Matur og munúð eiga vel við Berglindi og má með sanni segja að hún töfri fylgjendur sína upp úr skónum með sínum syndsamlegu ljúffengum réttum og framsetningu. Berglind elskar nýtur þess að útbúa kræsingar sem gleðja bæði auga og munn. Þegar við leituðum til Berglindar með vikumatseðilinn tók hún því fagnandi enda veit hún fátt skemmtilegra en að útbúa sælkerakræsingar og njóta. Einnig eru stór tímamót framundan í haust hjá Berglindi sem tengjast að sjálfsögðu matgerðinni og ástríðu hennar fyrir mat.

„Í september fögnum við tíu ára afmæli uppskriftasíðunnar Gulur, Rauður, Grænn og salt sem hefur fyrir löngu sigrað hug og hjörtu landsmanna með einföldum og bragðgóðum uppskriftum. Þetta er búið að vera dásamlegt ævintýri og mikill lærdómur og ég hefði aldrei grunað að mér myndi enn þykja þetta verkefni jafn skemmtilegt tíu árum síðar. Ég vil nýta tækifærið og þakka lesendum og samstarfsaðilum fyrir farsæl liðin ár,“ segir Berglind full þakklætis.

„Framtíðin er björt og eins og vanalega er ég að bralla allskonar. Markmiðið er að halda áfram að gera það sem ég hef ástríðu fyrir, með gleðina að leiðarljósi. Það kemur alltaf eitthvað gott út úr því. Í sumar ætla ég skella mér til Krítar en ég hef aldrei komið til Grikklands og ég er mjög spennt að kynnast matarmenningu þeirra. Ég elda aldrei á ferðalögum erlendis, heldur nýt ég þess að láta elda fyrir mig og stór hluti af því að ferðast felur í sér að fara á spennandi veitingastaði. Þeir þurfa ekki að vera eitthvað fínt, heldur miklu frekar svona fjölskyldureknir matreiðslustaðir með sál. Annars stefni ég svo að því að ferðast um Ísland og vera dugleg að fara í fjallgöngur. Þetta sumar leggst alveg fáránlega vel í mig.“

Hér kemur hinn girnilegi matseðill sem enginn stenst:

Mánudagur – Ómótstæðilega kjúklingasúpa

„Það er ljúft að byrja vikuna á góðri kjúklingasúpu og mér lýst alveg hrikalega vel á þessa. Ef maður vill sigra mánudaginn er frábært að vinna sér í haginn og gera hana á sunnudegi, en þá er hún enn bragðmeiri og betri. Nammi, namm og vikan byrjar vel.“

Ómótstæðilega ljúffeng kjúklingasúpa toppuð með kóríander

Kjúklingasúpa

Þriðjudagur – Himneska salatið hennar Kaju sem tryllir bragðlaukana

„Sumarið kallar á léttan mat og fallega liti og hún Kaja veit hvað hún syngur þegar kemur að þessu. Þetta salat er sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana og ekki verra að það sé stútfullt af góðri næringu.“

Himneska salatið hennar Kaju með nýjum brögðum

Salatið hennar Kaju

Miðvikudagur – Risarækjur með hvítlauk og chili

„Þessi réttur er dæmi þess að einfaldleikinn er oft langbestur. Þessi réttur er ofureinfaldur í gerð og bragðast alltaf jafn dásamlega. Hann færir mig í huganum til Barcelona, en það var einmitt ferð til Barcelona sem varð kveikjan að Gulur, rauður, grænn og salt. Mæli með að bera brauðhleif fram með þessum rétti og dýfa í olíuna.“

Risarækjur með chili og hvítlauk

Risarækjur og chili

Fimmtudagur – Graskers ravioli sem bráðnar í munni

„Þessi réttur hljómar alveg fáránlega vel og tilvalið að gefa sér góðan tíma í eldamennsku og njóta.“

Ravoili fyllt með graskeri og toppað með smjörsósu

Ravioli með graskeri

Föstudagur – Ostafylltir hamborgarar

„Drengirnir mínir myndu vera svo glaðir ef ég myndi skella í þennan rétt, enda elska þeir fátt meira en djúsí hamborgara. Ostafyllt "had me at hello"!

Ostafylltir hamborgarar að hætti Eyglóar

Ostafylltir hamborgarar

Laugardagur – Edamame baunir með Asian Fusion ívafi, lambaprime og grillað sælkera epli

„Það er eitthvað svo rugl ávanabindandi og gott við eldaðar edamame baunir. Ég vil hafa mínar smá "spicy" svo þessi uppskrift hljómar eins og sinfónía í eyrum mér og tilvalið að byrja gott laugardagskvöld með þessum. Í aðalrétt finnst mér uppskriftin að þessum lambaprime hljómar mjög vel og fyrst það er laugardagur er freistandi að hafa þessi grilluðu epli með kókos súkkulaðisósu í eftirrétt.“

Edamame baunir með Asian fusion ívafi

Edamame baunir

Grillað lambaprime og grilluð epli með kókos og karamellusósu

Lambaprime

Grillað epli

Sunnudagur – Unaðslega kálfasnitsel á ítalska vísu

„Ég elska Ítalíu! Fólkið, menninguna, veðurfarið og svo er enginn með tærnar þar sem Ítalir hafa hælana þegar kemur að einfaldri matargerð úr gæðahráefnum. Þessi réttur er ekta sunnudags og lokar góðri matarviku fullkomlega.“

Unaðslega ljúffengt kálfasnitsel að hætti Ítala

Kálfasnitsel