Harry og Vil­hjálmur Breta­prinsar hafa gefið út sam­eigin­lega yfir­lýsingu þar sem þeir þver­taka fyrir að Vil­hjálmur hafi tjáð sig um sam­band bræðranna í gær. Mirror greinir frá og yfir­lýsingin sögð ein­stök.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá ætlar breska konungs­fjöl­skyldan að hittast á krísu­fundi í dag. Þar verður fram­tíð Harry og Meg­han innan konungs­fjöl­skyldunnar rædd en drottningin er sögð hafa lagt á það á­herslu að málið verði klárað hið snarasta. Í til­kynningunni hafna bræðurnir fréttum af um­mælum Vil­hjálms um sam­band þeirra.

Í frétt Mirror er tekið fram að til­kynning bræðranna sé harð­orð og gefin út rétt áður en fundur hefst. „Þrátt fyrir að hafa í­trekað neitað, var fals­frétt birt í breskum blöðum í dag þar sem fabúlerað er um sam­band her­togans af Sus­sex og her­togans af Cam­brid­ge,“ segir í til­kynningunni.

„Fyrir bræður sem að þykir svo annt um mál líkt og geð­heil­brigðis­mál, er orða­notkunin sér­lega móðgandi og særandi,“ segir enn fremur. Segja þeir að með­ferð breskra götu­blaða á upp­lýsingum um konungs­fjöl­skyldunnar hafi haft mikil á­hrif á sig.

Í fréttinni sem bræðurnir hafna var full­yrt að Vil­hjálmur hefði sagt að hann gæti ekki lengur stutt bróður sinn. „Ég hef stutt við bakið á bróður mínum allt okkar líf en ég get það ekki lengur,“ var haft eftir Vil­hjálmi.

„Ég er leiður yfir því. Það eina sem við getum gert, og það eina sem ég get gert, er að reyna að styðja þau og vona að innan tíðar munum við öll vera á sömu blað­­síðu,“ sagði Willi­am um málið. „Ég vil að allir séu í sama liði.“