Vilhjálmur Bretaprins fagnar því að breska ríkisútvarpið, BBC, ætli sér að hefja rannsókn hvort Díana prinsessa heitin, móðir Vilhjálms, hafi verið ginnt til að koma í frægt sjónvarpsviðtal árið 1995. Viðtalið var mjög umtalað á sínum tíma og er talið að það hafi verið meðal þess sem leiddi til að Elísabet Englandsdrotting hvatti Díönu og Karl Bretaprins til að skilja.

Ákvörðunin um rannsóknina var tekin eftir að Charles Spencer, bróðir Díönu, sagði fréttamanninn Martin Bashir hafa lagt fram fölsuð gögn til að fá aðgang að Díönu og vinna hana á sitt band. Áttu gögnin að sýna að háttsettir starfsmenn bresku hirðarinnar hefðu fengið greitt fyrir að njósna um Díönu.

Í viðtalinu ræddi Díana meðal annars um samband Karls við Camillu Parker-Bowles, sem síðar kvæntist prinsinum. „Við vorum þrjú í þessu hjónabandi, það var ansi þröngt á þingi.“ Þá yrði hún aldrei drottning, en vildi verða drottning í hjörtum almennings.

Spencer segir að ef ekki hefði verið fyrir gögnin hefði hann aldrei ráðlagt systur sinni að fara í viðtalið, BBC skuldi honum og almenningi afsökunarbeiðni vegna framgöngu Bashir.

BBC hefur sagt að til sé minnisblað, skrifað af Díönu sjálfri, þar sem hún segi að gögnin hafi ekki átt þátt í ákvörðun hennar að koma í viðtalið. Rannsóknin verður í höndum Dyson lávarðs.

Vilhjálmur, sem er annar í röðinni að krúnunni. segir rannsóknina skref í rétta átt. „Sjálfstæð rannsókn er skref í rétta átt,“ segir hann, en Vilhjálmur tjáir sig yfirleitt ekki um málefni sem þetta. „Þetta mun leiða í ljós sannleikann að aðdragandanum að viðtalinu og ákvarðanirnar sem teknar voru af hálfu BBC á sínum tíma.“