Helgarblaðið

Vildi ekki að kvöldið tæki enda

Bertu Maríu Þorkelsdóttur sem er tíu ára fannst aðfangadagskvöld líða allt of fljótt.

Berta María fékk alvöru fullorðinssaumavél í jólagjöf. Fréttablaðið/Ernir

Berta María kann vel að meta jólin og henni fannst nýliðið aðfangadagskvöld það besta sem hún hefur upplifað. Hvernig var það?

Við fórum til ömmu og afa í Goðatúni, borðuðum hamborgarhrygg og heimatilbúinn ís. Ég fékk alls konar fallega hluti frá ættingjum mínum og vinum, til dæmis Harry Potter tösku, vettlinga, peysur, málverk eftir ömmu mína og alvöru fullorðinssaumavél! Mig langaði ekki að fara að sofa af því ég vildi ekki að kvöldið tæki enda.

Hefur þú lesið eða horft á eitthvað athyglisvert um jólin? Ég las bókina Miðnæturgengið, það er falleg saga. Nú er ég að lesa Harry Potter og eldbikarinn sem ég fékk í jólagjöf og er spennandi.

Hvað hefur þú gert fleira í jólafríinu? Leikið við vini og vinkonur, meðal annars úti á trampólíni (Já, ég er með trampólín úti í garði allt árið … engar áhyggjur það er niðurgrafið svo það getur ekki fokið), lesið bækur, leikið við bróður minn og farið í veislur.

Hvað gerir þú á gamlárskvöld? Líklega förum við til bróður mömmu í Garðabæ. Þar borðum við saman, horfum á Skaupið og fylgjumst með í sjónvarpinu þegar gamla árið hverfur og það nýja birtist, skálum fyrir nýja árinu og förum svo út að skjóta upp flugeldum.

Eitthvað sérstakt sem þig langar að gera á nýja árinu? Mig langar að lesa meira og er byrjuð í lestrarátaki þar sem ég reyni að lesa í allavega klukkutíma á dag. Ég tek sjálf tímann eða fæ mömmu eða pabba til að gera það, sérstaklega þegar ég er í bílnum og hef enga klukku. Átakið gengur mjög vel, ég hef náð markmiðum mínum allan desember. Svo langar mig að vera enn betri manneskja á næsta ári en á þessu.

Hver eru helstu áhugamálin? Körfubolti, Harry Potter og klarínett. Ég æfi körfubolta hjá Val, er svo að byrja í A-sveit Skólahljómsveitar Austurbæjar eftir áramót og er mjög spennt! Mér finnst líka gaman að skrifa sögur, lesa og sauma á saumavél.

Er einhver staður í heiminum sem þig langar mest að skoða? London. Af því að þar er Harry Potter safnið.

Hvað dreymir þig um að verða? Leikari eða rithöfundur.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Helgarblaðið

Getur ekki talið allar plöturnar

Helgarblaðið

Fær innblástur úr listum og pólitík

Helgarblaðið

Gefst ekki upp

Auglýsing

Nýjast

Hann er algjör stuðpinni

Andorra - Ísland: „Þarf alltaf að vera fótbolti‘?“

Anita Hirleker og verslunin Fischer sigurvegarar

Þegar Eurovision varð háalvarlegt

Frískandi eftirréttir í brúðkaupið

Tölurnar á bak við brúð­kaup aldarinnar

Auglýsing