Við lútum höfði fyrir því sem fellur er önnur ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, rithöfundar og bókmenntafræðings. Alda Björk segir bókina töluvert frábrugðna fyrri bók hennar, Við sem erum blind og nafnlaus, þótt hún hafi sótt í svipaðan brunn til að byrja með.

„Ég myndi segja að í fyrri hlutanum þá sé ég að fókusa meira á hið persónulega, en bókin fjallar í raun um stöðu mannsins í heiminum, hvað við erum að gera, hvaðan komum við, á hvaða ferðalagi erum við og hvert stefnum við. Þetta eru svona stóru spurningarnar í allri ljóðabókinni,“ segir hún.

Hið stóra og hið smáa

Alda Björk hikar ekki við að fást við stóru spurningar tilverunnar. Í fyrri hluta bókarinnar, sem nefnist Ástin á tímum fellibyljanna, fjallar hún um hið persónulega og smáa en setur það í samhengi við áleitnar vistfræðilegar spurningar. Í seinni hluta bókarinnar, sem nefnist Kennslu aflýst vegna byltingar, skrifar hún um þær tilvistarlegu spurningar sem vísindin vekja upp en gerir það út frá goðsögulegu og trúarlegu samhengi.

Spurð hvort það sé ekki erfitt að skrifa ljóð um svo stór hugtök segir Alda:

„Það kallaði á umtalsverða vinnu að finna þá nálgunarleið sem hentaði mér, en það sem mig langaði að fást við, allavega í þessari ljóðabók, voru stóru spurningarnar. Ég hafði bara mjög mikinn áhuga á því að gera það á þessum tímapunkti. Ég byrjaði að lesa heimsfræði eins og Sögu tímans eftir Stephen Hawking og einhver svona vinsæl vísindi. Þá byrjaði þetta að myndast og ljóðin fóru að koma til mín.“

Emilía Ragnarsdóttir/Forlagið

Sammannlegt samhengi

Að sögn Öldu Bjarkar á bókin að hluta til uppruna sinn í persónulegri reynslu, en í fyrri hlutanum er að finna ljóð sem hún orti eftir að hún missti föður sinn fyrir nokkrum árum.

„En þessi persónulega reynsla er svolítið falin. Þegar ég er að tala um það sem maður lendir í eins og kannski það sem við eigum öll sameiginlegt, t.d. mikinn sársauka, þá set ég það í einhvers konar sammannlegt samhengi. En ég held reyndar að þú getir ekki skrifað neitt án þess að það spretti úr persónulegri reynslu. Ljóðlistin náttúrulega er þannig að við erum meira tengd við ljóðmælanda, þetta getur verið enn meira falið í skáldsögum.“

Kennslu aflýst vegna byltingar

Ég beygi vilja Guðs

eins og ljósið

á bak við bjarta sól

sem er hulin mána.

Og ég færi stjörnuna í myrkrinu.

Tengsl ljóðlistar og fræða

Alda Björk starfar sem dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og að hennar sögn styður það vel við hvort annað að fjalla um bókmenntir á fræðilegum vettvangi og að skrifa þær.

„Það eina sem er kannski gallinn er að þegar maður er í fullri vinnu þá hefur maður ekki mikinn tíma en þetta er skylt þannig að þetta fer saman. Mér finnst hin fræðilega hugsun tengjast ljóðlistinni. Mér finnst það að skrifa fræðigreinar vera mjög skapandi iðja en samt er náttúrulega meira frelsi sem þú hefur í skáldskapnum.“

Í bókmenntafræði póstmódernismans var lögð mikil áhersla á það að aðskilja höfundinn frá höfundarverkinu en nú virðist höfundurinn aftur vera farinn að skipta miklu máli fyrir túlkun verka hans, ertu sammála því?

„Já, líklega er það rétt hjá þér. En þó að listamaðurinn hljóti að vera að fást við sína reynslu og sinn hugmyndaheim þá finnst mér stundum spurning hvort það sé of oft sett samasemmerki á milli verksins og listamannsins þegar kemur að ljóðlistinni. Stundum getur sú lestrarleið líka blindað okkur fyrir víðari skírskotun ljóðlistarinnar.“