Vil­hjálmur Breta­prins stýrði sér­stökum jóla­þætti af hlað­varpsseríunni Time To Walk hjá App­le Fit­ness+. Í þættinum fer Her­toginn af Cam­brid­ge með hlust­endur í ferða­lag um 20.000 hektara landar­eign bresku konungs­fjöl­skyldunnar Sandring­ham Esta­te og segir hjart­næmar sögur úr lífi sínu.

Í þættinum ræðir krón­prinsinn meðal annars um mikil­vægi þess að halda sér and­lega hraustum og minnist hann eins einkar vand­ræða­legs augna­bliks sem átti sér stað fyrir nærri ára­tug síðan á galaveislu í Kensington höll.

„Ég trúi því ekki að ég sé virki­lega að segja ykkur þessa sögu,“ segir Vil­hjálmur um at­vikið sem átti sér stað árið 2013. Banda­rísku popp­stjörnurnar Jon Bon Jovi og Taylor Swift voru meðal þeirra sem komu fram í boðinu sem var hugsað til fjár­öflunar.

Ef til vill var þetta augnablikið þegar Taylor Swift bað Vilhjálm um að syngja með sér.
Fréttablaðið/Getty

Skilur ekki hvað kom yfir hann

Vil­hjálmur bjóst við því að hann myndi eyða kvöldinu í að taka í hendurnar á mektar­mönnum og blanda geði við fólk eins og venjan er á slíkum við­burðum. Kvöldið fór þó ekki alveg eftir á­ætlun því krón­prinsinn var dreginn út úr skelinni af Taylor Swift á ó­væntan hátt.

„Ég sat við hliðina á Taylor Swift, hún var vinstra megin við mig. Og eftir að Jon kláraði fyrsta lagið þá var pása og þá sneri hún sér að mér. Hún snerti hand­legginn minn, horfði í augun á mér og sagði „Komdu, Willi­am. Förum og syngjum,“ segir Vil­hjálmur í þættinum.

Krón­prinsinn segist enn þann dag í dag ekki skilja hvað í ó­sköpunum kom yfir hann.

„Í hrein­skilni sagt, jafn­vel núna þá er ég með kjána­hroll yfir því sem gerðist næst og ég skil ekki af hverju ég gaf eftir,“ segir hann en viður­kennir þó að hann hafi í raun átt engra annarra kosta völ.

„Ég stóð upp eins og hvolpur og sagði „Já, ókei, þetta hljómar eins og frá­bær hug­mynd. Ég fylgi þér.“

Steig upp á svið í transi

Vil­hjálmur lýsir at­vikinu þannig að hann hafi stigið upp á sviðið í transi á meðan hann reyndi í ör­væntingu að muna textann við Bon Jovi slagarann Livin' On a Pra­yer.

„Undir smókingnum mínum var ég kóf­sveittur. Mér leið eins og svani, að því leyti að ég reyndi að halda mér á yfir­borðinu en undir niðri voru litlu lappirnar að róa á ofsa­hraða.“

Þrátt fyrir ára­tuga reynslu af því að halda ræður og vera í sviðs­ljósinu er ljóst að prinsinn er ekki jafn sjóaður í tón­listar­flutningi. Hann virðist þó hafa komist klakk­laust frá eld­rauninni.

„Stundum, þegar manni er kippt út úr þæginda­hringnum sínum þá þarf maður bara að kýla á það,“ segir Vil­hjálmur.

Horfa má á upp­töku af at­vikinu af­drifa­ríka á Youtube.