Jönu Maren Óskarsdóttur og Davíð Örn Jóhannsson langaði að leggja sitt af mörkum í baráttu við textílsóun og bjóða upp á skemmtilegt umhverfi til þess að versla og selja notaðan fatnað á umhverfisvænan máta. Þau hafa lagt upp úr því að fá tónlistarfólk til að spila tónlist á tyllidögum og um helgar en í dag spilar Dj Yamaho fyrir gesti.

„En við kjósum að kalla okkur Hringrásarverslun þar sem við leggjum áherslu á fatnað og fylgihluti fyrir fullorðna,“ segir Davíð.

Hann segir viðtökurnar hafa verið langt fram úr væntingum.

„Til að mynda má nefna að fyrstu fimmtán dagana í maí endurseldum við 1.013 vörur en fyrstu fimmtán dagana í júní höfðum við endurselt 1.464 vörur, sem er um 45 prósent aukning milli mánaða, og eru það vörur sem ekki þurfti að framleiða með tilheyrandi álagi á vistkerfið.“

Þurfum ekki alltaf nýtt

Komu viðbrögðin ykkur á óvart?

„Já, þau hafa svo sannarlega komið okkur á óvart og eru ævintýri líkust þar sem verið hefur stöðugur vöxtur frá upphafi, og það sem er það skemmtilega við þetta er að það græða allir á þessum viðskiptum.“

Finnst ykkur viðbrögðin sýna aukinn áhuga Íslendinga á að endurnýta?

„Við erum afskaplega ánægð með að það er komin af stað alvöru vitundarvakning í garð endurnýtingar á fatnaði á Íslandi og við erum að hverfa frá þeirri skammarstefnu sem hefur verið haldið á lofti varðandi að ganga í notuðum fatnaði. Hingað kemur fólk af öllum kynjum, á öllum aldursbilum og úr flestum þjóðfélagshópum og gleður það okkur mjög að sjá hversu útbreidd þessi hugsun er að verða í þjóðfélaginu.“

Davíð og Jana eru búsett nálægt versluninni og langaði að leggja sitt af mörkum til að glæða svæðið í kringum Túnin meira lífi.

„Það hefur verið stefnan hjá okkur frá upphafi að gera það sem í okkar valdi stendur til að glæða hverfið okkar meira lífi, því við búum einnig í hverfinu sjálf.“

Reglulegir viðburðir

Hvað kemur til að þið eruð svona dugleg að standa fyrir viðburðum og tónlistaratriðum í búðinni?

„Við fengum til liðs við okkur Kristófer Elfar Sighvatsson, einnig þekktur sem KES, til að spila opnunarhelgina okkar og tókst það svo vel að við ákváðum að halda því áfram. Flestir listamenn höfðu ekki spilað opinberlega sökum samkomutakmarkana mánuðum saman og voru himinlifandi yfir því að fá tækifæri til að láta í sér heyra,“ segir Davíð, en þau Jana halda reglulega listsýningar í versluninni.

Eru fleiri viðburðir á döfinni hjá ykkur?

„Við stefnum að því að vera með viðburði hálfsmánaðarlega út sumarið en við fögnum einmitt sex mánaða afmæli fyrstu helgina í júlí og höfum fengið til liðs við okkur engan annan en KGB til þess að matreiða tóna ofan í gesti Hringekjunnar.“