mest ljós­myndað. Það breyttist þó þegar Harry bróðir hans fæddist árið 1984, og deildu þeir saman sviðs­ljósinu allar götur eftir það.

Á þessum árum bjó fjöl­skyldan annars vegar í Kensington höll í London, þar sem þeir bræður fóru í leik­skóla, og hins vegar í Hig­hgrove Hou­se í Gloucesters­hire. Hann fékk ungur áhuga á hestum og átti lítinn gráan smáhest sem hann nefndi „Smok­ey“.

Vilhjálmur þykir einstaklega fær knapi, en áhugi hans á hestum kviknaði þegar hann var ungur að aldri. Hér má sjá Vilhjálm með smáhestinn sinn Smokey.
Mynd/Getty Images

Tíundi ára­tugurinn átti eftir að reynast Vil­hjálmi erfiður. Þegar hann var tíu ára gamall skildu for­eldrar hans að borði og sæng og þá hófst tíma­bil sem fjöl­miðlar ytra kölluðu „War of the Wa­leses.“

Fjöl­miðlar kepptust um að ljós­mynda fyrr­verandi hjónin og bresk götu­blöð stað­hæfðu að skilnaðurinn hafi komið til vegna þess að Karl hafi haldið fram­hjá. Skilnaðurinn vakti mikla at­hygli í Bret­landi og úr varð mikið fjöl­miðla­fár. Bæði Karl og Díana komu fram í sjón­varps­við­tölum til að ræða skilnaðinn og þeirra hlið á málinu.

Erfiðasti dagurinn í lífi Vil­hjálms var án efa 31. ágúst 1997 þegar móðir hans lést í kjöl­far bíl­slyss í Frakk­landi. Út­förinni var sjón­varpað víða um heim og fylgdust á­horf­endur með þeim bræðrum, svart­klæddum og sorg­mæddum, fylgja eftir kistu móður sinnar.

Augu heimsins voru á prinsunum tveimur við útför Díönu prinsessu í september 1997.
Mynd/Getty Images

Árið 2000 út­skrifaðist Vil­hjálmur og flutti til Skot­lands þar sem hann hóf nám við St. Andrews Há­skóla. Hann lærði lista­sögu, en breytti fljótlega yfir í landa­fræði. Á háskólaárunum kynntist hann Kat­herine Midd­let­on, sem síðar átti eftir að verða eiginkona hans.

Eftir út­skrift aflaði Vil­hjálmur sér starfs­reynslu í ýmsum at­vinnu­greinum, þar á meðal bú­rekstri hjá her­toganum af De­vons­hire. Því næst fór hann í þjálfun hjá breska konung­lega flug­hernum. Hann var hækkaður í tign sem flug­liðs­foringi árið 2009 og hlaut þjálfun sem leitar- og björgunar­þyrlu­flug­maður.

Átján ára gamall flutti Vilhjálmur til Skotlands þar sem hann hóf nám í listasögu, og síðar landafræði, við St. Andrews háskóla.
Mynd/Getty Images
Rétt eftir að Vilhjálmur útskrifaðist úr háskóla fór hann í þjálfun hjá breska konunglega flughernum. Hann varð fljótlega flugliðsforingi og hlaut þjálfun sem leitar- og björgunarþyrluflugmaður.
Mynd/Getty Images

Árið 2010 fór Vil­hjálmur á skeljarnar og bað Kate, kærustu sinnar til margra ára. Það vakti at­hygli heimsins að hringurinn sem hann gaf henni var for­látur trú­lofunar­hringur móður hans heitinnar. Brúð­kaup þeirra fór fram í West­min­ster Abbey í lok apríl 2011, en talið er að yfir 162 milljónir á­horf­enda í 188 löndum hafi horft á við­burðinn.

Hringurinn sem Vilhjálmur gaf Kate er mjög táknrænn og hafði mikið tilfinningalegt gildi fyrir Vilhjálm. Hringurinn var úr safni móður hans, sami trúlofunarhringur og Karl gaf Díönu þegar hann bað hennar forðum daga.
Mynd/Getty Images
Brúðkaup þeirra Vilhjálms og Kate var hið glæsilegasta og enn og aftur voru augu heimsins á þeim skötuhjúum. Talið er að yfir 162 milljónir áhorfenda hafi fylgst með viðburðinum víða um heim.
Mynd/Getty Images

Á fimm árum eignuðust þau Vil­hjálmur og Kate börnin sín, þau Geor­ge sem er fæddur 2013, Char­lotte sem er fædd 2015 og Louis sem er fæddur 2018. Árið 2017 fór Vilhjálmur að auka við sig konunglegar skyldur sínar og hætti sem þyrlu­flug­maður hjá breska konunglega flughernum.

Vilhjálmur og Kate eiga þrjú börn, þau Georg sem er níu ára, Charlotte sem er sjö ára og Louis sem er fjögurra ára.
Mynd/Getty Images

Þegar heims­far­aldur Co­vid-19 skall á með til­heyrandi lokunum á lands­vísu í Bretlandi í mars 2020 urðu með­limir konungs­fjöl­skyldunnar þjóð­höfðingjar á svipaðan máta og sást síðast í lok síðari heims­styrj­aldar. Drottningin flutti sjón­varps­á­varp, það fimmta á hennar tæp­lega sjö­tíu ára valda­tíma­bili, og fylktu Bretar liði í kringum drottningu sína.

Þá fór mynd­skeið á flug af þeim Vil­hjálmi, Kate og börnum þeirra þremur, þar sem þau klöppuðu fyrir heil­brigðis­starfs­mönnum NHS heil­brigðis­þjónustunnar og þökkuðu þeim vel unnin störf. Í miðjum heims­far­aldri urðu miklar breytingar innan konungs­fjöl­skyldunnar, en Filippus prins, drottningar­maður, lést í apríl árið 2021. Hann hafði þá verið giftur Elísa­betu drottningu í 73 ár.

Í miðjum heimsfaraldri féll Filippus prins, drottningamaður, frá, en honum auðnaðist að verða 99 ára gamall.
Mynd/Getty Images

Nú, á platínu­af­mælis­ári Elísa­betar drottningar í valda­stól, er Vil­hjálmur farinn að taka að sér fleiri konung­leg skyldu­störf en nokkru sinni áður. Því mætti leiða að líkum að á næstu árum muni hann leggja grunninn að eigin valda­tíma, hvenær svo sem það verður.

Vilhjálmur hætti í breska flughernum árið 2017 og sinnir nú konunglegum skyldum sínum í fullu starfi.
Mynd/Getty Images