Af hverju ákvað hinn víðfrægi höfundur Da Vinci lykilsins að skrifa barnabók?

„Ég hafði skrifað sjö skáldsögur í röð og mig langaði til að gera eitthvað aðeins öðruvísi. Sem barn var ég afar hrifinn af myndabókum Dr. Seuss, brjálæðislegum karakterum og hans fáránleikavísum. Í Dýrasinfóníunni langaði mig til að skapa svipaðan töfraheim mynda og skáldskapar fyrir nýja kynslóð ungs fólks, og taka hann skrefinu lengra,“ segir Dan Brown.

Af hverju að skrifa bók um dýr?

„Mér hefur alltaf þótt vænt um dýr og mig langaði að fjalla um ólíkan persónuleika þeirra. Svo fannst mér skemmtilegra að láta dýr setja fram boðskap frekar en að láta manneskjur gera það.“

Hægt er að skanna inn kóða í bókinni og hlusta á tónlist sem Brown samdi við söguna.

„Dýrasinfónían er lestrar- og myndabók með tónlistarlegum snúningi sem á að koma á óvart. Fyrir hvert og eitt dýr í bókinni samdi ég nútímalega klassíska tónlist, stutt skemmtileg lög sem endurspegla persónuleika viðkomandi dýrs,“ segir Dan Brown.

Blaðamaður spyr hvort hann leiki á hljóðfæri. „Já, ég spila á píanó,“ svarar hann.

Dan Brown með útgefendum sínum á Íslandi, Páli Valssyni og Pétri Má Ólafssyni, og glæpasagnahöfundunum Yrsu Sigurðardóttur og Ragnari Jónassyni.
mynd/aðsend

„Foreldrar mínir voru lærðir tónlistarmenn sem vildu ekki eignast sjónvarp, þannig að ég lék á píanó, söng í kórum og fór á tónleika. Þegar ég var barn var tónlistin eins og heilagur griðastaður. Hún róaði mig þegar ég var í uppnámi, var tryggur vinur þegar ég var einmana og hjálpaði mér að tjá gleði mína þegar ég var hamingjusamur – og það sem var best af öllu, hún ýtti undir sköpunargleði og ímyndunarafl. Enn þann dag í dag spila ég á píanóið á hverjum degi – venjulega eftir langan vinnudag við skriftir.“

Hann gefur sinn hluta höfundarverðlaunanna af útgáfu bókarinnar í Bandaríkjunum til tónlistarkennslu barna í heiminum.

Hann hefur komið til Íslands nokkrum sinnum á síðustu árum.

Hvað heillar hann við landið og á hann von á því að koma aftur fljótlega?

„Auk þess að hrífast af hinu ægifagra landslagi finnst mér Íslendingar vera sérstaklega hlýir og gestrisnir. Ég hef eignast góða vini á Ísland og vonast til að koma fljótlega aftur til að hitta þá,“ segir Dan Brown.