Sviðslistamennirnir Vilhelm Neto og Stefán Ingvar Vigfússon gera upp æsku sína, menntun og uppeldi í nýrri uppistandssýningu í Tjarnarbíói í lok september.

Vilhelm ólst upp í Portúgal, í „heitu loftslagi og heitu félagslífi“ og flutti til Íslands 14 ára gamall. Hann segist hafa átt fáa vini og átti erfitt með að venjast kuldanum. „Ég hef verið í menningarsjokki síðan,“ segir Vilhelm.

Stefán Ingvar segir að hann hafi verið skakkur frá því að hann var 16 ára.

„Ég var alltaf skakkur og fullur í MH. Svo fékk ég þá flugu í hausinn að gerast sviðslistamaður. Í Listaháskólanum rann síðan af mér og ég hugsa að grasreykingarnar hafi ekki borgað sig þegar upp er staðið,“ segir Stefán Ingvar í samtali við Fréttablaðið. Eftir það dreif hann sig í meðferð.

„Síðan þá hef ég reynt að vinna úr gremjunni minni en það gengur ekkert vel,“ segir Stefán Ingvar.

Vilhelm og Stefán hafa verið vinir frá því í menntaskóla og er þetta þriðja uppistandskvöldið sem þeir halda saman.

Stefán Ingvar og Vilhelm Neto hafa tvisvar troðið upp með uppistandshópnum Fyndnustu mínum á Hard Rock café fyrir troðfullum sal. „Við gerum ráð fyrir því að það verði stappað aftur og ekkert minna skemmtilegt en síðast.“
Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Leikhústöfrar betri en rótsterkt kannabis

Þetta er stærsti uppistandsviðburður þeirra til þessa, en Vilhelm telst núorðið til vinsælustu grínasta landsins og er þekktur fyrir grínmyndbönd sín á samfélagsmiðlum. Hann er nýfluttur til Íslands eftir leikaranám í Danmörku. Hann er einnig þáttastjórnandi hlaðvarpsþáttanna Já OK! ásamt Fjölni Gíslasyni á RÚV Núll.

Stefán Ingvar er sviðshöfundur, útvarpsgerðarmaður og grínisti og nýútskrifaður af sviðshöfundabraut LHÍ. Hann er einnig dramatúrg verksins HÚH! sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu daginn fyrir uppistandið. Því er nóg um að snúast hjá félögunum.

„Það fylgir hins vegar starfinu að fá reglulega nóg af leikhúsi. Þá hellast yfir mann efasemdirnar og maður lítur öfundaraugum á fólk eins og bróður manns sem lærði stjórnmálafræði. Besta móteitrið við því er að fara í langan göngutúr eða hláturskast yfir einhverju hversdagslegu.“

„Leikhústöfrar eru betri en rótsterkt kannabis að því leyti að sköpunargleðin kemst raunverulega á flug í staðinn fyrir að kúldrast í þykjustuleik ofan í kjallara,“ segir Stefán.

Sýningin er 28. september í Tjarnarbíói og er hægt að nálgast miða hér.